Lögregla á Norðurlandi eystra rannsakar enn stuld á síma árið 2021, meðan eigandinn lá meðvitundarlaus á sjúkrahúsi, en gögn af símanum rötuðu svo í tvo fjölmiðla, Kjarnann og Stundina.
Það er þó ekki fjölmiðlaþátturinn, sem lögregla rannsakar, heldur einfaldlega stuldurinn á símanum og meðferð og deiling persónulegra gagna af honum. Samkvæmt greinargerð saksóknara liggur fyrir hver tók símann og jafnframt virðist hafa komið honum til Ríkisútvarpsins (Rúv.), en óljósara hvernig gögnin bárust til hinna miðlanna tveggja.
Við rannsóknina hafa nú fimm blaðamenn fengið stöðu sakborninga, en þeir neita að tjá sig um málavöxtu til varnar heimildarmanni. Blaðamönnum ber að verja heimildarmenn, en vafamál hvort það eigi við þegar lögreglu er kunnugt um hver hann er og rannsakar ekki þann þátt málsins.
Enn síður ætti það þó við um Rúv. sem flutti engar fréttir úr gögnum símans. Vernd heimildarmanna frétta, sem aldrei voru sagðar, er ekki góð ástæða til þess að neita að tjá sig um sakamál.
Málið flækist enn ef rétt reynist að fréttamenn Rúv. hafi komið gögnunum til annarra miðla. Þá mætti spyrja fyrir hvern þeir hafi í raun verið að vinna, en aðallega þó hvaða heimildarmenn þeir þykist vera að verja með þögninni? Sjálfa sig?
Um Rúv. gilda sérstök lög og á því hvíla sérstakar og strangari skyldur en öðrum miðlum. Málið er flókið og snertir m.a. viðkvæma stöðu fjölmiðla, sem veita eiga valdhöfum aðhald með sannleikann að vopni.
Þeim er samt ekki heimilt að fara út fyrir ramma laganna eða vera naumir á hið sanna. Það þekkja fáir betur en Stefán Eiríksson útvarpsstjóri, sem sjálfur er fyrrverandi lögreglustjóri. Hvernig sem í málinu liggur er löngu tímabært að Ríkisútvarpið geri hreint fyrir sínum dyrum.