„Ég fór alltaf út um tólf á hádegi, hvar sem ég var staddur, og tók mynd af himninum. Síðan setti ég inn veðurupplýsingar frá Veðurstofunni, en einnig skrásetningu Árna 170 árum fyrr. Þetta gerði ég í heilt ár,“ segir Einar Falur um verkefni sitt Útlit loptsins.
„Ég fór alltaf út um tólf á hádegi, hvar sem ég var staddur, og tók mynd af himninum. Síðan setti ég inn veðurupplýsingar frá Veðurstofunni, en einnig skrásetningu Árna 170 árum fyrr. Þetta gerði ég í heilt ár,“ segir Einar Falur um verkefni sitt Útlit loptsins. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við þráum öll að geta stoppað tímann og myndavélin býður upp á það að vissu leyti með því að fanga augnablikið. En svo þýtur tíminn áfram.

Þokusúld, níu stig, logn, gráhvítur himinn. Þannig myndi blaðamaður lýsa veðrinu morgun einn í vikunni þegar hann lagði leið sína í Seljahverfið til fundar við listamanninn, ljósmyndarann, rithöfundinn og blaðamanninn Einar Fal Ingólfsson. Ekki er viðmælandinn alveg ókunnugur, enda Moggamaður með meiru, en hér á blaðinu starfaði hann í fjörutíu ár; sem fréttaritari, ljósmyndari, myndstjóri og blaðamaður. Einar hætti á Mogganum fyrir tveimur árum til þess að geta hellt sér út í listsköpun sína af fullum krafti en á erfitt með að klippa alveg á naflastrenginn því hann skrifar endrum og eins ritdóma.

Í stofunni hjá Einari Fal og Ingibjörgu Jóhannsdóttur eiginkonu hans eru listaverk og ljósmyndir uppi um alla veggi og bækur í öllum hillum. Ljóst er að líf og störf Einars snúast um bókmenntir og listir, en hann blandar gjarnan saman texta og mynd. Myndavélina notar hann til að skrásetja það sem fyrir augun ber og fer hann á sömu staði aftur og aftur, því tíminn spilar stórt hlutverk í verkum hans. Einar setur oft verk sín fram í dagbókarformi og kallast þá jafnvel á við löngu dáið fólk. Nýjasta verk hans nefnist Útlit loptsins – Veðurdagbók en sýning með verkunum verður opnuð í Listasafninu á Akureyri um næstu helgi. Samhliða sýningunni gefur Einar út veglega bók þar sem veðurathuganir eru í fyrirrúmi.

Himinninn klukkan tólf á hádegi

Ertu með veður á heilanum?

„Veðrið litar alla okkar tilveru, vitaskuld úti um allan heim en svo sannarlega mjög mikið hér á Íslandi. Sem strákur sem ólst upp í sjávarplássinu Keflavík var ég meðvitaður um hvaða áhrif veður hafði á líf og störf fólks og það var sussað á mann þegar veðurfréttir voru í útvarpinu. Frá sex ára aldri var ég mikið í sveit hjá afa og ömmu í Biskupstungum og þar hafði veðrið áhrif á gang lífsins; hvort hægt væri að heyja eða reka á fjall,“ segir Einar, en verkefnið Útlit loptsins hófst fyrir tveimur árum þegar hann fékk boð um að taka þátt í myndlistarverkefni sem snýst um veður og veðurfarsbreytingar víða um heim.

„Það voru forréttindi að fá þetta boð, að einbeita mér að veðri, og spennandi tækifæri að vera í samstarfsverkefni með kollegum annars staðar,“ segir Einar og útskýrir að Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar ákvað að taka þátt í fjölþjóðlegu verkefni um „Veðurnet heimsins“, eða World Weather Network, en vefsíðan worldweathernetwork.org birti reglulega fréttir af verkefninu og sýnir sum listaverka þátttakenda. Það er Artangel, bresk stofnun sem sinnir samtímalist, sem stendur að verkefninu, en hún hafði áður komið við sögu á Íslandi því hún stóð að Vatnasafni í Stykkishólmi utan um verk Roni Horn. Í veðurnetsverkefninu fengu listamenn í 28 löndum frjálsar hendur við listsköpun með það að markmiði að skrásetja veðrið í eitt ár. Einar vann að fjölbreytilegum verkefnum en valdi ekki síst að horfa til himins hvern dag á hádegi og skrásetja veðrið í texta og á ljósmynd. Fyrstu mánuðina vann hann sem gestalistamaður í Vatnasafninu í Stykkishólmi.

