Leikkonan varð heimsfræg fyrir leik sinn í Bonnie og Clyde.
Leikkonan varð heimsfræg fyrir leik sinn í Bonnie og Clyde. — Mynd/Wikipedia
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Faye, heimildarmynd um leikkonuna Faye Dunaway, hefur vakið athygli og fengið góða dóma. Myndin var frumsýnd á Cannes í sumar og hefur síðan verið sýnd víða, þar á meðal á Sky-sjónvarpsstöðinni. Leikstjóri myndarinnar er Laurent Bouzereau, sem er…

Faye, heimildarmynd um leikkonuna Faye Dunaway, hefur vakið athygli og fengið góða dóma. Myndin var frumsýnd á Cannes í sumar og hefur síðan verið sýnd víða, þar á meðal á Sky-sjónvarpsstöðinni. Leikstjóri myndarinnar er Laurent Bouzereau, sem er þaulvanur leikstjóri heimildarmynda og gerði meðal annars afar góða mynd um leikkonuna Nathalie Wood og dapurleg örlög hennar.

Faye Dunaway veitir sjaldan viðtöl og hefur alla tíð haldið einkalífi sínu fyrir sig. Myndin telst því til tíðinda en þar er rætt við leikkonuna sjálfa, son hennar, samstarfsmenn og vini, þar á meðal leikkonuna Sharon Stone sem sparar ekki hrósið í umsögnum um vinkonu sína.

Dunaway er orðin 83 ára gömul. Það sést ekki á henni en greinilegt er að hún hefur farið í allmargar lýtaaðgerðir sem veldur því að útlit hennar virkar óþægilega gervilegt. Hún er svo sannarlega ekki eina Hollywood-leikkonan sem hefur valið þá leið. Það er hins vegar allt ekta við frammistöðu Dunaway í myndinni. Hún ræðir hreinskilnislega um líf sitt og feril og nýtur aðstoðar sonar síns, Liams, sem dregur fram myndir úr fjölskyldualbúminu og spyr móður sína um þær.

Dunaway og þáverandi eiginmaður hennar, ljósmyndarinn heimsfrægi Terry O‘Neill, ættleiddu Liam þegar hann var vikugamall. Leikkonan lýsir margoft á afar fallegan hátt yfir ást sinni á syninum sem er það dýrmætasta og besta í lífi hennar.

Misskilinn listamaður

Líf leikkonunnar hefur ekki alltaf verið dans á rósum. Faðir hennar var alkóhólisti og sjálf viðurkennir hún að hafa glímt við þann sjúkdóm. Í myndinni upplýsir hún að hún þjáist af geðhvörfum og segir að það skýri örugglega að stórum hluta af hverju hún hafi haft orð á sér fyrir að vera afar erfið í samvinnu.

Samstarfsmenn hennar hafa margir kvartað yfir því í gegnum tíðina að leikkonan sé upptekin af smáatriðum og mjög duttlungafull. Roman Polanski, sem leikstýrði henni í Chinatown, sagði að hún væri hrikalega erfið, en sagði um leið að hann hefði aldrei kynnst leikkonu sem tæki vinnu sína jafn alvarlega og hún.

Goðsögnin Bette Davis lék með henni í sjónvarpsmynd. Í sjónvarpsþætti Johnny Carson var Davis spurð hvort það væri einhver mótleikari hennar sem hún þyldi alls ekki. Hin ætíð hreinskilna Davis sagði: „Já, Faye Dunaway. Og þú getur spurt alla aðra og þeir munu gefa þér sama svarið.“

Þetta var ekki rétt hjá Davis því samstarfsmenn hafa vissulega varið leikkonuna fyrir ásökunum eins og þessum. Leikstjórinn Sidney Lumet sagði hana vera óeigingjarna, ósérhlífna og dásamlega leikkonu. Leikstjórinn Elia Kazan tók í sama streng og sagði hana vera fullkomnunarsinna. Johnny Depp, sem lék með henni í tveimur kvikmyndum, sagði að hún væri misskilinn listamaður. „Það er í eðli mínu að vinna vinnuna mína vel og ég hefði ekki náð árangri án þess,“ sagði Dunaway eitt sinn. Hún hefur einnig sagt að ef hún væri karlmaður hefði hún ekki fengið orð á sig fyrir að vera erfið í samvinnu.

Stóra ástin

Dunaway ræðir einkalíf sitt í myndinni og segir að yfirleitt hafi hún ekki þolað að vera lengur en í tvö ár í sambandi. Fyrri eiginmaður hennar var rokkstjarnan Peter Wolf og sá seinni Terry O‘Neil en þau kynntust þegar hann tók af henni fræga mynd eftir að hún vann Óskarsverðlaun fyrir leik sinn í Network. Á myndinni situr hún við sundlaug með Óskarsstyttuna á borði. Bæði hjónabönd hennar stóðu í nokkur ár.

Leikkonan segir í myndinni að ítalski leikarinn Marcello Mastroianni hafi verið stóra ástin í lífi hennar. Hún vildi giftast honum og eignast börn en hann var giftur og vildi ekki skilja við konu sína, þótt hann hefði haft fyrir sið árum saman að halda framhjá henni. Dunaway sleit sambandinu. Hún hefur áður tjáð sig um samband sitt við Mastrioanni og sagði eitt sinn: „Það koma dagar þegar ég horfi til baka til áranna með Marcello og finn fyrir mikilli eftirsjá. Það er hluti af mér sem hugsar að ef við hefðum gifst þá værum við enn gift. Við létum okkur dreyma um að verða gömul saman.“

Níu árum fyrir andlát sitt sagði Mastrioanni að hann hefði aldrei jafnað sig á því að hafa misst Dunaway. „Hún var konan sem ég elskaði heitast. Ég mun alltaf sjá eftir henni. Með henni var ég heill í fyrsta sinn á ævi minni.“

Dunaway sagði í viðtali fyrir nokkrum árum að sér fyndist mikilvægt að eiga félaga í lífinu en sagðist um leið vera einfari. Hún er kaþólskrar trúar og segist fara í messu reglulega.

Leikkonan hefur fengið mikið lof fyrir hreinskilni sína í myndinni. Hún reynir ekki að fegra sjálfa sig, er einlæg og heiðarleg. Áhorfandinn fær góða mynd af manneskjunni á bak við ímyndina. Í kjölfarið hlýtur síðan að vakna áhugi á að horfa aftur á myndir leikkonunnar og þar er sannarlega af nógu að taka.

Glæstur ferill

Faye Dunaway hefur hlotið ótal verðlaun á ferlinum, þar á meðal Óskarsverðlaun, Emmy-verðlaun, þrenn Golden Globe-verðlaun og BAFTA-verðlaunin. Hún hóf feril sinn á Broadway en lék í fyrstu kvikmynd sinni The Happening árið 1967. Hún varð heimsfræg fyrir túlkun sína á Bonnie Parker í myndinni Bonnie og Clyde og fékk þar sína fyrstu Óskarsverðlaunatilnefningu. Hún hlaut aðra tilnefningu fyrir Chinatown og hreppti verðlaunin fyrir leik sinn í Network árið 1976, en þar lék hún kaldlyndan og ósvífinn yfirmann sjónvarpsstöðvar. Dunaway segir kvöldið sem hún hlaut Óskarinn hafa verið eina hamingjusömustu stund í lífi sínu, þar hafi ræst draumur frá barnæsku.