Fyrsta sjúkraflugið eftir endurbætur á Blönduósflugvelli var í gær þegar vél frá Norlandair sótti sjúkling til að senda suður til Reykjavíkur.
Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu réðst Isavia í endurbætur á vellinum og hlaði hans fyrr í sumar. Verktaki var fenginn til að skipta alfarið um undirlag og slitlag vallarins.
Kristmundur Valberg, einkaflugmaður á Blönduósi, segir sjúkraflugið hafa gengið vel í gær og flugmenn Norlandair haft á orði að þetta væri algjör bylting. Framkvæmdum á vellinum lauk nýverið og síðan þá hafa einkaflugmenn farið nokkrum sinnum í loftið á vélum sínum. Næsta vor verður lokahönd lögð á verkið með einni klæðingu í viðbót.