„Grunnverkið var þessi dagbók mín. Ég er kannski með eins konar þráhyggju fyrir því að skrásetja líf mitt með myndavél og hef gert alls kyns dagbókarverkefni í gegnum tíðina. Ég ákvað að halda dagbók sem fjallaði um veðrið og um leið að taka upp gamalt fyrirbæri, veðurdagbók, sem margir á Íslandi hafa haldið í gegnum aldirnar. Fyrsti alvöru íslenski veðurskrásetjarinn var Árni Thorlacius, kaupmaður í Stykkishólmi, oft kenndur við Norska húsið sem nú er byggðasafnið. Hann var útgerðarmaður og aðalmaðurinn í plássinu, en hann byrjaði að halda veðurdagbók árið 1845 og hélt hana hátt í fjóra áratugi,“ segir Einar og útskýrir að Árni hafi farið upp á Bókhlöðuhöfða sex sinnum á dag þar sem hann gáði til veðurs.

„Hann skrásetti veðrið vísindalega með bestu mælitækjum þess tíma og skráði hitastig, loftþrýsting, úrkomu, vindstyrk og vindátt en í síðasta dálknum í færslum var mat hans á veðrinu. Árni lýsir þá skýjafarinu og himninum og notar falleg orð eins og heiðbjartur, þykkur og dimmur og hálfheiður. Ég ákvað í dagbók minni að kallast á við Árna,“ segir Einar.

„Ég fór alltaf út um tólf á hádegi, hvar sem ég var staddur, og tók mynd af himninum. Síðan setti ég inn veðurupplýsingar frá Veðurstofunni, en einnig skrásetningu Árna 170 árum fyrr. Þetta gerði ég í heilt ár.“

Í samstarfi við löngu látið fólk

Í fyrri verkum sínum, sem og þessari veðurdagbók, vinnur Einar Falur með tímann og fer þá gjarnan aftur á sömu staði, myndar sama mótíf frá sama bletti, til að geta rannsakað þær breytingar sem hafa orðið með tímanum.

„Tíminn er vissulega bæði hringlaga og lína sem fer áfram,“ segir Einar og útskýrir að segja mætti að árstíðirnar fari í hringi.

„Ég er auðvitað nútímamaður og því er mín tímalína mjög ólík Árna, sem var alltaf í Hólminum. Ég er einn daginn í Stykkishólmi og daginn eftir er ég kominn til Finnlands eða New York. Ég notaði alltaf þann stað þar sem ég var staddur. Eins og dagbókin sýnir fer ég víða og margar myndanna eru líka portrett eða mannamyndir og fór það eftir því hver var með mér klukkan tólf á hádegi,“ segir Einar, en fleiri verkefni vann hann þetta ár sem lutu svipuðum lögmálum.

„Á einu ári fór ég 24 sinnum á Helgafell og tók myndir frá sama sjónarhorni. Tólf myndanna verða á sýningunni á Akureyri,“ segir Einar og nefnir að hann hafi strax sem ungur maður farið að vinna með myndavélina sem skrásetningartæki.

„Ég byrjaði að taka sjálfsmyndir reglulega og með sama hætti, löngu áður en þær komust í tísku, ætli það hafi ekki verið til að sjá hvernig ég eldist! Við þráum öll að geta stoppað tímann og myndavélin býður upp á það að vissu leyti með því að fanga augnablikið. En svo þýtur tíminn áfram.“

Svo ertu líka alltaf að kallast á við löngu látna menn.

„Já, það er mjög athyglisverður punktur sem ég hef lengi klórað mér í hausnum yfir,“ segir Einar.

„Í mjög langan tíma hafa helstu samstarfsmenn mínir í myndlistinni verið látið fólk! Það getur verið erfitt að fá „konkret“ svör frá þeim,“ segir Einar og brosir út í annað.

