Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Við erum jafngömul, bikarkeppni karla í fótbolta og ég. Bæði árgerð 1960.
Gunnar Guðmannsson og Þórólfur Beck tryggðu KR sigur í fyrstu bikarkeppninni, 2:0 gegn Fram, nokkrum mánuðum eftir að ég kom í heiminn.
Þegar lið ÍBA varð bikarmeistari 7. desember 1969 með sigri á ÍA, 3:2, á „skautasvelli“ á Melavellinum, fylgdist ég með íslenskum fótbolta í fyrsta skipti.
Ekki í sjónvarpi, sem sást fyrst í minni heimabyggð 13. desember 1969, heldur á íþróttasíðum Tímans.
Lýsingin á sigurmarki Kára Árnasonar í framlengingu var grípandi, en hann nýtti sér svellbunkana á vellinum og „lét varnarmenn ÍA „skauta“ fram hjá í öfuga átt og tókst að renna boltanum í markið,“ eins og Kjartan heitinn Pálsson skrifaði í framsóknarmálgagnið.
Kári var KA-maður og einn litríkasti leikmaður landsins á þessum árum. Hann féll frá fyrr á þessu ári en ég sá á Akureyri.net í vikunni að félagi hans úr ÍBA-liðinu, Skúli Ágústsson, yrði heiðursgestur á bikarúrslitaleik KA og Víkings í dag.
Eyjólfur Ágústsson, bróðir Skúla, og Magnús Jónatansson skoruðu hin tvö mörk ÍBA í þessum sögulega úrslitaleik sem fram fór á óvenjulegum tíma við erfiðar aðstæður.
„Völlurinn var „líkari hrauni en knattspyrnuvelli. Á stórum köflum var hann enn eins og skautasvell,“ sagði Kjartan í fyrrnefndri grein um leikinn.
Í dag reyna KA-menn að leika eftir afrek Skúla og félaga og koma með bikarinn til Akureyrar. Til þess þurfa þeir að vinna óárennilegt og sigursælt Víkingslið. Við aðeins betri skilyrði.