Karl Kristján Sigurðsson fæddist 14. maí 1918. Hann lést 1. september 2024.
Útför hans fór fram 9. september 2024.
Í dag kveðjum við elsku afa Kalla.
Af því tilefni langar mig að þakka þér elsku afi fyrir svo ótal margt sem þú hefur gert fyrir mig og veitt mér síðustu 55 árin eða svo. Fyrstu æviárin mín bjuggum við mamma hjá ykkur ömmu á Skólaveginum í Hnífsdal og eftir að við fluttum inn á Ísafjörð má segja að ég hafi verið með annan fótinn hjá ykkur eða kannski frekar báða því þið veittuð mömmu ómældan styrk og stuðning á þessum árum. Það má sennilega segja að ég hafi verið skugginn þinn alla barnæskuna eftir að við fluttum aftur í Hnífsdal og fram á unglingsár. Hvert sem þú fórst þá fékk ég að fara með. Kom og heimsótti þig í vinnuna, var mikið á Skólaveginum, fékk að fara með í sumarbústaðaferðir og til Gunnu frænku í Ólafsvík. Þegar við fluttum svo úr Hnífsdal á höfuðborgarsvæðið hittumst við sjaldnar en alltaf var glatt á hjalla þegar þið amma voruð í heimsókn og ekki síst þegar þið, og svo þú einn eftir að amma lést 2013, komuð á Jaðar þar sem þú naust þín vel. Það var mikið fjör og hlátur þegar við spiluðum kana, manna eða rommý. Þú varst góð fyrirmynd, kenndir mér m.a. að vera vinnusöm, heiðarleg og stundvís. Í minningunni ertu alltaf hraustur og glaður, hugsaðir vel um ömmu og okkur afkomendurna. Áhugasamur um hvernig allir hefðu það, hvernig gengi hjá okkur og fjölskyldum okkar og hvattir okkur áfram. Þú sýndir mikinn og einlægan kærleik til okkar sem var gott að finna og gefa til baka. Það eru forréttindi að hafa átt 106 ára afa, langafa, langalangafa sem er skýr í kollinum og getur frætt um fyrri tíð og sagt skemmtilegar sögur. Afaknús var best af öllu og það var mér mjög dýrmætt að hitta þig nokkuð þétt á þessu ári og dýrmætast að ná að vera hjá þér síðustu sólarhringana og halda í hönd þína þegar þú yfirgafst þessa jarðvist saddur lífdaga. Ég veit þú vakir nú yfir okkur, stoltur af fólkinu þínu.
Elsku Sigga og Halldóra, kærleikskveðja til ykkar og allra annarra afkomenda og ástvina Kalla Sig.
Ásgerður Kristín Gylfadóttir.
Hvar á ég að byrja?
Byrjum á Skólaveginum, þar sem minn kæri afi og amma bjuggu sem ég var hjá á hverjum einasta degi og gisti hjá mikið í holunni hans afa með andlitið í hálsakotinu þar sem mér fannst best að vera, 100 prósent örugg.
Afi tók mig með sér út um allt og hægt er að segja að ég hafi verið eins og tyggjó, föst við hann frá því ég fæddist.
Allar minningarnar úr berjamó með nesti og appelsín.
Minningarnar úti í dal á gönguskíðum, hann keypti fyrir mig gönguskíði svo ég gæti farið alltaf með honum.
Minningarnar af bryggjunni að veiða marhnúta.
Minningin þegar hann fór með mig og vinkonur mínar 10 ára og kenndi okkur að gella og vigta þær og sagði okkur að selja þetta í hús svo við fengjum vasapening.
Þegar ég vann í frystihúsinu smurði hann alltaf nesti fyrir mig og alltaf var sykur á öllu, meira að segja brauðinu mínu með gúrkum.
Man alltaf eftir því að frá því ég var svona sjö ára þá fékk ég alltaf kaffibolla með hörðum kringlum í morgunmat og fullt af sykri.
Svo sauð hann linsoðið egg og fyllti það af sykri.
Öll ferðalögin okkar til Ólafsvíkur til Gunnu frænku og til Reykjavíkur til Hjördísar, alltaf fékk ég að koma með. Takk afi fyrir að vera besti afi í heimi. Kenna mér að passa upp á minnimáttar, alltaf að vera góð við alla, jákvæð, drekka mikið vatn og stríða mjög mikið.
Minningin þegar þið amma leyfðuð mér og tveimur öðrum vinkonum að flytja í kjallarann á Skólaveginum, það voru allir alltaf velkomnir og alltaf „nóg pláss“ eins og þið sögðuð.
Ég er svo þakklát að hafa getað verið með þér síðustu dagana þína elsku afi minn og að hafa fengið að tala við þig og ég vil þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig.
Ég mun aldrei gleyma því þegar þú sagðir „bráðum sé ég þig alla daga og ég mun fylgja þér og börnunum þínum“ og sagðir takk fyrir alla ástina.
Ég veit að amma tók á móti þér með öllum börnunum þínum og þið tókuð sama dansinn og þið tókuð þegar þið hittust og ákváðuð að dansa saman restina af ævi ykkar. 71 ár, þvílík lukka.
Hvíldu í friði minn mesti og besti klettur, ég elska þig og dái og mun halda minningu þinni á lífi alla ævi.
Litla óþekka rauðhærða stelpan þín,
Hafdís.