Kvikmyndir
Jóna Gréta
Hilmarsdóttir
Blikkaðu tvisvar er svokallaður félagslegur tryllir (e. social thriller), en í þeirri kvikmyndagrein blandast saman einkenni úr spennumyndum, hryllingsmyndum og raunsæismyndum. Í félagslegum tryllum eru félagsleg átök fléttuð inn í söguþráðinn og höfundar þeirra eru oft pólitískt meðvitaðir. Kvikmyndagreinin hefur verið áberandi síðustu ár, en leikstjórarnir Jordan Peele og Emerald Fennell eru meðal þeirra sem hafa sérhæft sig í henni. Aðrar nýlegar myndir eins og Sníkjudýrin (e. Parasite, 2019, Bong Joon Ho), Ekki örvænta elskan (e. Don’t Worry Darling, 2022, Olivia Wilde) og Sorgarþríhyrningurinn (e. Triangle of Sadness, 2022, Ruben Östlund) eru einnig góð dæmi um félagslegan trylli. Aukin krafa hefur verið gerð í samfélaginu um að kvikmyndir þjóni félagslegum tilgangi og fjalli um mikilvæg málefni og er greinin líklega ákveðið svar við þeirri kröfu.
Blikkaðu tvisvar fjallar um félagsmálefni á borð við kynbundið ofbeldi, kúgun kvenna, stéttaskiptingu og eitraða karlmennsku og er þannig ekki ólík fyrrnefndum myndum. Myndin fylgir Fridu (Naomi Ackie), sem hittir milljarðamæringinn Slater King (Channing Tatum) á fjáröflunarhátíðinni hans þar sem hún er þjónn. Hann býður henni og vinkonu hennar Jess (Alia Shawkat) að fara með sér og moldríkum vinum sínum á einkaeyjuna sína. Í fyrstu virðist allt vera í himnalagi, villtar nætur blandast saman við sólríka daga og allir eru löngu hættir að fylgjast með því hvaða dagur er. Eitt kvöldið er Jess bitin af snák og daginn eftir er hún horfin en Frida virðist vera ein um það á eyjunni að muna eftir Jess. Frida áttar sig á því að ekki er allt með felldu og tekst að sannfæra aðra stelpu á eyjunni, Söruh (Adria Arjona), um það líka. Þegar þær reyna að rifja upp síðustu daga á eyjunni reynist það þeim erfitt. Þær eru búnar að gleyma stórum hluta af upplifuninni, sem gerir þær óttaslegnar. Hverju eru þær búnar að gleyma og hvað kom fyrir Jess?
Ólíkt fyrrnefndum myndum er ólíklegt að Blikkaðu tvisvar fái margar Óskarstilnefningar og er það líklega af því að myndin er ekki frumleg, en eitt af einkennum greinarinnar er hvernig mikilvægum málefnum er komið til skila á frumlegan og spennandi máta. Þó að eldri myndir geti flokkast sem félagslegir tryllar, eins og til dæmis Glugginn á bakhliðinni (e. Rear Window, 1954) og Svimi (e. Vertigo, 1958) eftir Alfred Hitchcock, varð greinin sem slík ekki áberandi fyrr en með myndum Jordans Peele. Núna hefur greinin náð fótfestu og myndast hafa ákveðnar hefðir innan greinarinnar en við það hefur hún misst ákveðinn sjarma. Blikkaðu tvisvar sækir innblástur í margar fyrri myndir sem tilheyra greininni og af því að áhorfendur eru farnir að læra inn á greinina er fátt sem kemur á óvart lengur. Um leið og áhorfendur vita hvaða málefni er verið að taka fyrir þekkja þeir mögulegu leiðirnar til að koma þeirri ádeilu til skila.
Umgjörðin er ekki ólík því sem áhorfendur sáu í Sorgarþríhyrningnum, Matseðlinum (e. The Menu, 2022, Mark Mylod) og Glerlauknum (e. Glass Onion, 2022, Rian Johnson), þ.e. þar sem ríkt fólk kemur saman á afskekktum stað, en það býður upp á samtal um stéttaskiptingu og neysluhyggju. Aðalviðfangsefni Blikkaðu tvisvar er hins vegar kynbundið ofbeldi og kúgun kvenna, en það þekkja áhorfendur úr félagslegu tryllunum Ekki örvænta, elskan og Stepford-eiginkonunum (e. The Stepford Wives, 1975, Bryan Forbes). Í báðum myndum taka karlarnir konurnar eignarhaldi og eyða fyrra sjálfi þeirra eða minningum þeirra. Án þess að spilla of mikið fyrir lesanda er óhætt að segja að handritshöfundar Blikkaðu tvisvar, Zoë Kravitz og E.T. Feigenbaum, sæki mikinn innblástur í þær myndir, sérstaklega Ekki örvænta, elskan.
Hvernig leikstjórinn Zoë Kravitz kynnir viðfangsefni myndarinnar er virkilega vel gert. Áhorfendur verða strax áskynja um kúgun kvenna og feðraveldið. Í byrjun myndarinnar eru Frida og Jess ítrekað beðnar um að brosa af karlkyns yfirmanni sínum og það er strax þá sem ofbeldið hefst. Ofbeldið verður grófara síðar í myndinni en það er aldrei sýnt almennilega, sem er góð ákvörðun hjá leikstjóra. Kynbundið ofbeldi er mjög áberandi í raunheimi og því óþarfi að mata áhorfendur á því líka. Í byrjun myndarinnar er líka atriði þar sem Frida og Jess eru að tala saman um fyrrverandi kærasta Jess, sem hún er byrjuð að slá sér upp með aftur. Eftir að hafa séð myndina er skemmtilegt að horfa á atriðið aftur, en samtalið er eins konar fyrirboði fyrir alla myndina. Það er virkilega skemmtilegt þegar leikstjóri skilur eftir faldar vísbendingar um það sem koma skal eða svokölluð páskaegg (e. easter egg) eins og þessi fyrir áhorfendur, en það sýnir að hvert atriði er úthugsað.
Burtséð frá því að Blikkaðu tvisvar sé fyrirsjáanleg er um að ræða mjög skemmtilega mynd sem kemur viðfangsefninu vandlega til skila og er það að miklu leyti leiknum að þakka. Í félagslegum tryllum getur verið gaman að fylgjast með því hvernig persónurnar tala og eiga í samskiptum en það er oft undarlegt af því að ekki er allt með felldu, eins og fram hefur komið. Leikarahópurinn stendur sig með prýði í myndinni og tekst að leika persónur sem haga sér undarlega en ekki of undarlega, þannig að áhorfendur og aðrar persónur fari ekki að gruna of snemma að eitthvað sé að. Aðalleikararnir, Naomi Ackie og Channing Tatum sem leika Fridu og Slater, eru frábær en þau eru bæði óþægilega myndarleg, sem hentar hlutverkunum vel. Á heildina litið er Blikkaðu tvisvar skemmtilegur félagslegur tryllir sem er þess virði að sjá og frábær fyrsta mynd hjá Zoë Kravitz.