Innarlega í Fljótum í Skagafirði, suður af hinu svokallaða Stífluvatni, rís húsaþyrping, svört að lit og þakið alsett torfi. Aðkomumenn hljóta að spyrja hvað þarna sé að finna. Of stórt er það fyrir heimili, jafnvel þótt óðalsbóndi ætti í hlut. En sennilega of lítið til þess að hýsa umfangsmikla starfsemi – eða hvað?
Árið 2016 var tekið í notkun lúxushótel á Deplum sem fyrirtækið Eleven Experience, sem er í eigu bandarískra hjóna, hafði reist og það átti sér ekki, og á raunar ekki enn, nokkra hliðstæðu hér á landi. Það samanstendur af 13 stórum og afar vel útbúnum herbergjum, veitingasölum, bar, sundlaug og heitum pottum, líkamsræktaraðstöðu, setustofum af ólíku tagi og þannig mætti áfram telja. Rúmt er um alla gesti og starfsemina og kyrrðin svífur yfir vötnum og göngum hótelsins.
Haukur B. Sigmarsson er framkvæmdastjóri fyrirtækisins en hann stýrir jafnt starfseminni í Skagafirði og einnig í Reykjavík þar sem fyrirtækið heldur einnig úti fasteignum sem tengjast starfseminni norðan heiða. Morgunblaðið tók hús á Hauki og ræddi við hann um Depla en viðtalið er hluti af hringferð blaðsins sem efnt er til í tilefni af 110 ára afmæli þess. Hlýða má á viðtalið í heild sinni á mbl.is/frettir/hringferdin. Þá er það einnig aðgengilegt á Spotify og öðrum helstu hlaðvarpsveitum.
Magnað upptökuver
Viðtalið er hins vegar ekki tekið á Deplum sjálfum heldur í gömlu kaupfélagshúsunum í Haganesvík, nokkru norðar í firðinum. Þar hefur fyrirtækið einnig byggt upp aðstöðu fyrir gesti sína. Þar á meðal eitt fullkomnasta upptökustúdíó landsins, Flóki Studio, þar sem heimsþekktir tónlistarmenn, í bland við íslenskar hljómsveitir, hafa hreiðrað um sig um skeið og tekið upp efni af ýmsum toga.
„Á Deplum er allt innifalið fyrir það sem fólk þarf. Hér þarf ekki að lyfta veski. Hér skipuleggjum við ferðina mikið fyrir komu fólks til okkar. Þegar fólk hefur bókað hjá okkur þá er fólk sett í hendurnar á upplifunarskipuleggjanda sem tryggir að allt gangi vel og gróf mynd af dagskrá er sett á blað. Þegar innan við 30 dagar eru til komu fólks á staðinn tekur upplifunarstjóri við keflinu og hann er staðsettur á Deplum. Hann njörvar dagskrána niður, nánast niður á mínútu, og hann tekur á móti gestinum á staðnum,“ útskýrir Haukur.
Persónulegur leiðsögumaður
Hann bendir á að gestirnir hafi sinn persónulega leiðsögumann alla dvölina og við komuna á staðinn kemur kokkurinn á hótelinu einnig til skjalanna og útskýrir fyrir fólki hvers sé að vænta í mat og drykk.
Þá segir hann að nánast allt sé innifalið í dvölinni, meðal annars hestaferðir, kajakróður og margt fleira. Fyrir aukagreiðslu geti fólk einnig keypt þjónustu þyrlu sem er á staðnum. Henni sé oft falið að sækja gesti til Akureyrar eða koma fólki á milli staða en hún sé einnig mikið nýtt til útsýnisflugs um Norðurland og jafnvel allt til Grímseyjar.
Það er ekki á hvers manns færi að njóta þessarar þjónustu. Gestir þurfa að kaupa að minnsta kosti tvær nætur í hverri dvöl og nóttin kostar um 650 þúsund krónur fyrir hverja þeirra. Mörg dæmi eru um að gestir leigi allt hótelið undir sig og sína og er verðmiðinn þá allnokkuð hressilegri.
Við heimsókn á Depla er eftirtektarvert hvað Ísland leikur mikið hlutverk innan hótelsins og Haukur segir að eigendur þess geri það í öllum hóteleignum sínum um heiminn.
„Þau eru með mjög skýra sýn á upplifun og hvernig hún á að vera. Þau tengja í raun allt í því landi við áfangastaðinn. Það er t.d. bara íslensk myndlist á Deplum. Þið sjáið Geysis-teppin sem eru notuð á staðnum. Hér er matarkort yfir nágrennið til að sýna uppruna matvörunnar sem við fáum. Við verslum eins mikið við nágrennið og við getum.“
Þrátt fyrir verðmiðann sem einhverjir kunna að súpa hveljur yfir er staðreyndin sú að gestir Depla koma í mörgum tilvikum aftur og aftur.
„Við erum með viðskiptavini sem hafa komið hingað sex til átta sinnum,“ útskýrir Haukur og það ætti að staðfesta að fólk telji sig fá mikið fyrir peninginn í upplifuninni í Fljótum.
Haukur er bjartsýnn á framhaldið og telur að hægt sé að stuðla að öflugri uppbyggingu fágætisferðaþjónustu af þessu tagi í landinu. Hann varar þó við því að menn einblíni á eina tegund þjónustu umfram aðra. Þannig geti þeir sem ferðist hingað á einum tímapunkti með eins ódýrum hætti og mögulegt er síðar orðið gestir sem kaupi dýrustu þjónustu sem í boði sé.
Og hann telur að snúa megi vörn í sókn í mörgu efni. Nefnir Haukur eldgosahrinuna á Reykjanesi sérstaklega í því tilliti. Telur hann að stjórnvöld hefðu getað gert betur í að tryggja aðgengi fólks að gosunum. Þannig nefnir hann að reisa hefði mátt færanlega útsýnispalla við Reykjanesbrautina.
Ekki girt af frá umhverfinu
Uppbyggingin heldur áfram á Deplum og í nágrenninu að sögn Hauks. Þannig sé nú í uppbyggingu ný svefnaðstaða í Haganesvík sem geri fólki kleift að gista nær upptökuverinu en reyndin sé með Depla. Um 10-15 mínútna akstur er á milli staða. Segir Haukur að þetta sé gert í mikilli og góðri sátt við heimamenn. Það hafi raunar verið markmið eigenda starfseminnar að loka ekkert af í tengslum við hana og eiga góð samskipti við heimamenn. Þannig geti fólk farið óhindrað um landareignir sem eru í eigu Eleven og tengjast Deplum og þar sé ekki gerð tilraun til að girða sig af frá umheiminum.