Um 200 manns mótmæltu utan við ríkisstjórnarfund í vikunni þegar fjallað var um hælisleit fjölskyldu langveiks barns.
Um 200 manns mótmæltu utan við ríkisstjórnarfund í vikunni þegar fjallað var um hælisleit fjölskyldu langveiks barns. — Morgunblaðið/Karítas
Heildarkröfur í þrotabú Skagans 3X reyndust nema 13 milljörðum króna, að stærstum hluta almennar kröfur. Ofsótti breski rithöfundurinn Salman Rushdie var sæmdur bókmenntaverðlaunum Laxness af Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra við hátíðlega…

14.9.–20.9.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Heildarkröfur í þrotabú Skagans 3X reyndust nema 13 milljörðum króna, að stærstum hluta almennar kröfur.

Ofsótti breski rithöfundurinn Salman Rushdie var sæmdur bókmenntaverðlaunum Laxness af Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra við hátíðlega viðhöfn í Háskólabíói.

Umboðsmaður Alþingis krefur Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra svara vegna seinagangs við úthlutun hvalveiðileyfis í ár.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, segir enga samstöðu í sjávarútvegi við boðuð frumvörp matvælaráðherra, sem snerta greinina. Hún sagði þau samtíning af gömlum gæluverkefnum Vinstri grænna.

Rúta varð alelda á nokkrum mínútum í Tungudal í Skutulsfirði, rétt eftir að hún kom út úr Vestfjarðagöngum á leið til Ísafjarðar. Engan sakaði en illa hefði getað farið hefði eldurinn komið upp í göngunum.

Orkustofnun gaf út virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun.

Mannfræðiprófessor gagnrýndi sýningu danska náttúruminjasafnsins um geirfuglinn og þótti þar ósanngjarnt hve mikið væri gert úr hlut veiðimannsins sem felldi síðasta fuglinn í Eldey 1844.

Bryndís Klara Birgisdóttir, sem lést af stungusárum eftir hnífsárás í miðbæ Reykjavíkur, var jarðsungin frá Hallgrímskirkju að viðstöddu fjölmenni.

Orkuveita Reykjavíkur greindi frá miklum áhuga bæði erlendis og hér á landi á útboði fyrirtækisins á tilraunaborunum fyrir bæði hitaveitu og jarðhitavirkjun. Kostnaður er talinn á bilinu 15-18 milljarðar kr.

Þrátt fyrir nokkurn samdrátt í fjölda ferðamanna benda tölur Ferðamálastofu til þess að áhugi á helstu náttúruperlum landsins hafi síður en svo dalað og aðsókn aukist um allan helming.

Umboðsmaður barna kvartaði undan seinum svörum ráðherra við fyrirspurnum um biðlista barna eftir þjónustu hins opinbera.

Mikil sala hefur verið í netverslun Hagkaups með áfengi, sem opnuð var fyrir liðna helgi.

Maður var handtekinn, grunaður um að hafa drepið tíu ára gamla dóttur sína, en kringumstæður þess eða möguleg ástæða ásetnings um það voru mjög á huldu.

Brottflutningi palestínskrar fjölskyldu, sem synjað hafði verið um hæli hér á landi þar sem hún hefði komið frá Spáni, var frestað af Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra. Það gerðist á síðustu stundu aðfaranótt mánudags, þegar Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra krafðist þess að málið yrði fyrst rætt á ríkisstjórnarfundi.

Dómsmálaráðherra sagði að ákvörðun um brottflutning fjölskyldunnar stæði óhögguð hvað sem því liði, enda gæti ráðherra ekki upphafið lögmæta stjórnvaldsákvörðun. Ráðherrann játaði jafnframt að frestunin væri ekki dæmi um góða stjórnsýslu og sagði hana sér á móti skapi.

Skjótt spurðist út að Vinstri grænir hefðu látið að því liggja að til stjórnarslita kæmi ef ekki yrði orðið við kröfu þeirra. Fáir lögðu trúnað á neitun ráðherra á því.

Landsnet kynnti raforkuspá,
en þar eru líkur taldar á viðvarandi raforkuskorti í landinu næstu árin.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir verður áfram í embætti ríkislögreglustjóra næstu fimm árin þar sem dómsmálaráðherra auglýsti það ekki laust til umsóknar, eins og heimild er þó til.

Björgunarsveitir voru kallaðar út til þess að leita manns við Vík.

