Viðtal
María Margrét Jóhannsdóttir
mariamargret@mbl.is
Kvikmyndahátíðin RIFF verður haldin dagana 26. september til 6. október. Hátíðin hefur vaxið og dafnað frá stofnun hennar árið 2004. Um er að ræða einn af stærstu viðburðum borgarinnar og í ár verður fjölbreytnin með mesta móti en sýndar verða kvikmyndir frá um 50 löndum. Þekkt nöfn úr kvikmyndaheiminum láta sig ekki vanta en suðurkóreski leikstjórinn Bong Joon-ho verður heiðraður sérstaklega á hátíðinni en hann hefur hlotið Óskarsverðlaunin þrisvar. Þá mun þýska kvikmyndaleikkonan Nastassja Kinski einnig vera heiðursgestur hátíðarinnar og sænski leikstjórinn Jonas Åkerlund mæta
Bíó frekar ódýr skemmtun
Hrönn Marinósdóttir stjórnandi hátíðarinnar bendir á að hlutverk menningartengdra viðburða á borð við RIFF sé annað og meira en bara að afla tekna fyrir þjóðarbúið með auknum straumi ferðamanna, sem þó er mikilvægt. „Nú er mikið í umræðunni að samfélagið sé að veikjast og að það vanti mikið upp á samvitund og samstöðu fólks. Við séum öll bara í símanum. Það þarf að færa fólk nær hvað öðru og það er einmitt hlutverk þessara stóru viðburða á borð við RIFF. Fólk kemur í bíó og setur sig inn í samfélög og aðstæður fólks víða um heim en margar myndanna eru að varpa ljósi á ástand heimsins.
Einnig er sagt að bilið á milli fátækra og ríkra sé að aukast og að þá verði samfélögin verri. Í því samhengi má benda á að bíóið er enn þá tiltölulega ódýr skemmtun sem býður upp á endalausa möguleika til fræðslu og upplifunar og RIFF er þannig hátíð að hún höfðar til margra samfélagshópa og aldurshópa.
Það er svo fallegt að mæta á hátíð eins og RIFF og sjá að þarna er fólk úr öllum stéttum samfélagsins sem situr saman í bíósal og er að horfa á myndir alls staðar að úr heiminum. Viðfangsefnið er að sama skapi fjölbreytt, allt frá gróðureldum í Afríku yfir í vísindaskáldskap. Svo þegar myndin er búin getur maður sest niður og spjallað um efnistök myndanna við nærstadda. Oft er leikstjóri myndarinnar viðstaddur og til í spjall. Þetta finnst mér mikilvægast. Að koma saman og hittast. Hafa tækifæri til þess að ferðast um heiminn og setja sig í aðstæður annarra en það er þannig sem við aukum samvitundina og samkennd í samfélaginu,“ segir Hrönn.
Mikil vinna liggur að baki
„Undirbúningur fyrir næstu hátíð hefst alltaf um leið og hinni lýkur í október. Við erum með dagskrárráð sem Frederic Boyer stýrir og hittumst vikulega árið um kring og förum yfir þær myndir sem okkur hefur borist. Við lítum til stærstu hátíða á hverju ári og veljum þær myndir sem hafa ekki verið sýndar áður hérlendis. Áhersla okkar hefur frá upphafi verið sú að kynna nýjustu og bestu myndir ársins og við leggjum auk þess áherslu á það ferska og framsækna.“
Sænskar bíómyndir áberandi
„Við reynum að velja þannig að allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi og úrvalið er mjög fjölbreytt. Í ár beinum við sjónum að Svíþjóð og sýnum til dæmis nýju myndina eftir Lukas Mooddysson en hann var heiðursgestur RIFF árið 2013. Þá verðum við með sérstakan flokk sem tileinkaður er lýðræðinu og ber heitið „Við mótmælum allir“ og er til heiðurs því að Ísland á 80 ára lýðveldisafmæli. Um leið erum við einnig að vekja athygli á stöðu lýðræðis í heiminum í dag. Með þessu viljum við taka þátt í samfélaginu, auka umræðu og sklining en kvikmyndirnar eru afar sterkur miðill til þess.“
Náð að halda í horfinu
Aðspurð segir Hrönn að það sé alltaf ákveðinn hausverkur að halda hátíðina ár hvert. „Ég myndi segja að það sé kraftaverk að við höfum náð að halda þessa hátíð á hverju ári og stundum spyr ég mig að því af hverju ég sé að þessu. Að baki liggur gríðarleg vinna og það er barningur ár hvert að fjármagna hana. Uppskeran hefur samt verið góð. Við erum með trausta samstarfsaðila og bakhjarla og starfsfólkið mitt er frábært, stór hópur sem telur 30 manns. Við höfum náð að halda í horfinu þrátt fyrir að aðsókn á menningarviðburði almennt hafi dregist saman eftir heimsfaraldur. Við megum því vel við una og það er frábært að fólk sé að mæta í bíó og við finnum að áhorfendur treysta því að við séum að bjóða upp á gæðamyndir. Við erum búin að festa okkur í sessi og erum orðin þekkt stærð í þessum kvikmyndahátíðarheimi sem alþjóðlegt vörumerki en stutt er síðan bandarískt tímarit valdi hátíðina sem eina af tuttugu ómissandi kvikmyndahátíðum í heiminum í dag. Það sem skiptir þó mestu máli er að fólk mætir í bíó og er ánægt.“
Mætti andstöðu í fyrstu
Hrönn segir að það hafi verið þrjóska, metnaður og hugsjónir sem hafi drifið hana áfram. „Hátíðin byrjaði sem skólaverkefni hjá mér árið 2004. Sama ár og ég útskrifast held ég fyrstu hátíðina og eignast þar að auki barn og var með tvö önnur lítil heima. Ég hefði ekki endilega farið þessa leið í dag og er ekki að mæla með þessu en ég er mjög þrjósk og á góða að. Það sem kom mér í opna skjöldu var þegar ég gerði mér grein fyrir því að það yrðu ekki allir sáttir við að það kæmi einhver sem vildi koma á fót alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík en það var eitthvað sem hafði ekki verið til í þó nokkurn tíma. Þrátt fyrir að hafa mætt vissri andstöðu þá var það frumkvöðlaeðlið sem rak mig áfram.
Mér finnst þetta skipta verulega miklu máli að fólk hérlendis hafi aðgang að svona myndum sem í yfir 90% tilfella kæmu annars ekki í bíó eða á veitur hérlendis en líka er kvikmyndahátíðin mikilvægt kennileiti fyrir ríki og borg. Ég hef staðið í stafni af ákveðinni þrjósku þrátt fyrir sveiflur í rekstrinum og ýmsan mótbyr en lét þetta gerast. Ég er sjálfsagt dæmigerður Íslendingur, maður bara lætur þetta gerast. Margir hafa lagt á sig ómælda vinnu við að ná þessum árangri og við höfum byggt upp þétt og gott samstarfsnet við sölu- og dreifingaraðila, kvikmyndastofnanir og fleiri erlendis og hér heima. Við höfum náð okkar markmiði sem er að vera í fremstu röð, sýna frábærar myndir og ná auk þess að tengja íslenskan kvikmyndaiðnað við erlenda aðila.“
Bílabíó í Víðidal
Innt eftir því hverjar uppáhaldsmyndir Hrannar séu segir hún að erfitt sé að nefna einhverja eina, það fari alltaf eftir því hvernig liggur á henni en gerir þó tilraun.
„Með allt á hreinu er besta íslenska myndin og hún verður sýnd í bílabíóinu sem verður haldið í Víðidalnum. Myndin Being There með Peter Sellers er í miklu uppáhaldi og eins verð ég einnig að nefna The Host eftir Bong Joon-ho sem verður heiðraður á hátíðinni og Cat People með Nastössju Kinski.“
Allar nánari upplýsingar og dagskrána má finna á vefnum riff.is.