Hörður Agnarsson fæddist 14. ágúst 1969. Hann lést 9. september 2024.

Útför hans fór fram 19. september 2024.

Það er ákaflega sorglegt að upplifa það að missa Hörð svona sviplega, mann í fullu fjöri og ekki eldri en þetta. Aðdragandinn var mjög stuttur, mér gafst varla tími til að vona að allt færi vel, hvað þá meira. Og nú klóra ég mér í kollinum yfir því hvernig þetta gat farið svona. Ég hélt að læknavísindin ættu svar. Svo reyndist ekki vera. Hörður frændi minn var gull af manni. Varla hægt að hugsa sér betri dreng. Hann var með eindæmum bóngóður og alltaf tilbúinn að veita liðsinni. Hörður var rafvirki að mennt. Undanfarin ár vann hann við ljósleiðaravæðingu heimila landsins. Ef eitthvað bjátaði á í rafmagns- eða netmálum hjá mér hringdi ég í Hörð. Hann kunni á þessari tækni einstök skil. Nú hef ég einungis góðar minningar til að orna mér við. Eftirminnilegt var þegar við frændurnir fylgdum íslenska landsliðinu til Rússlands á heimsmeistaramótið í fótbolta 2018. Hörður var frábær ferðafélagi. Alltaf var stutt í hláturinn, einstaka hláturinn hans. Við vorum mjög upp með okkur þegar við fengum fyrir tilviljun að ferðast um gresjur Rússlands í svartri limósínu með einkabílstjóra. Við brunuðum fram hjá öryggissveitum yfirvalda sem stöðvuðu rútur og aðra umferð eins og við værum ólígarkar inn undir hjá Kremlarklíkunni. Góðar minningar. Ég vil með þessum fátæklegu orðum kveðja Hörð frænda minn hinstu kveðju. Minning hans lifir.

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson.

Í byrjun ágúst fengum við þær sorglegu fréttir að vinur okkar Hörður Agnarsson væri kominn með krabbamein. Þessar fréttir voru eins og köld vantsgusa í andlit okkar. Við vonuðumst til þess að meðferð við krabbameininu gæti snúið þessari óheillaþróun við, en því miður var staðan hjá Herði mun erfiðari en við gerðum okkur grein fyrir. Það var því mikil harmafregn þegar þær fréttir bárust að Hörður væri látinn.

Okkur verður hugsað til áranna í Hvassaleitisskóla þar sem við kynntumst Herði. Þetta var líflegur hópur þar sem segja má að allir hafi verið vinir. Eftir grunnskólann var Hörður einn af strákunum í vinahópnum úr Hvassó. Hittingar voru reglulegir hér áður en eins og oft gerist þegar árin færast yfir urðu samskiptin minni. Vinskapurinn var þó alltaf klárlega til staðar.

Við minnumst Harðar með miklum hlýhug. Hörður var einstaklega góður drengur og mikið ljúfmenni. Hörður var alltaf tilbúinn að aðstoða hefði hann tök á því. Hörður hafði þægilega og góða nærveru og með eindæmum var hann hláturmildur. Það var því alltaf tilhlökkun í því að hitta Hörð þar sem við vissum að þá yrði hlegið og gert grín.

Harðar verður sárt saknað en minning hans mun lifa með okkur. Hvíldu í friði, elsku Hörður, og guð blessi þig.

Hörður Hilbert Jóhannesson og Örn Hauksson.

Þegar við í fjölskyldunni heyrðum að hann Hörður hefði kvatt þessa jarðvist vissum við varla hvað var upp eða niður. Einungis örfáum dögum áður sendi hann mér skilaboð um það hvenær væri síðasti skiladagur á verkefninu Jól í skókassa! Og nokkrum dögum þar áður vorum við að tala saman um að spila. Við ákváðum að hann myndi láta okkur vita um leið og hann hefði orku til að við myndum sækja hann í eitt spil eða svo, eða fara með hann á spilakvöld Hjálpræðishersins sem er alltaf á föstudagskvöldum en þangað kom hann gjarnan.

Við hjónin kynntumst Herði fyrst í JCI fyrir aldamótin og þar var brallað ýmislegt og þó að við værum ekki í sama aðildarfélagi kynntumst við vel. Svo hætti Hörður en við hittumst eins og gengur inn á milli en svo braust út stríðið í Úkraínu og ég datt inn í hjálparstarf og þar hittumst við Hörður aftur. Í hjálparstarfinu hitti ég oft á Hörð en hann var alveg óþreytandi að hjálpa. Það var oft sem var hringt í hann og hann beðinn að skutlast með húsgögn sem einhver var að fá gefins og var eðlilega ekki á bíl og dýrt að fá sendibíl þegar krónurnar eru fáar en Hörður taldi það ekki eftir sér! Þegar einhver var að flytja, þá kom Hörður að hjálpa til, ef einhvern af flóttafólkinu vantaði rafmagnsaðstoð þá taldi hann það ekki eftir sér að koma og hjálpa um helgar eða eftir vinnu.

Ég byrjaði með hannyrðahóp fyrir úkraínska flóttafólkið og Hörður heyrði af því í fyrra þegar við ákváðum að taka þátt í Jól í skókassa. Þá kom hann til okkar með nokkra haldapoka og sagði: „Heldurðu ekki að þið getið notað þetta handa börnunum?“ Núna í ár gerði hann alveg það sama, við byrjuðum að safna í janúar og Hörður kom með nokkra poka og sagðist hafa fundið útsölu en þá var hann með fulla poka af legó, playmo, stórum trélitapökkum og alls konar öðru sem auðvitað var vel þegið. Svo átti hann það til að kíkja í heimsókn á sunnudögum og kom þá hlaðinn pokum líka, eitt skiptið hafði hann farið í Góða hirðinn og keypt dúkkur og barbídúkkur og sagðist ekki hafa hugmynd um hvað hann hefði keypt því hann hefði ekkert vit á dúkkum en hvort við gætum notað þetta? Þá notuðum við tækifærið og spiluðum líka. Því heimurinn á Íslandi er svo lítill en Hörður var oft á spilakvöldum sem haldin eru á föstudagskvöldum hjá Hjálpræðishernum en þangað fara einmitt hinir í fjölskyldunni okkar reglulega.

Hér hefur góður maður með fallega sál verið tekinn burt úr þessari jarðvist, en ég vona og veit að hans bíður eitthvað fallegt og gott hinum megin, alveg í takt við hvernig hann lifði hér.

Bless kæri vinur, þín verður minnst af velgjörðarverkum þínum, góðu skapi, húmor, spilakvöldum, mjög svo smitandi hlátri, góðri nærveru og góðsemi sem þú hafðir gnægð af. Við erum mörg sem söknum þín.

Við sendum innilegar samúðarkveðjur til allrar fjölskyldunnar þinnar.

Birgit Raschhofer
og fjölskylda.