Salvatore „Toto“ Schillaci fagnaði mörkum sínum með eftirminnilegum tilþrifum. Schillaci sló í gegn í framlínu ítalska landsliðsins á heimsmeistaramótinu árið 1990. Þá skoraði hann sex mörk og varð markakóngur mótsins, sem haldið var á Ítalíu. Schillaci lést á miðvikudag úr krabbameini á Civico-sjúkrahúsinu í Palermo á Sikiley aðeins 59 ára gamall.
Margir vottuðu Schillaci virðingu sína. „Ciao Toto,“ sagði í tilkynningu frá knattspyrnuliðinu Juventus á félagsmiðlum og fylgdi mynd af honum í treyju liðsins. Í tilkynningu frá Inter sagði að hann hefði léð draumum heillar þjóðar vængi.
Ítalska knattspyrnusambandið tilkynnti að mínútu þögn yrði fyrir alla knattspyrnuleiki á Ítalíu þessa helgi í minningu knattspyrnumannsins.
„Fagnaðarlæti hans þegar hann skoraði mörk og svipurinn á andliti hans urðu tákn fyrir sameiginlega gleði og munu að eilífu verða hluti af ítalskri knattspyrnuarfleifð,“ sagði Gabriele Gravina, formaður Ítalska knattspyrnusambandsins.
Ferill Schillacis hófst hjá Messina í annarri deild og þaðan lá leiðin til Juventus og Inter Mílanó. Hann átti misjöfnu gengi að fagna með félagsliðunum, sem hann lék með, en hans besta tímabil var í aðdraganda HM árið 1990. Þá skoraði hann 21 mark í öllum mótum og Juventus vann bæði UEFA-bikarinn og ítalska bikarinn.
Hann varð hins vegar þjóðhetja þá um sumarið og var það ekki síst honum að þakka að Ítalía komst í fjögurra liða úrslit. Segja má að fyrir mótið hafi enginn þekkt „Toto“ Schillaci, en að því loknu vissu allir hver hann var.
Schillaci var einn af síðustu leikmönnunum, sem voru valdir í landsliðið fyrir HM, og valið var umdeilt. Þegar stórstjörnunum hafði ekki tekist að brjóta vörn Austurríkis á bak aftur í fyrsta leik Ítalíu á mótinu og aðeins kortér var eftir var hann hins vegar settur inn á. „Fyrir ári var ég enn að spila í annarri deild, á ég að fara að stressa mig núna,“ segist hann hafa hugsað með sér til að róa taugarnar þegar hann kom inn á. Þremur mínútum síðar var hann búinn að skora fyrsta og eina mark leiksins – í sínum fyrsta landsleik – og gat ekki hamið fögnuð sinn.
Ítalía sló Írland út í átta liða úrslitum og Schillaci skoraði eina markið. Ray Houghton var þá í liði Írlands og minntist Schillacis í samtali við Daily Mirror. Hann sagði að minningin um leikinn væri ekki ljúf þar sem Írland hefði tapað, en Schillaci hefði verið ótrúlegur markaskorari, refurinn í teignum og nafn hans yrði ávallt samnefnari fyrir HM á Ítalíu 1990.
„Ég held að stuðningsmennirnir hafi elskað hann vegna mannlegu hliðarinnar, að hann var hvorki með stæla né látalæti,“ sagði Houghton. „Hann leit ekki á sig sem ofurstjörnu. Hann var bara jarðbundinn náungi, sem þurfti að leggja hart að sér til að skapa sér færi.“
Í fjórar vikur var Schillaci á allra vörum á Ítalíu. Hann var ekki lengur sveitalubbinn frá Sikiley, sem átti ekki heima í landsliðinu. Hann var maðurinn sem átti að gera Ítali að heimsmeisturum.
Hylltur eins og páfinn
„Í Palermo var fjandinn laus, pabbi var hylltur eins og hann væri páfinn fyrir framan húsið okkar,“ sagði Schillaci um stemninguna meðan á mótinu stóð.
Schillaci fékk gullskóinn fyrir að vera markahæstur og gullboltann fyrir að vera besti maður mótsins. Skaut hann þar aftur fyrir sig leikmönnum á borð við Lothar Matthäus, Diego Maradona og Marco van Basten. Eins og það væri ekki nóg fæddist honum líka sonur, Mattia, meðan á mótinu stóð.
Ítalir voru slegnir út af Argentínu í leik sem fór í framlengingu og vítaspyrnukeppni. Eftir framlengingu stóð 1-1 og vitaskuld skoraði Schillaci markið. Leikurinn fór fram í Napolí. Helsta stjarna Argentínu var Maradona, sem var með stöðu goðsagnar í Napolí og hjálpaði til við að slá gestgjafana út fyrir framan aðdáendur sína í borginni. Í stúkunni mátti sjá áletranir á borð við að áhorfendur væru með Maradona í hjörtum sér, en Ítalíu á vörum sér.
Schillaci sagði síðar að hann væri viss um að Ítalía hefði sigrað Argentínu hefði leikurinn farið fram í Róm og lagt Vestur-Þýskaland í framhaldinu.
Argentína mætti Vestur-Þýskalandi í úrslitum og höfðu Þjóðverjarnir betur.
Schillaci lék aðeins 16 landsleiki fyrir Ítalíu og skoraði aðeins eitt mark til viðbótar á landsliðsferli sínum. Væntingarnar voru miklar eftir þetta sumar, en á næsta keppnistímabili skoraði hann aðeins fimm mörk með félagsliði sínu og tímabilið þar á eftir sex mörk. Fjórum árum eftir HM 1990 fór hann frá Juventus til Jubilo Iwata í Japan og lauk þar knattspyrnuferli sínum.
Schillaci sagðist vera sáttur við að sér hefði ekki tekist að fylgja frammistöðunni á HM árið 1990 eftir: „Það eru til leikmenn sem spila í 20 ár og ná ekki því sem ég náði. Þetta var bara eitt sumar – en hvað með það?“