Bikarinn
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Víkingar freista þess að jafna met KR frá árunum 1960 til 1964 þegar þeir mæta KA í úrslitaleik bikarkeppni karla í fótbolta á Laugardalsvellinum í dag klukkan 16.
KR vann bikarkeppnina fimm fyrstu árin en Víkingar hafa unnið keppnina í fjögur síðustu skipti sem hún hefur verið haldin, 2019, 2021, 2022 og 2023.
Keppninni var aflýst haustið 2020 þegar komið var að undanúrslitum, vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Bikarmeistarar verða því krýndir í dag í 64. skipti á 65 árum.
Fimmti úrslitaleikur KA
KA leikur sinn fimmta úrslitaleik og freistar þess að verða bikarmeistari í fyrsta skipti. KA-menn hafa tapað fjórum úrslitaleikjum til þessa, gegn Val árið 1992, gegn Fylki árið 2001, gegn Keflavík árið 2004 og gegn Víkingi á síðasta ári.
Tvisvar hefur þetta staðið einstaklega tæpt hjá KA en liðið var yfir, 2:1, í úrslitaleiknum gegn Val árið 1992 þar til 7 sekúndur voru eftir og tapaði í framlengingu. Síðan tapaði KA fyrir Fylki í framlengdri vítaspyrnukeppni árið 2001 eftir að leikur liðanna endaði 2:2.
Víkingar leika sinn sjöunda úrslitaleik en þeir hafa þegar unnið keppnina fimm sinnum. Eftir tap gegn KR í sínum fyrsta úrslitaleik árið 1967 varð Víkingur bikarmeistari árið 1971 með því að sigra Breiðablik 1:0 í úrslitaleik á Melavellinum. Víkingar léku þá í næstefstu deild og er eina liðið í sögu keppninnar sem hefur unnið hana án þess að hafa leikið í efstu deild á viðkomandi keppnistímabili.
Vinnur Arnar í 5. skipti?
Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings getur orðið fyrsti þjálfarinn til að vinna bikarkeppnina fimm sinnum. Hann er þegar sá eini sem hefur unnið hana fjórum sinnum með sama félaginu en Guðjón Þórðarson vann hana líka fjórum sinnum í röð, tvisvar með ÍA og tvisvar með KR, á árunum 1993 til 1996.
Arnar hefur einnig einu sinni orðið bikarmeistari sem leikmaður. Hann vann bikarinn árið 2007 með FH og þá einmitt með einum núverandi leikmanna sinna, Matthíasi Vilhjálmssyni, en Matthías kom þá einmitt inn á sem varamaður fyrir Arnar í leiknum.
Fjórir leikmanna Víkings geta orðið bikarmeistarar í fimmta skiptið í röð en þeir Nikolaj Hansen, Erlingur Agnarsson, Viktor Örlygur Andrason og Halldór Smári Sigurðsson hafa unnið alla fjóra titlana með Víkingsliðinu á undanförnum árum.
Hallgrímur vann 2006
Hallgrímur Jónasson þjálfari KA hefur einu sinni orðið bikarmeistari. Hann var tvítugur varnarmaður í liði Keflvíkinga árið 2006 þegar þeir unnu KR-inga 2:0 í úrslitaleik keppninnar.
Þó KA hafi ekki orðið bikarmeistari á félagið aðild að einum bikarmeistaratitli. Lið ÍBA, sameiginlegt lið KA og Þórs til ársins 1974, varð bikarmeistari árið 1969 í fyrsta og eina skiptið og vann þá ÍA 3:2 í úrslitaleik sem leikinn var á Melavellinum í desember.
KA og Víkingur mætast í öðrum úrslitaleik keppninnar í röð en Víkingar unnu úrslitaleik liðanna á Laugardalsvellinum í fyrra, 3:1.
Það hefur aðeins einu sinni gerst áður að sömu félögin mætist í úrslitaleikjum tvö ár í röð. KR og ÍA mættust árin 1963 og 1964 og KR-ingar höfðu betur í bæði skiptin, 4:1 og 4:0.