Eiríkur Egill Sigfússon fæddist 2. október 1955. Hann lést 31. ágúst 2024.

Útför Eiríks fór fram 14. september 2024.

Eiríkur var móðurbróðir minn og mikill uppáhaldsfrændi minn og okkar systkinanna frá Krossi. Hann var einstaklega ljúfur, góður og þolinmóður við okkur. Margar góðar og skemmtilegar minningar koma upp í hugann.

Einu sinni voru foreldrar okkar Sigga, mamma systir Eiríks og pabbi Gutti, á ferðalagi með bændum í sveitinni og voru í burtu í nokkra daga að mig minnir. Eiríkur frændi kom þá til okkar í Kross og var meðal annars að hjálpa okkur með búskapinn til dæmis að mjólka kýrnar. Ekki man ég hvað við vorum gömul. Hann kom til okkar á Lödunni sinni. Þegar var búið að mjólka þá um kvöldið og við búin að borða og gengið var til hvílu langaði okkur systkinin óskaplega mikið til að fara í bíltúr með Eiríki frænda okkar. Hann var skriðinn undir sæng í herbergi Huga bróður og ætlaði að fara að sofa. Við suðuðum í honum lengi og sögðum einum rómi: „Gerðu það, Eiríkur, komdu með okkur í bíltúr, komdu með okkur í bíltúr.“ Áður en langur tími leið lét hann undan suðinu í okkur og svaraði: „Æ, látið ekki svona,“ reis úr rekkju og fór með okkur í bíltúr í sveitinni. Ekki man ég hvert við fórum en þetta sýndi okkur eins og svo oft áður og síðar hvað Eiríkur frændi okkar var bóngóður við okkur systkinin.

Takk fyrir allar góðar samverustundir, elsku frændi, og hvíl í friði.

Þín frænka,

Þorbjörg Jóna.