Vonbrigði Sala á ID-línunni hefur ekki staðið undir væntingum.
Vonbrigði Sala á ID-línunni hefur ekki staðið undir væntingum. — AFP/Jens Schlueter
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Þýski bílaframleiðandinn Volkswagen (VW) verður að leysa flest sín vandamál sjálfur. Ríkið sé þó viljugt til að hjálpa fyrirtækinu með einhverju móti svo koma megi í veg fyrir að gripið verði til lokana á verksmiðjum. Þetta segir Robert Habeck efnahagsráðherra Þýskalands, en VW hefur til þessa aldrei neyðst til að loka framleiðsluveri í 87 ára sögu fyrirtækisins.

Stjórnendur VW hafa sagt nauðsynlegt að endurskipuleggja allan rekstur fyrirtækisins. Gerist það ekki missir VW samkeppnishæfni sína.

Staða þessa gamla risa er sögð hafa komið hinum almenna starfsmanni í opna skjöldu. Er fyrirtækið sagt glíma við harðnandi samkeppni frá Kína, háan rekstrarkostnað og trénaða yfirbyggingu. Þá er eftirspurn eftir rafbílum í Evrópu einnig undir væntingum og hefur það haft gríðarleg fjárhagsleg áhrif á VW, en stjórnendur þar veðjuðu á ID-rafbílalínu fyrirtækisins. Dræm sala ID-línunnar veldur VW-mönnum verulegum áhyggjum.

Fjöldauppsagnir fram undan?

Þýskir miðlar hafa nú spáð því að VW þurfi að grípa til fjöldauppsagna og að þúsundir muni missa vinnuna á næstunni.

Efnahagsráðherrann hefur ekki viljað tjá sig um þá spá. Það sé ekki hans að „skipta sér af“ ákvörðunum í rekstri einstakra fyrirtækja.