Laugardalsvöllur Guðlaugur Victor Pálsson er lykilmaður í íslenska landsliðinu en alls á hann að baki 45 A-landsleiki og tvö mörk frá árinu 2014.
Laugardalsvöllur Guðlaugur Victor Pálsson er lykilmaður í íslenska landsliðinu en alls á hann að baki 45 A-landsleiki og tvö mörk frá árinu 2014. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Knattspyrnumaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson er fluttur aftur til Englands eftir þrettán ára fjarveru, en hann skrifaði undir tveggja ára samning við B-deildarfélagið Plymouth Argyle í sumar. Guðlaugur Victor, sem er 33 ára gamall, kom til félagsins …

England

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Knattspyrnumaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson er fluttur aftur til Englands eftir þrettán ára fjarveru, en hann skrifaði undir tveggja ára samning við B-deildarfélagið Plymouth Argyle í sumar.

Guðlaugur Victor, sem er 33 ára gamall, kom til félagsins eftir eitt ár í herbúðum Eupen í Belgíu, en félagið féll úr efstu deild síðasta vor.

Varnarmaðurinn hefur komið víða við á ferlinum, en hann hóf atvinnumannaferilinn ungur að árum þegar hann gekk til liðs við AGF í Danmörku árið 2007, þá nýorðinn 16 ára gamall.

Á ferlinum hefur hann einnig leikið með vara- og unglingaliði Liverpool á Englandi, Dagenham á Englandi, Hibernian í Skotlandi, New York Red Bulls og DC United í Bandaríkjunum, NEC Nijmegen í Hollandi, Helsingborg í Svíþjóð, Esbjerg í Danmörku, Zürich í Sviss og Darmstadt og Schalke í Þýskalandi.

Þá á hann að baki 45 A-landsleiki fyrir Ísland, þar sem hann hefur skorað tvö mörk, en hann hefur verið lykilmaður í landsliðinu undanfarin ár.

Missti af undirbúningnum

„Þetta var ekki alveg byrjunin sem ég óskaði mér og þessar fyrstu vikur hjá félaginu hafa verið ákveðin áskorun,“ sagði Guðlaugur Victor í samtali við Morgunblaðið.

„Ég kom til félagsins í lok júlímánaðar og næ í raun ekki almennilegu undirbúningstímabili með liðinu. Ég var að glíma við meiðsli á hné undir lok tímabilsins í Belgíu og æfði þá bara einn með þjálfara hjá Eupen, ekki með liðinu. Ég var ekkert að spila heldur og staðreyndin er sú að þegar þú ert kominn á ákveðinn aldur verður undirbúningstímabilið alltaf mikilvægara og mikilvægara.

Ég spilaði tvo æfingaleiki rétt áður en tímabilið hófst, þannig að ég fer úr því að hafa ekkert verið að spila í að spila tvo leiki þarna með stuttu millibili. Að einhverju leyti get ég sjálfum mér um kennt því ég kann einfaldlega ekki að segja nei. Ég fer úr 0 upp í 100 á mjög stuttum tíma og af því leiðir að ég togna aftan í læri strax í fyrsta leik tímabilsins, þann 10. ágúst. Líkaminn var einfaldlega ekki klár í þessi átök og ég er aðeins að súpa seyðið af því núna,“ sagði Guðlaugur Victor, en Plymouth situr í 16. sæti B-deildarinnar af 24 liðum eftir fyrstu fimm umferðirnar.

Vill sanna sig og sýna

Guðlaugur Victor hefur verið ónotaður varamaður í síðustu tveimur deildarleikjum liðsins.

„Ég vil auðvitað sanna mig og sýna hjá nýju félagi þannig að fótboltalega séð hefur þetta verið smá bras skulum við segja. Þegar þú meiðist, eða ferð í leikbann, kemur alltaf maður í manns stað og leikmaðurinn sem hefur leyst mig af hólmi hefur verið besti leikmaður liðsins á tímabilinu. Fram undan er því þolinmæðisvinna hjá mér og ég þarf fyrst og fremst að leggja hart að mér á æfingasvæðinu og vona svo að það skili mér einhverju.

Þetta er flott félag og það er mikil samkeppni um stöður innan liðsins. Ég þarf því bara að setja hausinn undir mig og bíða eftir tækifærinu sem kemur vonandi fljótlega. Utan vallar líður mér virkilega vel og ég er búinn að koma mér vel fyrir hérna í Plymouth. Þetta er virkilega fín borg og mér líkar lífið vel hérna. Núna þarf ég bara að byrja að spila fótbolta og þá smellur þetta allt saman.“

Draumur að rætast

Af hverju ákvað Guðlaugur Victor að ganga til liðs við Plymouth til að byrja með?

