Nokkur af spilunum Ginnungagap, Óðinn, hestarnir Árvakur og Alsvíður draga Sól í vagni, jötnamærin Skaði, Höður hinn blindi og bróðir hans Baldur.
Nokkur af spilunum Ginnungagap, Óðinn, hestarnir Árvakur og Alsvíður draga Sól í vagni, jötnamærin Skaði, Höður hinn blindi og bróðir hans Baldur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég hef verið að gera þetta meðfram öðru í heilan áratug, meðal annars aðlagað myndir úr öðrum verkefnum hugmyndum mínum í tengslum við tarotspilin. Mér finnst meiri háttar að vera loksins komin með þetta í hendurnar,“ segir Kristín Ragna…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ég hef verið að gera þetta meðfram öðru í heilan áratug, meðal annars aðlagað myndir úr öðrum verkefnum hugmyndum mínum í tengslum við tarotspilin. Mér finnst meiri háttar að vera loksins komin með þetta í hendurnar,“ segir Kristín Ragna Gunnarsdóttir, grafískur hönnuður, teiknari, bókmenntafræðingur og rithöfundur, en nýlega litu dagsins ljós Tarotspil norrænna goðsagna, sem hún hefur hannað og teiknað. Spilunum fylgir bók þar sem Kristín útskýrir tengingu hvers spils við goðsögurnar og segir hina norrænu sögu sem liggur að baki.

„Ég hef alla tíð verið mjög hrifin af spilum og ég leita uppi áhugaverða spilastokka á ferðum mínum um heiminn. Hluti af lokaverkefni mínu í Myndlista- og handíðaskólanum var óperuspil sem ég teiknaði, en þar voru mannspilin persónur úr hinum ýmsu óperum. Í gegnum tíðina hef ég rekist á nokkrar útgáfur af tarotspilum og ég áttaði mig á að sláandi líkindi eru á milli ákveðinna spila í tarotspilastokknum og norrænu goðsagnanna. Þá fékk ég þessa hugmynd, að gaman væri að leika sér með þetta, og ég hef unnið Völuspá í mörgum útgáfum með ýmsu móti, fyrir barnasýningar og allt mögulegt,“ segir Kristín og bætir við að tækifærið til að túlka Völuspá með tarotspilum hafi komið árið 2014 þegar henni bauðst að taka þátt í samsýningu í Seattle í Bandaríkjunum.

„Sýningin hét Auga Óðins og þá bjó ég til frumútgáfuna af spilunum mínum. Ég teiknaði aðeins 52 spil, en í tarotspilabunka eru spilin 79. Á þessum áratug sem liðinn er hef ég skoðað tarotspilin betur, lesið táknfræðina í þaula og nú hefur mér loks tekist að klára að gera öll spilin 79 og skrifa bókina sem þeim fylgir. Mér finnst frábært að miðla upplýsingum um goðsagnir með þessum hætti.“

Gríðarleg heimildavinna

Mikil vinna fólst í því að finna í goðsögunum eitthvað sem passaði við hvert einasta spil í tarotspilabunkanum. Til dæmis stendur tarotspilið átta í sverðum fyrir höft, innilokun, fjötra, ánauð, vanmáttarkennd og sjálfskapaðar kringumstæður, og valdi Kristín að hafa á því spili mynd af Loka. Þar er hann bundinn á þremur eggsteinum í helli og er eiturnaðra fyrir ofan hann. Hún segir í tarotbókinni alla söguna, hvers vegna Loki var bundinn og hvernig jarðskjálftar hljótast af umbrotum hans þegar eitrið drýpur á hann.

„Gríðarleg heimildavinna liggur að baki því að para saman spil, en mér fannst mjög gaman að láta þetta kallast á, að spegla venjuleg tarotspil í þessum goðsögnum. Ég var heillengi að para saman senur og atvik og fá góða tilfinningu fyrir þessu táknmáli tarotspilanna til að geta parað saman sögur, og á þann hátt að mér þætti það sannfærandi. Þegar fólk fer að nota spilin og leika sér með þau kemur smám saman þekking á heimi norrænna goðsagna og tilfinning fyrir spilunum,“ segir Kristín sem vísar mikið í Völuspá í spilunum, en þar eru líka sögur úr Snorra Eddu og úr Hávamálum.

„Á bak við hvert spil er mikil saga. Við mannfólkið höfum þörf fyrir að spegla okkur í sögum og við höfum gert það alla tíð. Mér finnst heillandi að við getum speglað okkar nútímalíf við þessar gömlu goðsögur. Goðsögur lifa einmitt vegna þess að fólk finnur þar einhverja samsvörun, við mannlegt eðli og fleira.“

Íslandsþráðurinn var sterkur

Kristín segir áhugann á norrænum goðsögum hafa vaknað snemma, þegar hún barn að aldri bjó í London og Kaliforníu þar sem foreldrar hennar voru í námi.

„Ísland í fjarska var fyrir vikið draumaeyja. Íslandsþráðurinn var sterkur og skipti mig miklu máli, í tengslum við sjálfsmyndina. Ég var lítill sendiherra Íslands í útlöndum og hafði strax mjög mikinn áhuga á goðsögum frá mismunandi svæðum í heiminum. Þegar ég flutti loks heim til Íslands og kynntist norrænum goðsögum almennilega, þá fannst mér ég vera komin heim, í þeim heimi. Ég fann mig líka sem listamann í heimi goðsagnanna. Þetta hefur fylgt mér alla tíð og ég hef notað þennan efnivið á alla mögulega vegu, ég er alltaf að finna nýjar leiðir til að leika mér með þetta og miðla þessu, enda finnst mér þetta svo bráðskemmtilegt,“ segir Kristín sem hefur m.a. notað goðsögurnar í barnabókaskrifum sínum og myndlýsingum fyrir aðra. Einnig á hún heiðurinn af því að hafa teiknað myndefni hins fræga Njálurefils sem er rúmlega 90 metra langur og nú fullsaumaður. Hún teiknaði líka Eyrbyggjasögurefil sem til stendur að sauma út.

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir