Áslaug er bókavörður á eftirlaunum.
Áslaug er bókavörður á eftirlaunum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Yfirleitt er ég með þrjár bækur í takinu. Eina á náttborðinu, eina hljóðbók í símanum og síðan bókina sem er valin fyrir mig í hverjum mánuði. Ég er í leshring ásamt átta góðum vinkonum og við skiptumst á að velja bók fyrir mánaðarlegu fundina okkar

Yfirleitt er ég með þrjár bækur í takinu. Eina á náttborðinu, eina hljóðbók í símanum og síðan bókina sem er valin fyrir mig í hverjum mánuði. Ég er í leshring ásamt átta góðum vinkonum og við skiptumst á að velja bók fyrir mánaðarlegu fundina okkar. Þannig hef ég kynnst fjölda bóka sem hefðu kannski annars farið framhjá mér.

Á síðasta fundi ræddum við um Klakahöllina eftir norska höfundinn Tarjei Vesaas. Bókin kom út í íslenskri þýðingu Hannesar Péturssonar árið 1965. Ég las hana á unglingsárunum og tilfinningin fyrir bókinni sat enn í mér hálfri öld síðar. Þetta var mjög ánægjuleg endurlesning. Á næsta fundi ætlum við að heiðra minningu Auðar Haralds og erum að lesa Hvunndagshetjuna.

Ég er tólf barna amma og les fyrir barnabörnin þegar tækifæri gefst. Ég hreifst af viðtali við Sigrúnu Eldjárn í Kiljunni fyrr á árinu um nýútkomna bók hennar, Sigrún á safninu. Ég keypti hana strax og las hana mér til mikillar ánægju. Ömmubörnin sem hafa heyrt hana voru líka hrifin. Ég varð mér úti um árskort á Þjóðminjasafnið þannig að nú rölti ég með þau yfir á safnið að lestri loknum.

Undanfarin ár höfum við hjónin ferðast mikið um Ísland. Nauðsynlegur ferðafélagi er bókin 171 Ísland eftir Pál Ásgeir Ásgeirsson. Þar segir hann mjög skemmtilega frá áhugaverðum áfangastöðum í alfaraleið. Hver staður fær eina opnu í bókinni. Við höfum rambað á fjölmarga áður óþekkta staði með aðstoð bókarinnar.

Mér finnst afar gott að hlusta á hljóðbók á meðan ég prjóna eða geng. Ég tilheyri þeim hópi sem hefur hlustað eða lesið bækurnar um systurnar sjö eftir Lucindu Riley. Ég hef hitt fólk sem nær engri tengingu við bækurnar en það geri ég. Nú er ég að hlusta á lokabókina og finnst ég vera á ættarmóti með gömlum vinum.

Á síðasta ári kom út bók sem er í miklu uppáhaldi hjá mér. Hún heitir Glampar og er eftir Kristínu Arngrímsdóttur. Þar fjallar Kristín á ljóðrænan og fallegan hátt um æskuár sín á Odda á Rangárvöllum. Við heimsóttum sögusviðið einmitt í sumar og þá varð mér hugsað til bókarinnar.