Árið 2010 vann Einar, í samvinnu við Þjóðminjasafnið, að stóru verkefni þegar hann gerði sýningu og bók sem bar nafnið Sögustaðir – Í fótspor W.G. Collingwoods. Þar fetar Einar í fótspor breska myndlistarmannsins og fornfræðingsins William Gershom Collingwood, sem hafði málað, teiknað og myndað staði sem koma fyrir í Íslendingasögunum á tíu vikna ferðalagi um Ísland sumarið 1897.

Árið 2016 vann Einar að öðru slíku verki, sem hann nefnir Landsýn. Þar skoðar Einar verk danska teiknarans Johannesar Larsen og myndar staði sem hann hafði teiknað löngu áður.

„Hann var þá búinn að vera látinn í hálfa öld, og nú vinn ég með Árna Thorlacius. Annað verkefni sem ég er með í bígerð er að vinna með ljósmyndum Sigfúsar Eymundssonar, fyrsta íslenska ljósmyndarans. Ég hef verið að móta og mynda það verk síðustu fimm árin og sýning á því verður í Bogasal Þjóðminjasafnsins í mars næstkomandi. Þá kemur líka út bók með verkefninu,“ segir Einar, sem greinilega fellur ekki verk úr hendi.

„Sigfús var mjög merkilegur ljósmyndari sem var í raun allra fyrstur til að ljósmynda þá staði sem ferðamenn flykkjast enn á. Í verkefninu með honum vinn ég svipað og með Collingwood og Larsen; fer á milli staða þar sem hann myndaði, endurtek sjónarhorn hans en mynda líka mín eigin.“

Fyrstur til að lesa Moggann

Bakgrunn Einars Fals í blaðamennsku og ljósmyndun og áhugann á bókmenntum og sagnfræði hefur hann nú sameinað í list sinni. Einar segist snemma hafa fengið óbilandi áhuga á fréttum.

„Ég var með algjöra ástríðu fyrir dagblöðum frá því að ég var lítill strákur og vaknaði á undan foreldrum mínum til að ná Mogganum fyrstur. Ég kynntist svo göldrum ljósmyndavélarinnar og myrkraherbergisins um tíu, ellefu ára,“ segir Einar og segist hafa eytt ómældum stundum í myrkrakompu skólans þar sem hann hafði óheftan aðgang.

Faðir Einars var lengi vel fréttaritari Morgunblaðsins; starf sem Einar tók að sér þegar pabbi hans hafði ekki lengur tíma sökum anna.

„Ég fór í starfskynningu á Moggann þegar ég var fimmtán og átti að vera þrjá daga á ljósmyndadeildinni. Ég var mjög spenntur að fá að vera nálægt hetjunum mínum, „gamla kallinum“, sem mér þá fannst, Ragnari Axelssyni, en ég dýrkaði myndir hans sem unglingur og einnig leit ég mjög upp til Ólafs K. Magnússonar. Ég fékk svo líka að fylgja eftir blaðamönnum og fór meðal annars á blaðamannafund fyrsta daginn þar sem Ragnar í Smára og Halldór Laxness voru að kynna Söguna af brauðinu dýra,“ segir Einar, sem hafði lesið allar bækur Laxness fyrir fermingu en viðurkennir fúslega að margt í þeim hafi farið fyrir ofan garð og neðan hjá honum.

„Ég hafði reyndar hitt Halldór Laxness áður, þegar ég tók með vinum mínum við hann viðtal fyrir skólablaðið í Keflavík þegar ég var fjórtán ára og myndaði hann líka,“ segir Einar, sem greinilega var nokkuð óvenjulegur unglingur.

„Nörd“ er orðið sem hann notar sjálfur.

„Eftir þrjá daga á Mogganum var mér boðið að vera lengur, skrifa einhverjar fréttir og mynda,“ segir Einar og var honum í kjölfarið boðið að taka við af föður sínum sem fréttaritari, sem hann þáði.

„Það gat verið flókið, því ég var ekki með bílpróf og þurfti oft að fara á puttanum og ekki batnaði það þegar Grindavík var bætt á mig,“ segir Einar og brosir.

Nóg var að gera hjá unga manninum, sem flakkaði á milli Keflavíkur og Reykjavíkur með filmur, flutti fréttir af Suðurnesjum, myndaði allt sjálfur og framkallaði.

