Félagslega kerfið getur verið þunglamalegt. Álagið er mikið og færri komast að en vilja. Oft getur tíminn hins vegar skipt sköpum, hver dagur skipt máli.
Sigurþóra Bergsdóttir er vinnusálfræðingur sem árið 2018 stofnaði félagasamtök er nú nefnast Bergið Headspace. Þar er ungmennum boðið upp á úrræði við sínum vandamálum.
Sigurþóra missti son sinn fyrir átta árum. Í viðtali í sunnudagsblaði Morgunblaðsins lýsir hún því hvers vegna hún fór af stað með félagasamtökin: „Á þessu ári var umræðan svolítið svipuð og hún er núna í samfélaginu. Þá lést drengur úr ofneyslu og ég hafði sjálf upplifað úrræðaleysi með minn dreng, en hann lést árið 2016. Eftir andlát hans fór ég að skoða málin og stofnaði minningarsjóð. En ég sá að það vantaði stað sem gripi þessi ungmenni, en ungt fólk hafði þá engan einn stað til að leita á. Við erum búin að hólfa niður alla aðstoð,“ segir hún og útskýrir að ungmenni séu gjarnan send á marga ólíka staði með vandamál sín. „Ég upplifði það með strákinn minn að það vantaði stað þar sem hann gæti sest niður með einhverjum sem myndi horfa í augun á honum og spyrja hann hvað hann vantaði.“
Í viðtalinu kemur fram að nú komi um 100 ungmenni á aldrinum 12 til 25 ára í Bergið og tali við ráðgjafa. Sigurþóra segir
að oft þurfi ekki meira en þetta samtal og ráðgjöf til að hjálpa þeim sem leita til Bergsins. „Um áttatíu prósent af þeim sem hingað koma þurfa ekkert annað en að koma hingað, en svo er hinn hópurinn sem þarf aðeins meira. Þá hjálpum við þeim að verða tilbúin að halda áfram, til dæmis að fara í áfalla- eða kvíðameðferð, eða fíknimeðferð,“ segir hún.
Frumkvæði Sigurþóru er lofsvert. Fyrirmyndin að Berginu er fengin að utan. Nafnið Headspace á rætur að rekja til Ástralíu, en fyrirbærið hefur breiðst út, þar á meðal til Danmerkur. Stjórnvöld eiga heiður skilinn fyrir að hafa stutt við þessa hugmynd en nú vantar þó fé í reksturinn.
Mikil angist ríkir í samfélaginu um þessar mundir og nægir þar að nefna vopnaburð ungmenna. Það þarf að bregðast við þessum vanda hratt og fumlaust. Þar má aftur vitna í Sigurþóru: „Við eigum að styrkja skólana og foreldrana án þess að það þurfi að kalla til nefndir. Það eru allir óöruggir. Þetta er ekkert svona rosalega flókið en við þurfum að styrkja hvert annað og ákveða að við séum saman í þessu.“