He Rulong
He Rulong
Þegar við lítum til baka og sjáum hvað höfum náð langt gefur það okkur ástæðu til að fagna saman og líta björtum augum fram um veg.

He Rulong

Mér var það mikil ánægja að fylgjast með því hvernig Íslendingar héldu upp á 80 ára afmæli lýðveldisins þann 17. júní síðastliðinn. Við Kínverjar fögnum líka okkar eigin afmæli þann 1. október þegar Alþýðulýðveldið Kína verður 75 ára. Þá verður mikið um dýrðir, enda er það venja að halda sérlega vel upp á kínverska afmælisdaga á fimm ára fresti. Þetta er því sérstakt þjóðhátíðarár beggja þjóðanna sem við getum glaðst sameiginlega yfir. Xi Jinping, forseti Kína, fagnaði íslenska þjóðhátíðardeginum með því að senda Guðna Jóhannessyni, þáverandi forseta, heillaóskir þar sem hann óskaði ríkisstjórninni og landsmönnum öllum innilega til hamingju.

Fá ríki ef nokkur hafa náð jafn langt og bætt lífskjör íbúa sinna jafn mikið á jafn stuttum tíma og þessi tvö ríki, Ísland og Kína. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra gerði langa og stranga vegferð Íslendinga inn í nútímann að umræðuefni í þjóðhátíðarávarpi sínu þar sem hann sagði m.a. að Ísland hefði verið „eitt fátækasta ríki Vestur-Evrópu og þeir voru til sem höfðu efasemdir um að við gætum nokkurn tímann staðið undir sjálfstæðinu“. Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, ræddi þetta líka í innsetningarræðu sinni þar sem hún sagði að umbylting hefði orðið á einungis áttatíu árum – „og því er vert að spyrja á þessum tímamótum, hvert viljum við stefna, já og hvar viljum við vera stödd, bæði í náinni framtíð en jafnvel líka að áttatíu árum liðnum?“

Þetta eru sömu umræðuefni og þau sem við Kínverjar veltum fyrir okkur í tilefni af 75 ára afmæli Alþýðulýðveldisins Kína. Fortíðin var Íslendingum ekki auðveld og hún var jafnvel enn erfiðari fyrir okkur Kínverja. Þegar við lítum til baka og sjáum hvað höfum náð langt gefur það okkur ástæðu til að fagna saman og líta björtum augum fram um veg.

Fyrir ævalöngu var haft eftir kínverska heimspekingnum Konfúsíusi: „Sjötugur gat ég gert það sem hugurinn girntist án þess að fara yfir mörk velsæmis.“

Undanfarin 75 ár hefur heitasta ósk Kínverja verið að fæða og klæða alla íbúa landsins, sem nú telja hátt í einn og hálfan milljarð, og veita þeim mannsæmandi húsnæði. Þetta hefur okkur tekist. Við eigum enga ósk heitari en að mannkynið allt geti tekið höndum saman um uppbyggingu sameiginlegrar framtíðar þar sem allir jarðarbúar búa saman í sátt og samlyndi við velmegun og mannsæmandi kjör.

Þrátt fyrir að Kína hafi náð miklum efnahagslegum og hernaðarlegum styrk hefur það aldrei hvarflað að Kínverjum að beita önnur ríki þrýstingi og þvingunum til að breyta eigin stjórnarháttum eða beita þau vopnavaldi. Kína hefur heldur ekki blandað sér inn í svæðisbundin átök eða styrjaldir. Við fylgjum sjálfstæðri utanríkisstefnu friðar og friðsamlegra lausna og stöndum staðfastlega vörð um sáttmála og meginreglur Sameinuðu þjóðanna. Við munum aldrei hvarfla frá fullveldi okkar, sjálfræði eða yfirráðum yfir okkar eigin landi eða lögsögu.

Við gerum okkur grein fyrir því að okkur er enn ábótavant að mörgu leyti þrátt fyrir 75 ára stjórnarafmæli ríkisins. Þess vegna ákvað þriðji allsherjarfundur tuttugustu miðstjórnar Kommúnistaflokks Kína nú í júlí að halda áfram róttækum umbreytingum á öllum sviðum í þágu nútímavæðingar landsins og frekari opnunar gagnvart umheiminum. Þá voru tilgreind ríflega 300 stórverkefni á sviði umbreytinga sem hrint verður í framkvæmd fyrir 2029 þegar við fögnum 80 ára afmæli alþýðulýðveldisins. Markmið okkar er að stilla okkur í fremstu röð lýðræðisríkja, hátækni, nýsköpunar, menningar, sjálfbærrar þróunar, vistkerfisverndar og á öllum sviðum samfélagsþróunar. En jafnvel þó að það takist munum við ekki fyllast ofmetnaði heldur líta í eigin barm eftir vanköntum sem þarf að bæta.

Ég hef verið nógu lengi á Íslandi til að komast að því að fólk hefur misjafnar skoðanir á Kína. Það er eðlilegt og ég hef ánægju af því að deila skoðunum mínum og jafnvel rökræða við fólk. Ég bendi fólki oft á að besta leiðin til að kynnast Kína sé að heimsækja landið og kynnast því af eigin raun. Fólk lærir lítið um heiminn ef það sér ekki út fyrir eigin kálgarð. Íslenski ævintýramaðurinn Kristján Gíslason hringfari, sem hefur hringsólað um veröldina á mótorhjóli, segir að hann hafi lært mikið um fegurð og fjölbreytileika mannkynsins á ferðum sínum. Ég hef ekki ferðast jafnvíða og hann en ég hef lært að bera virðingu fyrir Íslendingum og Íslandi og kann að meta stórfenglega fegurð landsins, sem er ólíkt Kína um svo margt. Ég er ekki alþjóðlegur mótorhjólamaður en ég hef lært að vera auðmjúkur eftir að hafa heimsótt fleiri en 100 lönd.

Ólík lönd eins Kína og Ísland hafa margt til að bera sem þau geta lært hvort af öðru. Nýlega kom Sun Jinlong, vararáðherra vistkerfis og umhverfismála, í heimsókn til Íslands og ræddi við Guðlaug Þórðarson, ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála, um samstarf á þeim sviðum.

Þá hafa nokkrar sendinefndar á sviði viðskipta og menntamála heimsótt Ísland að undanförnu auk sendinefnda frá ýmsum kínverskum byggðarlögum. Dagana 22. til 27. september verður haldin kínversk kvikmyndavika í Bíó Paradís í tilefni af 75. þjóðhátíðarafmæli Alþýðulýðveldisins Kína. Sýndar verða þrjár kínverskar kvikmyndir öllum að kostnaðarlausu.

Fleiri tækifæri til samstarfs og samskipta milli Kína og Íslands eru í farvatninu og ég er sannfærður um að framtíðin lofar góðu um vöxt samskipta og vináttu landanna nú og áfram á næstu 75 árum.

Kína verður áfram einlægur vinur Íslands um ókomna tíð!

Höfundur er sendiherra Kína á Íslandi.

Höf.: He Rulong