Ríkisstjórnin hittist á reglulegum fundi, sem teygðist hraustlega úr, en þar var hælisleit palestínskrar fjölskyldu meðal annars á dagskrá.

Eftir langan ríkisstjórnarfund sögðu sjálfstæðismenn að ákvörðun um brottvísun þeirra stæði, Vinstri grænir sögðu að málalyktir yrðu farsælar, en framsóknarmenn að fjölskyldan færi hvergi og fengi efnislega meðferð.

Á daginn kom að allir höfðu ráðherrarnir rétt fyrir sér, því stjórnvaldsákvörðunin stóð óhögguð, henni var bara ekki framfylgt, svo frestur spænskra stjórnvalda til þess að taka við fjölskyldunni aftur rann út.

Friður meðal stjórnarflokkanna jókst ekki við þetta, efast var um að þessi brögð stæðust lög eða stjórnarskrá, en jafnvel meðal sjálfstæðismanna var rætt að dómsmálaráðherra ætti að biðjast lausnar, ábyrgðin væri hans.

Forstjóri Landsnets spáði víðtækum raforkuskerðingum næstu árin. Framkvæmdir í raforkukerfinu hefðu engan veginn verið í takt við eftirspurn, hvað þá fyrirætlanir um orkuskipti. Óhjákvæmilegt væri að spýta í byssuna í þeim efnum ætti ekki illa að fara.

Samgöngusáttmálinn var engum að óvörum staðfestur af borgarstjórn Reykjavíkur, en athygli vakti að sex manna borgarstjórnaflokki sjálfstæðismanna tókst að þríklofna í atkvæðagreiðslunni.

Skipulagsstofnun dró í efa að áform fyrirtækisins Qair um smíði rafeldsneytisverksmiðju á Grundartanga myndu ganga eftir á þeim hraða, sem það ætlaði sér. Þá er efað að nægileg raforka á viðunandi verði bjóðist í bráð.

Vonir eru bundnar við óvenjugóða norðurljósavertíð í ár, en reglubundin útgeislun sólar nær senn 11 ára hámarki.

Kristinn Már Stefánsson, landsliðsmaður og -þjálfari í körfubolta, dó 79 ára.

Skoðanakönnun Gallup sýndi að umræðu um hvort virkja eigi meira má heita lokið. 97% þeirra sem afstöðu tóku voru hlynnt aukinni grænni orkuframleiðslu. 36% töldu að á Íslandi ríkti orkuskortur.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra sagði rétt að skoða möguleika á að senda erlenda afbrotamenn í fangelsi á Íslandi til afplánunar erlendis.

Á Íslandi eru taldir starfa 8-12 skipulagðir erlendir glæpahópar, en einnig eru starfandi slíkir hópar innfæddra. Hér á landi er hins vegar nokkuð um blandaða hópa, sem yfirleitt er óalgengt í Evrópu.

Umhverfis- og orkumálaráðherra vill að virkjanamál verði loks sett í forgang og telur nauðsynlegt að leyfisveitingaferli taki ekki meira en eitt ár. Það getur nú teygst hátt í tvo áratugi.

Framleiðandi fréttaþáttarins Kveiks á Ríkisútvarpinu fékk stöðu sakbornings í símamálinu.

Eydís Líndal Finnbogadóttir var skipuð forstjóri Náttúrufræðistofnunar, Gestur Pétursson forstjóri Umhverfis- og orkustofnunar og Sigrún Ágústsdóttir forstjóri Náttúruverndarstofnunar.

Íslenska sjávarútvegssýningin var opnuð í Smáranum.

Benedikt Sveinsson, lögmaður og athafnamaður, dó 86 ára.

Pattaralegur hvítabjarnarhúnn sást á göngu um Höfðaströnd í Jökulfjörðum, en gerð var út sveit manna sem plaffaði hann niður.

Lögregla biðlaði til almennings um myndefni frá Krýsuvíkurvegi eða aðrar staðfestar upplýsingar, sem kæmu rannsókn á drápi tíu ára gamallar telpu að gagni.

Tveir menn voru handteknir grunaðir um mansal á tveimur unglingsstúlkum. Önnur þeirra reyndist þunguð en hin HIV-smituð.

Húseigendur í nágrenni Hafravatns eru ekki hrifnir af áformum Mosfellsbæjar um að hefja efnistöku úr Seljadalsnámu á ný.

Brynjar Níelsson lögmaður sagði sig frá varaþingmennsku fyrir Sjálfstæðisflokkinn.