Sigríður Margrét Oddsdóttir
Sigríður Margrét Oddsdóttir
Orkan er undirstaða hagsældar á heimsvísu og eftir því sem orkunotkun landa eykst vex landsframleiðsla og lífskjör batna.

Sigríður Margrét Oddsdóttir

Heimurinn allur stefnir í átt að kolefnishlutleysi. Yfir 90 lönd sem samtals bera ábyrgð á 80 prósentum allrar losunar hafa sett sér markmið um kolefnishlutleysi. Öll helstu hagkerfi heimsins, Bandaríkin, Kína og Evrópusambandið, stefna að sama markmiði. Tveir þriðju allra Fortune Global 500-fyrirtækja hafa sett sér stefnu um kolefnishlutleysi en fyrir örfáum árum var hlutfallið innan við þriðjungur.

Á næstu árum munu verða til þrjú hundruð milljón ný græn störf samhliða þessari þróun. Hversu mörg nýrra grænna starfa verða staðsett á Íslandi er undir okkur komið.

Þrjá fjórðu allrar losunar á heimsvísu má rekja til orkunotkunar – orkunotkunar í iðnaði, samgangna, bygginga og annars. Stærsta loftslagsverkefnið á heimsvísu er því orkuskipti.

Orkuskipti en ekki að draga verði úr orkunotkun. Orka knýr áfram hagkerfi heimsins. Við sköpum engin verðmæti án orku. Það er svo einfalt og tími kominn til að tengja í þeim efnum. Orkan er undirstaða hagsældar á heimsvísu og eftir því sem orkunotkun landa eykst vex landsframleiðsla og lífskjör batna.

Stóra áskorunin er að skilja á milli orkunotkunar og losunar gróðurhúsalofttegunda. Þar hefur Ísland þegar markað sér sérstöðu sem mikilvægt er að undirstrika nú. Ísland hefur þegar náð að aftengja orkunotkun frá losun. Hátt í 90 prósent af orkuframboði landsins eru vatnsorka og jarðvarmaorka sem við framleiðum sjálf.

Enda er íslensk framleiðsla einstaklega loftslagsvæn. Ef öll framleiðsla heimsins færi fram á Íslandi væri kolefnisspor heimsbyggðarinnar aðeins tæpur þriðjungur af núverandi losun.

Ísland hefur í raun farið tvisvar í gegnum orkuskipti, annars vegar þegar rafmagnsframleiðsla hófst með vatnsafli og hins vegar þegar jarðhiti var notaður í stað olíu til húshitunar. Núna er komið að þriðju orkuskiptunum. Með þeim mun okkur takast að láta af innflutningi á yfir milljón tonnum af olíu árlega sem kostar yfir hundrað milljarða hvert einasta ár.

Atvinnulífið hefur skýra sýn – við viljum ná enn betri árangri í loftslagsmálum og við viljum bæta lífskjör.

Þriðju orkuskiptin kalla á nánast tvöfalt meira framboð af fjölbreyttri grænni hagkvæmri orku og hagvöxtur og fólksfjölgun kallar svo á enn meira framboð af orku. Samkeppnishæfni Íslands fer nú þegar dvínandi þegar kemur að grænni hagkvæmri orku, skerðingar á raforku til atvinnustarfsemi eru orðnar nær árviss viðburður og norrænt heildsöluverð með raforku er lægra en heildsöluverð á Íslandi.

Þær aðgerðaáætlanir sem settar hafa verið fram af stjórnvöldum og atvinnulífinu í loftslagsmálum eru einhverjar þær metnaðarfyllstu sem gerðar hafa verið en á þeim er grundvallarmunur; atvinnulífið leggur til jákvæða hvata en stjórnvöld leggja áherslu á neikvæða hvata. Samkvæmt aðgerðaáætlun í loftslagsmálum ætla stjórnvöld að ná þremur fjórðu af árangrinum með sköttum, bönnum og kvöðum.

Skattlagning án þess að tæknin sé til reiðu breytir ekki hegðun. Jákvæðir hvatar sem styðja við fjárfestingu í grænum lausnum og innleiðingu á nýrri tækni gætu hins vegar flýtt þróuninni til muna.

Við þurfum að muna að loftslagsmál eru hnattræn og sóknarfærin sem felast í grænni umbreytingu á heimsvísu eru margs konar.

Höfundur er framkvæmdastjóri SA.

Höf.: Sigríður Margrét Oddsdóttir