Eigendur bandaríska kjarnorkuversins á Three Mile Island í Pennsylvaníu munu á næstunni hefja raforkuvinnslu í verinu á ný. Mikil eftirspurn er nú eftir kjarnorku vestanhafs og verður orkan seld til tæknirisans Microsoft.
Raforkusamningurinn er gerður til næstu 20 ára og verður kjarnaofn númer 1 endurræstur eftir fimm ára framleiðslustopp.
Kjarnorkuverið komst í heimsfréttirnar 28. mars 1979 þegar alvarleg tæknibilun og röð mistaka starfsfólks leiddu til þess að geislavirk efni sluppu út. Hafði þá kjarnaofn númer 2 brætt úr sér að hluta. Þúsundir íbúa í námunda við verið þurftu að flýja heimili sín í kjölfarið. Er þetta alvarlegasta kjarnorkuslys í sögu Bandaríkjanna og hafði það áhrif á vinnuumhverfi í kjarnorkuverum um heim allan.
Síðan þá hefur kjarnorkuverinu ýmist verið haldið gangandi í lausagangi eða slökkt hefur verið á því að fullu. khj@mbl.is