Stella Jónsdóttir (síðar Stella Jónsdóttir Miller) fæddist í Reykjavík 21. september 1924 og lést 16. september 1995 á heimili sínu í Hafnarfirði. Hún ólst upp að Þórsgötu 12 og á Lindargötunni í Miðbæ Reykjavíkur.

Foreldrar hennar voru Jón Kristján Guðmundur Kristjánsson kyndari, f. á Búðum á Snæfellsnesi 6. júní 1893, fórst með e.s. Goðafossi 10. nóvember 1944, og Sólveig Jónsdóttir verkakona frá Viðvíkursveit í Skagafirði, f. 1898, d. 1981. Systkini Stellu: Sigrún, f. 1925, d. 2021, Kristján Hans, f. 1927, d. 2007, og Úlla, f. 1928, d. 2006.

Stella lauk verslunarskólaprófi árið 1945 og hélt fljótt að því námi loknu til New York í Bandaríkjunum til að hefja snyrtifræðinám. Hún bjó um tíma í Alaska og Hawaii en settist síðar að í Seattle í Washington ríki í Bandaríkjunum og bjó þar til æviloka. Hún starfaði við iðngrein sína á Olympic-hótelinu í Seattle og var heiðruð fyrir áratuga starf sitt við starfslok. Íslendingasamfélagið var sterkt í Seattle og héldu íslensku fjölskyldurnar ætíð mikið saman. Stella virk í starfi Íslendingafélagsins í Seattle til margra ára og var hún fjallkonan á þjóðhátíðardegi Íslendinga. Stellu og Frank eiginmanni hennar varð ekki barna auði en hún naut þess að fá fimm bræðrabörn sín í heimsókn til lengri eða skemmri tíma.

Stella kom heim til Íslands síðasta sumarið sem hún lifði, þá fárveik af krabbameini. Bróðir hennar og fjölskylda hans önnuðust Stellu í veikindunum og veittu henni þann möguleika að deyja heima á Íslandi á heimili sínu í Hafnarfirði.

Til að heiðra aldarminningu Stellu munu bræðrabörn hennar og makar þeirra halda til Seattle á vordögum til að rifja upp dýrmætar minningar sem Stella gaf þeim.

Blessuð sé minning Stellu Jónsdóttur.

Sigríður Kristjánsdóttir.