Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
„Mér finnst gaman að hafa nóg að gera og fór því að fást við þýðingar eftir að hafa starfað lengi í skólakerfinu, bæði sem kennari og skólastjóri. Við megum ekki vinna þegar við eldumst, svo ég tók til hendinni og hef þýtt um tíu bækur. Ég vann líka mikið af bókum fyrir Þórð í Skógum, sem Bjarni Harðarson hjá Sæmundi gaf út, en af Þórði hef ég lært mikið um starfshætti og samfélag fyrri tíma. Þórður var yndislegur maður og skrifaði bækur fram í andlátið, en hann lést 101 árs. Við fráfall hans fór ég að svipast um eftir bók sem mér þætti áhugaverð að þýða og þá fann ég þessa íslensk-dönsku konu, Brynju Svane, sem hefur skrifað bækur um ættmenni sín á Vestfjörðum.
Brynja er fædd og uppalin að hluta til á Ísafirði, en hún býr í Danmörku,“ segir Sigurlín Sveinbjarnardóttir, þýðandi bókarinnar Guðrún, ættarsaga frá Vestfjörðum, hverrar höfundur er fyrrnefnd Brynja. Bókin um Guðrúnu er sú fyrsta af fjórum sem Brynja hefur skrifað um fólkið sitt á Vestfjörðum og út hafa komið í Danmörku.
„Þessar bækur eru sögulegar skáldsögur og segja frá móðurætt Brynju sem bjó við Ísafjarðardjúp á átjándu öld. Brynja lýsir mjög vel lífinu og samfélaginu þarna fyrir rúmum 200 árum og hún byggir sögurnar á raunverulegu fólki sem lifði þarna og bjó. Til eru heimildir um þetta fólk, en eðli málsins samkvæmt skáldar Brynja í eyðurnar, hvort sem það eru hugsanir, samtöl eða gjörðir þessa fólks.“
Allt ótrúlegt reyndist rétt
Sigurlín er búin að lesa allar fjórar bækur Brynju um fólkið á Vestfjörðum og segir þær mjög skemmtilegar og spennandi. „Þar koma fyrir deilur, glæpir og drykkja, en líka ást, fórnfýsi, samstaða og viljastyrkur, svo fátt eitt sé nefnt um dramatíkina og mannlegar tilfinningar. Þessar bækur fjalla um lífið eins og það var hér áður fyrr, en stundum fannst mér sumt af því sem Brynja segir frá svo ótrúlegt að ég efaðist um að það gæti verið rétt. Þá fór ég í heilmikið heimildagrúsk og líka yfirlesari minn, Svavar Sigmundsson íslenskufræðingur, en við komumst að því að í hvert skipti sem okkur fannst eitthvað ótrúlegt, þá reyndist það rétt. Enda er Brynja mjög vandvirkur höfundur og hámenntaður kennari í bókmenntum,“ segir Sigurlín og bætir við að hún sjái fyrir sér að skólar gætu jafnvel nýtt sér þessar bækur í kennslu, því þar sé mikill sögulegur fróðleikur og málfarið þægilegt aflestrar.
Mögnuð saga Guðrúnar ekkju
Sagan af Guðrúnu byggist á sögu formóður Brynju, konu sem var efnuð ekkja en danski kóngurinn, Kristján sjöundi, fékk með makaskiptum við hana árið 1777 yfirráð yfir landsvæði á Reykjanesi í Ísafjarðardjúpi og við Reykjarfjörð á norðanverðum Vestfjörðum. Á þessum tíma var ekki auðvelt fyrir fjölskyldu að taka sig upp og byrja nýtt líf á öðru landsvæði.
„Ekkjan hafði aldrei séð þessar jarðir sem hún fékk hjá kónginum í staðinn fyrir sínar tvær góðu jarðir, en hún hafði eignast eina jörð með hvorum manni sem hún hafði misst. Tveir elstu synirnir erfðu hvor sína jörðina við Arnarfjörð og fluttu þangað, þá ungir menn og ógiftir. Ekkjan móðir þeirra flutti til Ísafjarðar, en það var mikið átak fyrir hana að taka sig upp og flytja frá sinni jörð og heimili, að byrja aftur frá grunni. Þetta er mögnuð saga ekkju sem var mjög sterk kona, en þær þurftu að vera sterkar konurnar á þessum tíma, því algengt var að menn drukknuðu frá barnmörgum heimilum. Konurnar sáu þá um búið, kannski með sjö börn, eins og hún Guðrún, en hún réð við þetta og fann flöt á því,“ segir Sigurlín og bætir við að bókin fjalli líka um samskipti Dana og Íslendinga á þessum tíma. „Kóngurinn var með saltverkun á Reykjanesinu og þar er reyndar enn saltverkun. Mér finnst besta salt í heimi koma þaðan og það er unnið á sama hátt og áður, með heita vatninu. Sjórinn gufar úr og saltið situr eftir, skjannahvítt og gott, beint úr Íshafinu.“
Allir urðu að bjarga sér
Sigurlín heimsótti Vestfirðina þegar þýðingarvinnan stóð yfir og fór svo aftur með höfundi bókanna, Brynju Svane, til að kynna bókina.
„Það var ótrúlega gaman og þar hitti ég fólk sem þekkti þessar bækur vel, hafði fengið þær lánaðar á dönsku í Norræna húsinu og látið senda sér þær vestur. Bækur Brynju seldust eins og heitar lummur fyrir vestan,“ segir Brynja og bætir við að þegar hún hafi verið að keyra hrikalegu vegina utan í háu fjöllunum fyrir vestan hafi hún hugsað til fólksins sem ferðaðist forðum á hestum um þetta landslag.
„Í bókinni er mjög nákvæm lýsing á því hvernig þurfti að haga slíkum ferðalögum. Til dæmis þurfti að skipta oft um hesta, hvíla þá reglulega svo þeir entust á milli staða, en slíkar ferðir gátu tekið heila viku. Fólk var stundum með mikinn farangur, jafnvel búslóð og allt annað sem þurfti til fararinnar. Brynja hefur kynnt sér þetta allt vel og við lestur bóka hennar fékk ég aukinn skilning á landinu okkar og þessum tíma. Hvernig lífsbaráttan var og erfiðleikarnir sem fólk þurfti að takast á við, þegar enga hjálp var að fá. Allir urðu bara að gjöra svo vel að bjarga sér.“