Úr bæjarlífinu
Guðrún Vala Elísdóttir
Borgarnesi
Bónusverslunin í Borgarnesi er sérstök að mörgu leyti. Í henni versla margir ferðamenn sem eiga leið um héraðið sem leiðir til þess að á sumrin margfaldast veltan og bílastæðið er alltaf pakkfullt. Verslunin er með stærri Bónusbúðum og miðað við höfðatölu í Borgarnesi er veltan þar sérstök. Íbúar í Borgarnesi verða mjög glaðir ef þeir sjá kunnuglegt andlit innan um ferðafólkið í Bónus en reyndar hefur heyrst að bæjarbúar keyri jafnvel niður á Akranes í Bónus-verslunina þar til að hafa frið til að versla. Þar er mun rólegra sérstaklega fyrir og um helgar.
Borgarfjarðarbrúin var tekin í notkun 1980 og upp úr 1990 var farið að huga uppfyllingunni við brúarsporðinn í vík sem kallaðist Neðri-Sandvík. Þar standa þessar ágætu byggingar sem hýsa Bónus, Geirabakarí, Apótek Vesturlands, Lífland, Grillhúsið, Arion banka o.fl
Enn ein þjónustan á landfyllingunni í Neðri-Sandvík bættist við nýlega en það er hleðslustöðvagarður sem ON (Orka náttúrunnar) á og setti upp. Samkvæmt heimildum fréttaritara keypti ON keypti lóðina sem stendur á milli Grillhússins og þess húss sem hýsir Arion banka og skrifstofur Borgarbyggðar. Þarna eru a.m.k. sjö hleðslustöðvar og einhver leiktæki fyrir unga og aldna til að nýta tímann til útvistar á meðan farartækið hleðst.
Geirabakarí hefur í gegnum árin verið áfangastaður margra, bæði heimamanna og ferðalanga innlendra sem erlendra. Fyrir 11 árum varð það frægt sem Papa Johns í kvikmyndinni The Secret Life of Walter Mitty og nú er það frægt fyrir bestu ástarpungana og vinsæla gulrótarrúgbrauðið. Nýir eigendur, Sissi og Þórdís, segja söluna í Geirabakaríi góða, sérstaklega í kökum, tertum og kaffihúsatengdum afurðum. Þau eru ánægð með þróun mála en að baki liggur mikil vinna og lítið um frí. Kannski eru þessi hefðbundnu brauð aðeins að gefa eftir í sölu en þrátt fyrir það er bæði veltuaukning og vöruþróun í fullum gangi með nýjum tækjabúnaði sem léttir störfin.
Fyrir þá sem ekki vita upplýsist hér með að Geirabakarí þjónar Melabúðinni með sölu á ástarpungum, gulrótarrúgbrauðinu góða og fleiri „gourmet“-afurðum sem íbúar í Vesturbænum í höfuðborginni kunna vel að meta.
La Colina sem mörgum finnst vera besti pitsustaður á landinu hefur skellt í lás fyrir veturinn og auglýsir að opnað verði að nýju í febrúar. Það er þó ekki tryggt því orðið á götunni segir að staðurinn sé til sölu, ef ekki seldur, og að ýmsir hafi verið að bera í hann víurnar. Við vonum alla vega að hvað sem verður, þá verði það gott og gómsætt.
Frést hefur að mikil hreyfing
sé í fasteignaviðskiptum í Borgarnesi og mikil eftirspurn er eftir húsnæði. Höfuðborgarbúar líta margir hingað upp eftir og eru að spyrjast fyrir um íbúðir og lóðir, sem er skortur á. Ánægjulegt er að til baka er að snúa ungt fólk eftir að hafa menntað sig og vill nú setjast að í heimabænum fallega Borgarnesi. Velkomin, segjum við öll!
Símenntun á Vesturlandi varð 25 ára á árinu og hélt upp á afmælið nýlega með pomp og prakt. Margt var skemmtilegt í afmælinu en það sem vakti athygli er „Símenntunarlagið“ en á námskeiði starfsfólks um gervigreind var prófað að biðja gervigreindina að semja lag um Símenntun í tilefni af afmælinu. Fenginn var trúbadorinn Ágúst Bernhardsson Linn til að útsetja lagið og flytja. Skemmst er frá því að segja að það tókst svona ljómandi vel og er fólk enn raulandi stefið. Upptöku má sjá og heyra á Facebook-síðu Símenntunar.