Baddý Sonja Breidert
Baddý Sonja Breidert
Opinn hugbúnaður eykur sparnað, öryggi og sveigjanleika fyrir ríki og stofnanir, með minni kostnaði, gagnsæi og auknu nýsköpunarfrelsi án leyfisgjalda.

Baddý Sonja Breidert

Hið opinbera er fjármagnað með skattfé og því er afar mikilvægt að ráðstafa fjármunum á sem bestan og skilvirkastan hátt. Mikill hluti af rekstri upplýsingakerfa fer í hugbúnaðarleyfi, áskriftir og tækjabúnað en oft skortir gagnsæi varðandi möguleika til sparnaðar í innkaupum. Ríkið hefur, eins og mörg önnur lönd, innleitt stefnu um að nota opinn hugbúnað, sem getur dregið verulega úr kostnaði þannig að skattfé borgaranna nýtist betur.

Opinn hugbúnaður er í örum vexti hjá ríkisstofnunum um allan heim og nýtur mikilla vinsælda t.d. í Bandaríkjunum, Ástralíu, Bretlandi, Frakklandi og fleiri löndum. Opinn hugbúnaður er raunhæfur kostur við val á lausnum í upplýsingatækni.

En hvað er opinn hugbúnaður?

Opinn hugbúnaður (e. open source software) er hugbúnaður sem byggir á frumkóða (e. source code) sem höfundar hafa opinn og aðgengilegan öllum. Opinn hugbúnaður er því aðgengilegur fyrir alla sem vilja nota hann, auk þess sem leyfilegt er að afrita, breyta og bæta án kostnaðar. Milljónir notenda og stofnana geta nýtt sér breytingar og endurbætur sem sérfræðingarnir leggja til eða lagt til sínar eigin.

Það sem einkennir opinn hugbúnað er að hópur sérfræðinga frá öllum heimshornum sér um nýþróun og stöðugt viðhald og tryggir að öryggis sé gætt til hins ýtrasta. Einn af lykilþáttum opins hugbúnaðar er gagnsæi. Allar ákvarðanir og endurbætur eru gerðar opinberar og aðgengilegar þannig að allir geti fylgst með og lagt sitt af mörkum. Það er því ekki einn aðili sem ræður yfir hugbúnaðinum heldur hópur sérfræðinga með sameiginlegri ábyrgð og samvinnu.

Í dag eru mörg stór og öflug kerfi í heiminum sem hjálpast að við að þróa opinn hugbúnað; t.d. Drupal, Wordpress, Joomla og Strapi.

Það sem greinir opinn hugbúnað frá séreignarhugbúnaði (e. proprietary software) eins og til dæmis Microsoft, Contentful, Adobe, Salesforce, Prismic og Sitecore er að það þarf hvorki að greiða fyrir afnot né leyfisgjöld. Frumkóðinn er allur aðgengilegur og hægt er að nota hann án takmarkana.

Af hverju ættu stjórnvöld að velja opinn hugbúnað?

Eykur aðgengi að nýsköpun og nýjustu tækni

Ótakmörkuð heimild við að afrita kóða, breyta og bæta

Gagnsæi og aðgangur að öllum frumkóða tryggir að allur forritunarkóði sé þín eign

Frelsi og sveigjanleiki til að sérsníða hugbúnað að þínu þörfum.

Festast ekki inni (e. vendor lock-in) með séreignarhugbúnað þar sem eigendur stjórna verðinu, uppfærslum og þróun

Reglulegar öryggisuppfærslur, endurbætur og nýþróun

Fullur aðgangur að þínum gögnum

Engin hætta á að fyrirtæki hætti að styðja við séreignarhugbúnað

Stærsti kostur þess er þó að opinn hugbúnaður er frír og án allra áskriftar- og leyfisgjalda.

Hver er almannahagur af opnum hugbúnaði?

Opinn hugbúnaður er almannahagur vegna þess að hann eykur aðgengi að tækni, eykur öryggi, stuðlar að meira frelsi og getur sparað umtalsverða fjármuni. Hann stuðlar einnig að nýsköpun sem nýtist öllum, allt frá einstaklingum og fyrirtækjum til opinberra stofnana.

Dregur úr sóun á opinberu fé, þar sem það eru engin áskriftar- og leyfisgjöld

Veitir sveigjanleika og möguleika á að þróa lausnir innanlands og halda kostnaði inni í íslenska hagkerfinu

Leiðir til fjölbreyttari lausna sem gagnast öllum notendum og brugðist er hratt við öryggisbrestum

Stuðlar að þekkingar- og nýsköpun sem eykur tækifæri til menntunar

Langtíma sjálfbærni

Um síðustu aldamót höfðu mörg íslensk hugbúnaðarfyrirtæki búið til sín eigin vefumsjónarkerfi. Mörg þessara fyrirtækja hafa hætt þróun á þessum hugbúnaði og þurfa því fyrirtæki og stofnanir að bregðast hratt við til að tryggja áframhaldandi öryggi. Sú vinna getur verið gríðarlega kostnaðarsöm og tímafrek.

Val á opnum hugbúnaði er skynsamleg ákvörðun þegar litið er til góðrar nýtingar á almannafé. Opinn hugbúnaður býður upp á kostnaðarhagræðingu, aukið öryggi, sveigjanleika og sjálfstæði ásamt því að stuðla að nýsköpun og að fylgja nýjustu tækni.

Ég tel að ríkisfyrirtæki, sveitarfélög og fyrirtæki almennt geti sparað verulega fjármuni með því að nýta opinn hugbúnað í stað þess að greiða háar fjárhæðir í séreignarhugbúnað. Það stuðlar að betri nýtingu á skattfé þjóðarinnar, sem gæti þannig verið betur varið í önnur samfélagsleg verkefni.

Höfundur er stofnandi og framkvæmdastjóri 1xINTERNET og situr í stjórn Drupal Association Inc.

Höf.: Baddý Sonja Breidert