Ólafur Ólafsson fæddist 17. október 1939. Hann lést 26. ágúst 2024.

Útför fór fram 6. september 2024.

Vinur okkar Ólafur Ólafsson er látinn. Við kölluðum hann alltaf Olla enda gekk hann undir því nafni alla tíð. Hann kom til okkar nokkrum vikum fyrir andlátið og sagði okkur þær fréttir að hann ætti ekki langt eftir, því læknar teldu sig ekki hafa nein frekari úrræði undir höndum til að stöðva framgang sjúkdómsins. Við hjónin gerðum okkur ekki fyllilega grein fyrir því á þessari stundu að Olli var í raun og veru að kveðja, en við héldum að hann yrði lengur meðal okkar, svo varð því miður ekki.

Fjölskylda okkar getur aldrei fullþakkað Olla þau fórnfúsu störf sem hann innti af hendi fyrir Öspina, íþróttafélag fatlaðra og þroskahamlaðra, en þar var hann stjórnarformaður hátt í fjóra áratugi. Kristín minnist sérstaklega samverustunda í stjórn Aspar um nokkurra ára skeið, þar var valið lið á ferð.

Dóttir okkar Sigrún Huld þakkar Olla fyrir frábært starf í félaginu. Ljóst er að hún hefði ekki orðið eins sigursæl í sundi ef Öspin hefði ekki náð þeim hæðum í starfsemi sinni sem raunin varð undir forystu hans og góðra þjálfara.

Í reynd var heimili Olla og fjölskyldu í Bogahlíðinni eins konar félagsmiðstöð fyrir fatlað og þroskahamlað íþróttafólk. Sannleikurinn var auðvitað sá að Olli gaf sig allan og óskiptan fyrir Öspina og gladdist yfir öllum þeim sem stunduðu fjölbreyttar íþróttir á þeirra vegum.

En nú er komið að leiðarlokum. Við í fjölskyldunni þökkum Olla af einlægni fyrir hans störf fyrir Öspina og við vitum að það munu fleiri taka undir þau orð. Innilegar samúðarkveðjur til Ólafs, Helgu Óskar og fjölskyldu, þeirra missir er mestur.

Kristín Erlingsdóttir, Hrafn Magnússon og
Sigrún Huld Hrafnsdóttir.