Sigurður Nikulásson
Sigurður Nikulásson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Opið bréf til ÍSÍ, stjórnmálamanna og fyrirtækja á Íslandi.

Sigurður Nikulásson, Aðalsteinn Valdimarsson og Einar Ólafsson

Næstu vetrarólympíuleikar verða haldnir í Cortina d'Ampezzo á Ítalíu í byrjun árs 2026. Nú, í aðdraganda leikanna, leggur allt landsliðs- og afreksfólk innan Skíðasambands Íslands nótt við dag í undirbúningi fyrir leikana. Þar viljum við hafa sem flesta íslenska keppendur og ná framúrskarandi árangri. Það verður hins vegar ekki að veruleika nema með ótrúlegri elju og fórnarkostnaði.

Kostnaðurinn við að komast í fremstu röð í skíðaíþróttum er mikill, og er íþróttin sennilega ein sú dýrasta innan vébanda ÍSÍ. Æfinga- og keppnisbúnaður er gríðarlega dýr. Árlega þarf íþróttafólk að kaupa fjölda skíða, bretti, skó, stafi og áburð. Lið þurfa að kaupa stangir, flögg og annan æfingabúnað. Flestallt afreksfólkið okkar þarf að búa erlendis til að æfa og keppa, en íþróttahúsið okkar – skíðasvæðin á Íslandi – er lokað í kringum 300 daga á ári. Ofan á þetta bætast síðan öll ferðalög. Árlegur kostnaður okkar besta skíðafólks er á bilinu 7-12 milljónir króna.

Þetta er kostnaðurinn við að vera samkeppnishæf við keppendur annarra landa. Á sumrin reynir íslenskt vetraríþróttafólk að afla sér tekna með vinnu samhliða æfingum, auk þess að sinna nánast heilu stöðugildi við að afla styrkja, sem oftast eru af skornum skammti. Á sumrin þarf að vinna sem allra mest og púsla niður æfingaprógrammi til hliðar. Á veturna er síðan ómögulegt að stunda vinnu samhliða æfingum, keppnum, ferðalögum og veru erlendis. Þá eru þau tekjulaus, greiða ekki lífeyrisgreiðslur og sum hver að fresta menntun. Allt harkið eykur líkurnar á meiðslum og dregur úr samkeppnishæfni íþróttafólksins. Allra besta afreksfólkið fær styrki í gegnum afreksstyrki ÍSÍ og ólympíusamhjálpina, en þessir styrkir duga skammt og dreifast á of fáa.

Til samanburðar fær afreksfólk annars staðar á Norðurlöndum greidd laun fyrir að stunda sína íþrótt, þau hafa aðgang að sjúkraþjálfun, læknum, sálfræðingum, geta æft allt sumarið og einbeitt sér að afreksþjálfun svo fátt sé talið upp.

Innan raða Skíðasambandsins eru í raun fimm íþróttagreinar: alpagreinar, skíðaganga, snjóbretti, freestyle og skíðaskotfimi. Til að að setja það í samhengi hversu ólíkar þessar greinar eru má líkja þeim við kraftlyftingar, langhlaup og fimleika. Fyrir hverja grein sambandsins starfar sérstök nefnd sem sér um að skipuleggja starf viðkomandi greinar. Meðal hlutverka nefndanna eru ráðningar landsliðsþjálfara, afrekshópsþjálfara og hæfileikamótunarþjálfara, mótun afreks- og landsliðsverkefna og skipulag mótadagskrár. Tveir starfsmenn eru hjá Skíðasambandinu, framkvæmdastjóri og afreksstjóri. Þau sjá um rekstur sambandsins og halda utan um starfið. Annað skipulag og undirbúningur á vegum sambandsins er unnið í sjálfboðastarfi nefnda.

Árið 2023 námu heildartekjur Skíðasambandsins um 120 milljónum, þar af koma 40 milljónir frá ÍSÍ og ríkinu. Þessar tekjur myndu ekki duga til að kaupa áburð fyrir norska landsliðið, sem hefur 80 starfsmenn á sínum snærum. Fyrir þessa upphæð þarf sambandið að reka skrifstofu, standa undir mótahaldi, sinna fræðslu og útbreiðslu og reka afreksstarf. 25 milljónir fara í rekstur skrifstofu, og þá eru tæplega 100 milljónir eftir til þess að reka landsliðs- og afreksverkefni fjögurra íþróttagreina. Það sjá allir að miðað við kostnaðinn sem til þarf að vera samkeppnishæf gengur dæmið ekki upp.

Skíðasambandið getur ekki boðið sínu landsliðfólki upp á viðunandi afreksstarf og náð endum saman. Því lendir kostnaðurinn á iðkendunum sjálfum. Við ætlumst til þess að hafa íslenska keppendur á ólympíuleikum, en krefjumst þess að þau standi sjálf undir kostnaðinum, skuldsetji sig, verði af lífeyrisgreiðslum og fresti menntun sinni.

Stjórnmálafólk, og ekki síður atvinnulífið, þarf að stíga betur inn líkt og gert er t.d. í Noregi. Það eru endalausir möguleikar fyrir fyrirtæki að nýta sér afreksfólkið okkar í auglýsingum, kynningum og fyrirlestrum eins og víða er gert.

Sendum sem flesta á næstu ólympíuleika og verum stolt af okkar fólki. Með von um góðan stuðning; sjáumst á ólympíuleikunum og á heimsmeistaramótum fullorðinna næstu vetur!

Sigurður er formaður alpagreinanefndar, Aðalsteinn er formaður snjóbretta- og freestylenefndar og Einar er formaður skíðagöngunefndar. Allir eru í stjórn Skíðasambands Íslands.