Tungutak
Ari Páll Kristinsson
ari.pall.kristinsson@arnastofnun.is
Það bar til tíðinda í síðustu viku að kynnt var ný vefgátt, m.is, sem er ætlað að gera orðabækur og upplýsingar um íslenska tungu enn aðgengilegri en áður fyrir yngra fólk og þau sem eru að læra íslensku sem annað mál. Með því að slá inn leitarorð birtist snarlega fróðleikur um merkingu þess, beygingu og notkun. Ef leitað er að orðinu vefgátt kemur t.d. upp merkingarskýring úr Íslenskri nútímamálsorðabók: 'vefsíða þar sem hægt er að nálgast upplýsingar frá mörgum vefjum á einum stað', og beygingarmynstur orðsins fylgir, úr Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Þar sést m.a. að fleirtalan er vefgáttir. Þá má sjá þýðingar á ensku, web portal, og pólsku, portal (internetowy). Og ef orðið gátt er slegið inn í leitargluggann birtast þær upplýsingar úr Íslenskri nútímamálsorðabók að gátt sé bil milli dyrastafs og hurðar, auk þess að tákna annað tveggja forhólfa hjartans. Einnig eru þar dregin fram dæmi um notkun orðsins; dyrnar geta verið í hálfa gátt, verið opnar upp á gátt og staðið upp á gátt. Beygingarmynstrið, sem er sótt til Beygingarlýsingar íslensks nútímamáls, sýnir að fleirtalan hér er ýmist gáttir eða gættir. Það er því ólíkt samsetta orðinu vefgátt þar sem aðeins tíðkast fleirtalan vefgáttir.
Með tilkomu m.is hefur enn eitt skref verið stigið í þeirri viðleitni að nýta netið til að gera öllum almenningi kleift að fá einfaldan aðgang að traustum gögnum um íslensku. Komið hafa fram vefgáttir undanfarna áratugi þar sem einn leitargluggi nægir til að draga fram efni úr ólíkum gagnasöfnum, orðabókum og orðasöfnum um almennt íslenskt mál og sérhæft mál, með leiðbeiningum og fróðleik um orðasambönd, stafsetningu, ritreglur, uppruna orða, merkingu þeirra og notkun og ýmislegt annað. Þá hafa tvímála orðabækur verið birtar á netinu ein af annarri í vefgáttum undanfarin ár og áratugi; íslensk-erlendar og erlend-íslenskar. Mikið gagn hefur til dæmis verið að því um árabil að hafa rafrænan aðgang að Ensk-íslensku orðabókinni á vefnum snara.is, ásamt Íslenskri orðabók og mörgum fleiri orðabókum og gagnasöfnum. Árið 2016 var opnuð vefgáttin Málið.is og sú hefur heldur betur notið vinsælda. Könnun á þjónustu Árnastofnunar fyrir rúmu ári sýndi að þriðjungur landsmanna hafði notað Málið og eru þá ótaldir fjölmargir notendur erlendis. Í upphafi var hægt að fletta upp í sjö gagnasöfnum á Málinu en nú eru þau orðin 19 talsins. Í könnun árið 2019 kom fram að þrjú gagnasafnanna á vefgáttinni Málinu voru þá efst á blaði hjá notendum: Beygingarlýsing íslensks nútímamáls, Stafsetningarorðabókin og Íslensk nútímamálsorðabók. Og núna stendur málnotendum sem sé einnig til boða vefgáttin m.is sem sækir gögn úr einmitt þessum þremur orðasöfnum, á einn eða annan hátt, auk þýðinga yfir á ensku og pólsku.