Það var glatt á hjalla á Flugsafni Íslands á Akureyri í gær, en margra mánaða lagfæringum á sögufrægri þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, er nú lokið og vélin orðin sýningarhæf.
„Veðurguðirnir glöddust aldeilis með okkur,“ segir Steinunn María Sveinsdóttir safnstjóri Flugsafnsins. Hún bætti við að ákveðið hefði verið að halda boðshátíð fyrir alla þá sem hafa staðið að því að koma TF-LIF eins nálægt sínu útliti eins og hún var á sínum merkisferli frá 1995-2020. TF-LIF kom til landsins 1995 og var langöflugasta þyrla sem verið hafði í þjónustu Landhelgisgæslunnar.
„Við fengum þyrluna norður í mars, og höfum verið að gera hana upp síðan með aðstoð hollvina safnsins og sænsku kaupendanna sem létu okkur fá varahluti til að þyrlan yrði sem næst sinni upprunalegu mynd á safninu. Við höfum verið í frábæru samstarfi við Öldungaráð Gæslunnar í þessu verkefni.“ doraosk@mbl.is