Garðabær og Almar Guðmundsson bæjarstjóri hafa undirritað viðauka við ráðningarsamning bæjarstjóra um orlofsmál. Samkvæmt honum verður bæjarstjóra heimilt að taka að hámarki með sér tíu ónýtta orlofsdaga yfir á næsta orlofsár.
Greint var fyrst frá málinu í frétt í Garðapóstinum þar sem fram kom að bæjarstjóri hafði sjálfur frumkvæði að breytingunni.
Viðaukinn við ráðningarsamning bæjarstjóra var samþykktur í bæjarráði Garðabæjar og lagður fram síðastliðinn fimmtudag á fundi bæjarstjórnar, þar sem hann var samþykktur án umræðu með öllum greiddum atkvæðum.
Samkvæmt upplýsingum sem fengust á bæjarskrifstofu Garðabæjar var ekki kveðið sérstaklega á um orlofsrétt í ráðningarsamningi sem gerður var við bæjarstjóra við upphaf núverandi kjörtímabils.
Með nýja viðaukanum er orlofsréttur bæjarstjóra skilgreindur sem 30 daga tímabil á ári. Ef bæjarstjóri nýtir sér ekki áunninn orlofsrétt sinn innan hvers orlofsárs er honum heimilt að færa orlofsdaga milli orlofsára ef verkefnastaða bæjarstjóra er með þeim hætti að hann geti ekki nýtt sér áunninn orlofsrétt að fullu.
„Við slíkar aðstæður er bæjarstjóra heimilt að taka með sér að hámarki 10 orlofsdaga yfir á næsta orlofsár,“ segir í svari Garðabæjar við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Sambærileg ákvæði um orlofsrétt í Kópavogi og Mosfellsbæ
Sambærileg ákvæði er að finna í ráðningarsamningum bæjarstjóra í fleiri sveitarfélögum. Í ráðningarsamningum bæði bæjarstjóra Mosfellsbæjar og bæjarstjóra Kópavogs segir að nýti bæjarstjóri ekki áunninn orlofsrétt innan hvers orlofsárs falli hann niður 30. apríl. Ef verkefnastaða bæjarstjóra komi í veg fyrir að hann geti nýtt rétt sinn að fullu sé bæjarstjórum í báðum sveitarfélögunum heimilt að taka með sér að hámarki tíu daga yfir á næsta orlofsár. omfr@mbl.is