„Þannig að ég er búinn að vera tengdur blaðinu mjög lengi. Ég var ekki orðinn stúdent þegar ég gerðist sumarstarfsmaður á ljósmyndadeildinni,“ segir Einar, sem síðar gerðist þar fullgildur ljósmyndari, lærði síðan bókmenntafræði, flutti til New York í meistaranám í ljósmyndun og kom svo aftur á Moggann í glænýtt starf sem myndstjóri. Einar endaði svo feril sinn á Morgunblaðinu sem umsjónarmaður menningarefnisins sem að sjálfsögðu tók myndir líka.

Ofurfyrirsætur flæddu í gegn

En víkjum aðeins aftur að ljósmyndaáhuganum. Mikill áhrifavaldur Einars Fals í lífinu er hinn heimskunni ljósmyndari Mary Ellen Mark, en hún lést árið 2015.

„Ég fór á vikulangt námskeið hjá henni í Frakklandi þegar ég var 21 árs og það breytti lífi mínu. Það var svo einfalt. Síðar má segja að hún hafi flutt okkur hjónin til New York, þar sem hún bjó, í framhaldsnám í School of Visual Arts.”

Einar segir að vitaskuld hafi verið stórkostlegt að búa, læra og starfa í þessari borg borga.

„Eftir nám lenti ég fyrir furðulega tilviljun í að vinna í kjarna tískuiðnaðarins, sem er vissulega mjög langt frá mínu áhugasviði,“ segir Einar, en vinna hans fólst í að prenta myndir hins víðfræga tískuljósmyndara Patrick Demarchelier. Þar fékk hann það góð laun að það dugði fyrir uppihaldi í borginni að vinna tvo daga í viku.

„Þetta var merkileg reynsla en þetta var heimur sem ég hafði aldrei haft áhuga á. Ofurfyrirsæturnar flæddu þar í gegn,“ segir hann og brosir.

„Svo hringdu mínir gömlu ritstjórar, Styrmir og Matthías, og buðu mér starf myndstjóra og við ákváðum að koma heim. Sem var ekki auðveld ákvörðun. En þá fór ég að vinna með ykkur ljósmyndurum vinum mínum,“ segir Einar, en svo skemmtilega vill til að undirrituð var ljósmyndari hjá Einari öll þau tólf ár sem hann stjórnaði deildinni.

„Gamla ljósmyndadeildin var frábær vinnustaður og þar unnu um tuttugu manns þegar mest var. Þetta var gríðarlega lifandi og skemmtileg deild og að mínu mati var hún hiklaust ein af þremur, fjórum bestu ljósmyndadeildum á dagblöðum Norðurlanda,“ segir Einar, sem árið 2007 sneri sér svo að menningarblaðamennsku og að vinna sjálfstætt að list sinni.

Alltaf að breyta lífi mínu

Einar Falur hefur ferðast mikið um heiminn og tekið sérstöku ástfóstri við það litríka og kaótíska land Indland.

„Ferðalög tengjast áhuga mínum á ljósmyndun, því sem ljósmyndaskrásetjari hef ég alltaf áhuga á að skrásetja heiminn. Alveg frá því að ég var strákur hef ég viljað upplifað heiminn við það að skrásetja hann. Ég lá yfir bókum Cartier-Bressons frá Indlandi sem unglingur,“ segir Einar, en sá ljósmyndari var lengi átrúnaðargoð hans.

„Á árunum áður en við Ingibjörg eignuðumst dætur okkar notaði ég gjarnan janúar til að flakka erlendis og afla efnis,“ segir Einar, en hann var meðal annars í mánuð í Kína að vinna efni um Þriggja gljúfra stífluna, langstærstu virkjun heims.

„Varðandi Indland hafði ég lengi haft áhuga á mannlífinu þar. Minn kæri vinur Mary Ellen Mark ýtti undir þá bakteríu, en hún hafði sjálf verið þar mikið,“ segir Einar, en hann hefur dvalið þar margoft í mánuði í senn að vinna að ýmsum ljósmyndaverkefnum. Árið 2001 sótti Einar til dæmis Kumbh Mela-trúarhátíðina, þar sem tugir milljóna manna komu saman.

„Ég undirbjó þá ferð í nokkur ár og hafði löngu verið búinn að panta gistingu í tjaldi. Þetta var fjölmennasta samkoma í sögu heimsins, en helgasta daginn þar komu saman tólf milljónir manna á einum litlum bletti,“ segir hann, en þá sögu segir hann meðal annars í bók sinni með ferðafrásögnum, Án vegabréfs.

„Eftir að dæturnar fæddust dró ég eðlilega mikið úr ferðalögum en árið 2017 fórum við Ingibjörg og eldri dóttir okkar ásamt Martin, eiginmanni Mary Ellen, og fleiri nánustu vinum þeirra hjóna í ferð til Indlands til að sökkva ösku Mary Ellen við útför á Ganges-fljóti í Varanasi, sem er helgasta borg hindúa og eina borg jarðar þar sem dauðinn er í raun fyrir miðju. Hluta af öskunni var svo blandað við moldina sem við gróðursettum tré í, í garði hjá eina atvinnugallerínu þar í borg, hjá indverskum menningarfrömuði. Þar eru gestavinnustofur fyrir listamenn og hjónin buðu mér að koma þangað að vinna árið eftir,“ segir Einar, sem hefur síðan verið þar langdvölum á haustin og unnið að ólíkum verkefnum. Fleiri íslenskir listamenn hafa líka unnið þar með honum og mun afrakstur vinnu sex þeirra sjást á sýningu í Listasafni Árnesinga í febrúar.

Þannig að Mary Ellen Mark heldur áfram að hafa áhrif á líf þitt, jafnvel eftir dauðann?

„Já, það er mjög merkilegt. Hún hafði mikil áhrif á fólk. Strax þegar ég kynntist henni fyrst 21 árs sagði hún: „Þú verður vissulega ljósmyndari. En ég get sagt þér eitt. Þú verður líka rithöfundur.“ Mér þótti þetta fáránlegt og hló! En síðan hef ég skrifað hátt í tuttugu bækur, að hluta eða allar. Mary Ellen las fólk algjörlega. Hún hafði ótrúleg áhrif á mig og var hálfgerð amma dætra minna í Ameríku. Hún er enn með okkur.“

Kallast á við tímann

Ljóst er að Einar Falur hefur nóg fyrir stafni að sinna listinni á sinn einstaka hátt. Ýmislegt er á döfinni; fyrst sýningin í Listasafninu á Akureyri Útlit loptsins sem verður opnuð næstu helgi og stendur fram í janúar, auk útgáfu bókar með sama titli. Hann segist reyna að vera agaður í vinnu sinni.

„Þegar ég var í fastri vinnu reyndi ég að vinna alltaf að lágmarki tvo tíma á kvöldin að mínum eigin verkefnum. En þú frumskapar aldrei gæði í aukavinnu og því gera listamannalaun, ef maður er svo heppinn að fá þau með góðri umsókn, manni kleift að einbeita sér að listinni. Það græða allir á því; án listamannalauna væri íslensk menning svo sannarlega deyfðarlegri og einsleitari en hún er,“ segir hann.

Og eftir opnun sýningar Einars um veðrið á Akureyri um næstu helgi stekkur hann aftur af stað.

„Ég fer beint til Varanasi að vinna, á þann töfrandi stað þar sem allt er nú í blóma eftir monsúnrigningarnar. Þar ætla ég að skrifa textann fyrir bókina með samstarfsverki okkar Sigfúsar Eymundssonar auk þess að vinna í bók sem ég hef verið á kafi í, ritstýri og skrifa að mestu, um Kristján H. Magnússon listmálara sem lést ungur, aðeins 34 ára gamall, árið 1937. En á Indlandi nýt ég þess að vera þátttakandi í einstökum mannlífssirkusnum. Landið er ein ögrandi óreiða og mér finnst það heillandi,“ segir hann.

„Þar er ég líka í samtali við það sem er liðið. Í ljósmyndun minni er ég alltaf að reyna að tengja við liðna tíma og söguna og virkja hana upp á nýtt. Ég er einhvern veginn endalaust að kallast á við tímann.“

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir