Frá áramótum hefur 41 mál sem varðar stórfelldan innflutning á fíkniefnum komið til kasta embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum. Þetta segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri Suðurnesja. Meðal þess sem lögreglan hefur lagt hald á frá áramótum eru 18 kílógrömm af kókaíni, 18.710 e- og MDMA-töflur og 5.641 OxyContin-tafla.
Á fimmtudaginn sendi embættið frá sér tilkynningu um að nítján manns sætu nú í gæsluvarðhaldi. Var lögreglustjóri spurður út í mál sem tengjast þeim, ellefu fyrir fíkniefnainnflutning, átta fyrir grun um brot gegn útlendingalögum og grun um mansal.
Úlfar lögreglustjóri kveðst ekki geta farið út í einstök efnisatriði mála þegar hann er inntur eftir því hvort mansalsmálin tengist vændi eða þar búi annars konar starfsemi undir.
„Hvað varðar vændiskonur þá er þeim frávísað á landamærum Íslands á Keflavíkurflugvelli við komu þeirra til landsins, ef rök standa til þess,“ segir lögreglustjóri. „Ekki hefur reynt á það hingað til að frávísa karli við sömu iðju frá landinu,“ heldur hann áfram og nefnir úrskurð kærunefndar útlendingamála í máli þar sem vændiskonu var vísað frá landinu með ákvörðun lögreglustjóra. atlisteinn@mbl.is