Guðmundur Gunnlaugsson fæddist 28. febrúar 1942. Hann lést 11. ágúst 2024.

Útför fór fram í kyrrþey.

Guðmundur maðurinn hennar mömmu, eins og ég nefndi hann gjarnan, kom inn í líf okkar systkina þegar ég var 12 ára. Þá voru mamma og pabbi nýlega skilin og við mjög svo tætt og óörugg, nýlega flutt í sveit úr Reykjavík og ennþá að átta okkur á breytingum þeim er því fylgdi að vera flutt svo afskekkt eins og okkur fannst á þeim tíma. En mjög fljótlega áttuðum við okkur á því að hann var alls ekki að reyna að troða sér inn í okkar líf með stjórnun og látum, þvert á móti leyfði hann okkur að kynnast sér á okkar hraða sem ég sé þegar ég lít til baka hvað það var í rauninni nauðsynlegt. Og er ennþá mikilvægt að hafa í huga hvað viðkemur svona bútasaumsfjölskyldum eins og mamma nefndi gjarnan samsettar fjölskyldur. En að Guðmundi mínum aftur. Hann var rólegur, traustur, umhyggjusamur og bara nákvæmlega það sem elsku mamma mín og við systkinin þurftum á að halda eftir mikinn ólgusjó í okkar lífi og það sýndi hann okkur ávallt. Guðmundur reyndist mér mjög góður faðir, aðstoðaði mig á allan þann hátt sem hann gat, til dæmis rétti hann bílinn minn, sælla minninga, á bakkanum fyrir framan húsið, og bara alltaf boðinn og búinn að aðstoða ekki bara mig heldur alla sem leituðu til hans. Dásamlegt var að koma til þeirra mömmu í heimsókn í Sæbakka því Sæbakki er eins og nafnið gefur til kynna á bakka við sjóinn þar sem selir og sjófuglar njóta sín og ófáum stundum eyddum við í að horfa út um eldhúsgluggann og fylgjast með dýralífinu. Út um stofugluggann blasir Búlandstindurinn við í allri sinni dýrð. Þetta eru þvílík forréttindi að hafa átt þar annað heimili og sé ég það núna þegar Guðmundur er farinn og mamma komin á Skjólgarð á Höfn. En veturinn og vorið reyndust þeim erfitt þar sem elsku mamma var orðin svo lasin og Guðmundur gerði síðustu mánuði þeirra eins góða og hægt var, samt alls ekki góður til heilsunnar sjálfur, búinn að fá blóðtappa sem fylgdu miklir erfiðleikar.

Með söknuði kveð ég elsku Guðmund og takk endalaust fyrir að hafa komið inn í líf okkar og gætt það hlýju, gleði og hamingju. Bless í bili, minn kæri, þangað til næst.

Ástríður Jóhanna
Elvarsdóttir (Systa).