Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Hálslón, uppistöðulón Fjótsdalsstöðvar við Kárahnjúka, fylltist klukkan 1:45 í fyrrinótt.
Þar með fór lónið á yfirfall og hinn tilkomumikli foss Hverfandi birtist. Vatninu er veitt um yfirfall við vestari enda Kárahnjúkastíflu niður að gljúfurbarminum og þaðan steypist það í 90-100 metra háum fossi niður í Hafrahvammagljúfur.
Það þýðir að Jökulsá á Dal neðan virkjunar verður vatnsmikil, straumhörð og gruggug, þar á meðal í Stuðlagili, sem er vinsæll áningarstaður ferðamanna. Ef að líkum lætur verður lónið á yfirfalli fram í október/nóvember.
Í fyrra fylltist Hálslón nokkru fyrr en að þessu sinni, í lok júlí.
Eins og fram hefur komið í fréttum hefur vatnsbúskapur Landsvirkjunar oft gengið betur en í sumar. Er Hálslón það fyrsta sem fyllist.
Á heimasíðu Landsvirkjunar má sjá að enn vantar 70 sentimetra upp á að Blöndulón fari á yfirfall. Í fyrra gerðist það 21. ágúst.
Verst er staðan í Þórisvatni, sem sér virkjunum á Þjórsársvæðinu fyrir vatnsforða. Í gær vantaði fimm metra upp á að lónið fylltist. Ljós er að þetta mikilvæga miðlunarlón mun ekki fyllast á þessu hausti frekar en nokkur undanfarin ár.