Þórður Þorgilsson bóndi fæddist 11. desember 1939. Hann lést 29. ágúst 2024 á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki.

Foreldrar hans voru Þorgils Þórðarson, f. 21. apríl 1903, d. 28. janúar 1988, og Hólmfríður Kristjana Björnsdóttir, f. 5. september 1899, d. 1. apríl 1985.

Þórður var einkabarn og ólst upp hjá foreldrum sínum á Stafshóli í Deildardal, Skagafirði.

Hann gekk í barnaskólann í Hlíðarhúsinu og síðar í Bændaskólann á Hólum.

Þórður bjó og starfaði alla sína tíð sem bóndi á Stafshóli.

Útför hans fer fram frá Hofsóskirkju í dag, 21. september 2024, klukkan 14.

Þórður á Stafnshóli var um margt merkilegur maður. Ég kynntist Þórði sem barn í gegnum vinskap hans og foreldra minna. Hann bjó alla tíð á Stafnshóli í Deildardal og við á Grindum í Deildardal sem stendur gegnt Stafnshóli handan við ána, sem rennur niður dalinn. Seinna tók ég, ásamt konu minni, við á Grindum og hafði áfram góðan vinskap og nágrenni við Þórð. Á unglingsárum mínum fór ég oft til Þórðar og hjálpaði honum í heyskap en hann hafði þann háttinn á að heyja ýmist í laust hey eða smábagga. Stundum lá mikið við að koma heyjum inn í hlöðu og vildi ég þá gjarnan fara til hans og hjálpa honum. Hann kunni alltaf vel að meta aðstoðina. Hann vildi líka borga mér fyrir aðstoðina en það skipti hann líka máli að ég myndi nota peninginn til þess að kaupa mér bækur, sem nýttust mér í námi, en ég var þá nemandi við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og var á húsasmíðabraut. Oft spurði hann mig líka hvernig gengi í skólanum, spurning sem hann bar upp löngu seinna við elstu dóttur mína líka þegar hún var í grunnskóla. Hann kunni að meta nám og átti eftir því sem ég best veit ákaflega gott með nám sjálfur. Hann fór sjálfur í Bændaskólanum á Hólum á yngri árum og hefði auðveldlega getað haldið áfram skólagöngu, en örlög hans urðu önnur. Fyrir nokkrum árum spurði ég Þórð um það hvað hann héldi að hann myndi gera í dag ef hann væri ungur maður. Hann útilokaði ekki að hann myndi vilja verða bóndi, var alltaf sáttur við það, en sagði mér líka að hann hefði viljað læra meira. Minnið var gott og hann gat sagt vel frá og hann minntist æsku sinnar alltaf glaður, þó hann hafi örugglega oft þurft að vinna mikið þá var hann alltaf sáttur og glaður með sitt uppeldi, ég gat ekki skilið annað. Eftir að foreldrar Þórðar létust bjó hann alltaf einn. Hann vildi hvergi annars staðar vera en á Stafnshóli, en það er líka alveg öruggt frá mér séð að hann hefði gert eitthvað annað ef hann hefði viljað, hann ákvað og stjórnaði sínu lífi og lét ekki aðra hafa áhrif á sína sýn eða ákvarðanir. Trúr sér og sínu, sem er reyndar til eftirbreytni. Hann var fastheldinn á sitt, vanafastur og sparsamur. Mörg gullkorn komu líka frá honum og hann var orðheppinn. Fróður um marga hluti og fylgdist vel með. Vel lesinn og vel gefinn maður.

Það var hægt að tala við Þórð um alla hluti og hann hafði skoðanir á flestu, hvort sem það var landbúnaðartengt, pólitík eða annað.

Ég mun alltaf hugsa hlýlega til Þórðar á Stafnshóli og ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst honum og fyrir vináttu okkar. Ennþá þakklátari er ég fyrir að börnin mín hafi fengið að kynnast honum.

Ég kveð kæran sveitunga, vin og nágranna. Takk fyrir kynnin Þórður.

Rúnar Páll Hreinsson og fjölskylda,
Grindum Deildardal.