„Ég tók þessa ákvörðun fyrst og fremst með fótboltann í fyrsta sæti. Ég var ekkert sérstaklega spenntur fyrir því að spila í belgísku B-deildinni og ég var tilbúinn að horfa í kringum mig eftir að Eupen féll. Ég var á góðum samningi þarna og ég átti gott tímabil, sem er kannski skrítið að segja þegar liðið þitt fellur, en það er samt staðreyndin. Ég er enn með mikinn metnað fyrir fótboltanum og ég var tilbúinn að taka á mig launalækkun til þess að komast í sterkari deild, sem ég og gerði.

Það hefur lengi verið draumur hjá mér að spila á Englandi í B-deildinni og nú er ákveðinn draumur að rætast. Fótboltinn hefur breyst mjög hratt og eftirspurnin eftir leikmönnum sem eru komnir yfir þrítugt fer minnkandi. Ég er því mjög þakklátur fyrir þetta tækifæri og ég ætla mér að nýta það eins og best verður á kosið. Ég er líka þakklátur forráðamönnum Eupen, sem hleyptu mér frítt frá félaginu, og það liðkaði mikið fyrir þessum skiptum.“

Rooney veit hvað hann fær

Wayne Rooney, fyrrverandi fyrirliði Manchester United og enska landsliðsins, er knattspyrnustjóri Plymouth en hann og Guðlaugur Victor þekkjast vel eftir að hafa unnið saman hjá DC United í Bandaríkjunum.

„Rooney er stór ástæða þess að ég ákvað að ganga til liðs við félagið til að byrja með. Hann lagði mikla áherslu á það að fá mig til Englands en til að byrja með var ég ekki alveg leikmaðurinn sem forráðamenn félagsins voru endilega að leita eftir. Ég ræddi við yfirmann knattspyrnumála og yfirnjósnara félagsins og sá fundur gekk mjög vel. Eftir það var mikill vilji innan félagsins að fá mig en þetta hefði aldrei gengið upp ef Rooney væri ekki að þjálfa hérna.

Okkur hefur alltaf komið vel saman og hann veit upp á hár hvernig leikmaður ég er og fyrir hvað ég stend. Hann veit hvað hann fær frá mér og ég er líka ágætlega fjölhæfur, sem er oft mjög þægilegt fyrir þjálfara. Ég er með hausinn rétt skrúfaðan á og með rétta hugarfarið. Ég tek að mér leiðtogahlutverk í þeim liðum sem ég spila fyrir, innan sem utan vallar, og svo var hann líka að sækja í þá reynslu sem ég bý yfir.“

Langar að spila á Íslandi

Eins og áður sagði er Guðlaugur Victor orðinn 33 ára gamall og því liggur beinast við að spyrja hvort hann eigi mörg ár eftir í atvinnumennskunni.

„Mér líður vel í líkamanum í dag og ég er á góðum stað andlega líka. Þetta snýst auðvitað um fótboltann og ef ég spila fótbolta reglulega sé ég ekki af hverju ég ætti ekki að eiga nokkur góð ár eftir í atvinnumennskunni. Ég skrifaði undir tveggja ára samning hérna en ég geri mér líka grein fyrir því að þetta er mjög erfið deild, sérstaklega líkamlega séð, enda margir leikir og mörg lið í deildinni.

Þetta er ekki einhver gömlukarladeild, þú þarft að vera í mjög góðu líkamlegu standi til þess að spila hérna. Ég hef samt aldrei farið leynt með það að mig langar að koma til Íslands á einhverjum tímapunkti og ljúka ferlinum heima. Hvort það verður eitthvað úr því kemur svo bara í ljós. Ég er allavega mjög opinn fyrir því en það þarf líka að hlusta á líkamann og stundum segir hann stopp.

Vantar meiri stöðugleika

Guðlaugur Victor er einn reyndasti leikmaðurinn í íslenska landsliðinu í dag og hefur hann mikla trú á hópnum.

„Leikmannahópurinn er frábær í dag og blandan er mjög góð. Landsliðsverkefnin eru skemmtilegustu verkefnin sem maður tekur þátt í. Að mörgu leyti er ég sammála því sem sumir hafa sagt, að við höfum allt til þess að fara á stórmót en við verðum að ná upp meiri stöðugleika. Okkur hefur ekki enn tekist að spila tvo góða leiki í sama landsleikjaglugganum og við verðum að bæta úr því. Það var samt mjög margt jákvætt í síðasta glugga og Sölvi Geir Ottesen kom frábærlega inn í þetta, bæði innan og utan vallar.

Það eru ákveðnir hlutir sem við þurfum að skerpa á, bæði sóknar- og varnarlega. Sóknarlega þurfum við að vera miklu skilvirkari þegar við komumst í góðar stöður og það þarf að vera eitthvert plan í gangi. Það þarf allt að vera kýrskýrt gegn þessum bestu landsliðum heims. Varnarlega líka, við fáum á okkur allt of mikið af skítamörkum. Það þarf að koma öllum á sömu blaðsíðuna innan liðsins og þá getum við farið að tala um stórmót því ég tel þetta lið eiga fullt erindi þangað, en þá þarf líka allt að vera upp á tíu,“ bætti Guðlaugur Victor við í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Bjarni Helgason