Sigurður Brynjar Pálsson er fæddur 21. september 1974 í Reykjavík. Fyrstu árin ólst hann upp í Bakkahverfi í Breiðholti og síðan í Seljahverfinu.
„Æskuminningarnar eru ótrúlega góðar og ég ólst upp á afar kærleiksríku og hvetjandi heimili. Á þeim tíma var helsti leikvöllurinn nýbyggingar og byggingarsvæði. Kannski má segja að áhugi minn á byggingariðnaði hafi komið strax fram þá. Heiðmörkin var heldur ekki langt undan, þangað var farið í marga könnunarleiðangra, t.a.m. hellaskoðanir. Farið var hratt yfir á svokölluðum BMX-hjólum.
Blaðburður í nærliggjandi götur var mín helsta tekjulind og það að selja áskrift að aukablöðunum. Mánaðarleg innheimta á áskriftargjöldum færði mig nær nágrönnum mínum. Ég held að ég hafi búið yfir ansi mörgum upplýsingum um fólk og fjölskyldur í hverfinu sem ekki margir vissu af. Dúfubransinn spilar einnig stórt hlutverk í æskuminningum, bæði við kaup og sölu á dúfum og ræktun. Sagt er að ég hafi verið ansi fjörugt barn sem fór hratt yfir og tók upp á mörgum skemmtilegum uppátækjum. Kynni mín af mínum kæru vinum hófust og hafa haldist til dagsins í dag. Áhugi á hestamennsku hófst snemma hjá mér og eignaðist ég minn fyrsta hest 15 ára gamall. Þann hest keypti ég óséðan og var hann sendur frá Landeyjum á Suðurlandi.“
Sigurður gekk í Ölduselsskóla og síðan í Menntaskólann við Sund og útskrifaðist þaðan af náttúrufræðibraut. „Það fór meira fyrir félagslífi en lærdómi á framhaldsskólaárunum, sem kom þó ekki að sök þar sem útskrift var á réttum tíma. Ég var formaður nefndar fyrir framhaldsskólamót í hestaíþróttum 1993 og það var fyrsta árið sem mótið rak sig sjálft fjárhagslega. Á menntaskólaárunum kynntist ég æskuástinni og höfum við fetað saman veginn allar götur síðan.
Mitt fyrsta starf var í byggingarvinnu, þar sem verktakinn sýndi mér það mikla traust að fá að ganga í nánast öll störf. Frá því að skafa timbur, naglhreinsa, stjórna byggingakrana, keyra vörubílinn og slá upp húsveggjum, steypuvinna og svo mætti áfram telja. Þar skynjaði ég hvað traustið er algjör lykilþáttur í að draga fram það besta í fólki sem ýtir undir frumkvæði og vöxt. Undir þessari stjórn var það svo sterkt hjá mér að bregðast ekki verktakanum. Hann treysti, samþykkti mistök og þá gerist það sem við köllum að valdefla.“
Að lokinni útskrift frá menntaskóla hóf Sigurður nám í viðskiptafræði við HÍ. „Á því ári eignuðumst við hjónin okkar fyrsta son. Litla fjölskyldan réðst í íbúðarkaup og var rökrétt framhald að taka hlé frá námi. Ég fékk starf hjá Tollgæslunni í Reykjavík, sem tollvörður, sem var ákaflega lærdómsríkur tími. Hóf aftur nám við Tækniháskólann í Reykjavík og útskrifaðist síðar frá Háskólanum í Reykjavík úr viðskiptafræði með áherslu á vörustjórnun.“
Sigurður vann lokaverkefnið sitt fyrir BYKO sem varð til þess að hann fékk starf að lokinni útskrift. Hjá BYKO hefur hann starfað allar götur síðan. „Mín fyrsta upplifun af vinnustaðnum var það mikla traust og hvatning sem ég skynjaði hjá eigendum fyrirtækisins. Þó svo að stór hluti af mínum starfsferli hafi verið hjá sama fyrirtækinu hefur mér verið treyst fyrir mörgum fjölbreyttum verkefnum sem ég er ákaflega þakklátur fyrir.
Ég hóf störf við innkaup og birgðastýringu ásamt tilfallandi sérverkefnum. Síðar var mér falin sú ábyrgð að halda utan um rekstur vöruhúsa BYKO. Mér er í fersku minni stjórnarfundur BYKO sem haldinn var á Þingvöllum þar sem ég fékk að koma inn á þann fund og kynna fyrir stjórn hugmynd að stofnun sjálfstæðs vöruhótels sem hefði það meginhlutverk að þjónusta félög í eigu Norvíkur. Hugmyndin var samþykkt og í framhaldinu varð til félag sem ber heitið Bakkinn Vöruhótel ehf. Sú reynsla, að ganga þann veg frá upphafi, stofnun fyrirtækis, ferlar, viðskiptaáætlun, hönnun, fjárfestingar o.s.frv. hefur reynst mér eitt besta veganesti sem ég hef fengið.
Árið 2012 var mér boðið hlutverk framkvæmdastjóra vörustjórnunarsviðs BYKO sem ég sinnti til ársins 2014 en á því ári var mér sýnt það mikla traust að taka við sem forstjóri BYKO. Þau ár sem ég hef starfað hjá BYKO hafa verið einstaklega gefandi og um leið skemmtileg. Eigendur og það samferðafólk sem ég hef kynnst er fyrst og fremst sá drifkraftur sem hvetur mig áfram. Að vinna með hæfileikaríku fólki sem hefur einskæran áhuga á að vaxa, þroskast, skapa og ná árangri er það sem gefur deginum tilgang. Mér þykir einfaldlega vænt um fólk og að sjá fólk vaxa í sínum réttu hlutverkum drífur mig áfram.“
Sigurður hefur lagt mikið upp úr endurmenntun. „Ég lærði markþjálfun, hef farið á mörg endurmenntunarnámskeið, farið á styttri námskeið og útskrifaðist sem húsasmiður með sveinsbréf vorið 2024.“
Áhugamál Sigurðar hafa verið fjölbreytt og eiga þau það eitt sameiginlegt að snúast um hreyfingu. „Að fara í gegnum Landvættaþrautina nú eða ganga í góðum félagsskap í kringum Mont Blanc er ákaflega gefandi. Ég hef stundað stangveiði en golfið er að taka völdin þessa stundina. Sumarhúsið okkar í Fljótshlíðinni er síðan griðastaður fjölskyldunnar. Þar nýt ég mín við smíðar og bras. Ég hef einnig mikinn áhuga á bygginga- og mannvirkjagerð og þá sérstaklega út frá líftíma bygginga, þ.e. að byggð séu mannvirki sem standast líftímann sem felur í sér minni háttar viðhald á líftímanum. Með öðrum orðum að byggja góð mannvirki.“
Fjölskylda
Eiginkona Sigurðar er Rakel H. Ágústsdóttir, f. 1.9. 1974, þroskaþjálfi og jógakennari. Þau búa á æskuheimili Sigurðar í Seljahverfi. Foreldrar Rakelar: Ágúst Ólafsson, f. 10.1. 1953, d. 30.5. 2015, prentari, og Katrín Jóna Theódórsdóttir, f. 2.2. 1954, fv. markaðsfulltrúi, lengst af á Morgunblaðinu, býr í Garðabæ.
Synir Sigurðar og Rakelar eru 1) Sindri Páll, f. 28.12. 1995, MSc., skipaverkfræðingur í Gautaborg. Maki: Jóhanna Wium Pálmarsdóttir, f. 15.12. 1995, MSc., sjálfbærniverkfræðingur. Sonur þeirra er Henrik Pálmar Wium Sindrason, f. 21.3. 2024; 2) Sölvi Steinn, 7.3. 2001, viðskiptafræðingur og ráðgjafi hjá Arion banka, býr í Hafnarfirði. Maki: Kristín Helga Eyjólfsdóttir, f. 30.12. 2000, nemi í viðskiptafræði, þjónustufulltrúi viðskiptastýringar hjá Ormsson; 3) Sólon Ingi, f. 15.9. 2008, nemi í húsasmíði; 4) Salvar Máni, f. 21.9. 2012.
Systkini Sigurðar eru Björgvin Ingvar, f. 4.8. 1962, blikksmíðameistari og byggingaiðnfræðingur en starfar sem loftræstihönnuður, býr í Mosfellsbæ; Vigdís Sjöfn, f. 12.9. 1968, viðskiptafræðingur og innanhússhönnuður, býr í Garðabæ, og Guðni Ingi, f. 27.7. 1973, MSc. í byggingaverkfræði/brunahönnun, býr í Seljahverfi.
Foreldrar Sigurðar: Páll Hjartarson, f. 11.12. 1938, skipaverkfræðingur og vann hjá Siglingamálastofnun, býr í Reykjavík, og Þuríður Guðnadóttir, f. 19.4. 1936, d. 13.7. 1999, handavinnukennari og húsmóðir.