Gestir Josie Schneider og Evan Fox reka þekkta beygluvagna í LA en reiða fram beyglur á Deigi um helgina. Þau eru hæstánægð með samstarfið hér.
Gestir Josie Schneider og Evan Fox reka þekkta beygluvagna í LA en reiða fram beyglur á Deigi um helgina. Þau eru hæstánægð með samstarfið hér. — Morgunblaðið/Karítas
Það er skammt stórra högga á milli hjá systurstöðunum Deigi og Le Kock í Tryggvagötu. Á dögunum kom hinn þekkti hamborgarasérfræðingur George Motz í heimsókn á Le Kock og eldaði sinn frægasta hamborgara eina kvöldstund

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Það er skammt stórra högga á milli hjá systurstöðunum Deigi og Le Kock í Tryggvagötu. Á dögunum kom hinn þekkti hamborgarasérfræðingur George Motz í heimsókn á Le Kock og eldaði sinn frægasta hamborgara eina kvöldstund. Nú um helgina mæta hingað tveir af helstu sérfræðingum Kaliforníuríkis í beyglugerð og gefst gestum Deigs kostur á að smakka á hinum víðfrægu samlokum þeirra.

Evan Fox, stofnandi og eigandi Yeastie Boys Bagels í Los Angeles, er hingað kominn ásamt samstarfsmanni sínum Josie Schneider. Yeastie Boys rekur fjölda beygluvagna í Los Angeles og hefur hróður þeirra borist víða. Svo rómaðar eru beyglurnar að fyrirtækið var kvatt til samstarfs við risana Pizza Hut og Taco Bell. Heimsóknin hingað og samstarfið við Deig er það fyrsta utan landsteinanna.

„Já, fyrir utan samstarfið við Pizza Hut í New York er þetta eina samstarfið sem við höfum farið út í fyrir utan Los Angeles. Og það fyrsta utan Bandaríkjanna. Þetta er því alveg sérstakt fyrir okkur. Við erum þakklát fyrir að vera hér,“ segir Fox.

Samstarf í Los Angeles?

Hann segir vinkonu sína hafa tengt þau við Markús Inga Guðnason og samstarfsmenn á Deigi. Umrædd vinkona er Lily Rosenthal sem kom hingað til lands ásamt föður sínum, hinum þekkta Phil Rosenthal, við tökur á Netflix-þætti hans Somebody Feed Phil. „Lily hitti Markús og þau fóru að tala um Los Angeles og Yeastie Boys barst í tal. Markús sagði Lily að hann væri aðdáandi og hefði fengið innblástur úr verkum okkar. Lily tengdi okkur í gegnum WhatsApp og við náðum strax vel saman. Markús er þegar orðinn góður vinur og ég er spenntur fyrir að sýna honum LA þegar hann kemur í heimsókn. Vonandi getum við gert Deig-samstarf í LA.“

Deig hefur notið mikilla vinsælda í miðbænum síðustu ár en þar hefur fólk getað gengið að frábærum beyglum og kleinuhringjum. Evan segir við Morgunblaðið að nú um helgina fái fólk Deig-stemninguna en með Yeastie Boys-áherslum. „Bakaríið þeirra er ótrúlegt. Við tókum svo með eitt og annað sem ég held að fólk muni fíla.“

Hann segir að Markús og félagar hafi fengið uppskrift Yeastie Boys að cheddar jalapeño-rjómaosti, schmutz-sósu (hvítlauks-aioli) og að reyktum hvítum fiski. „Sumar hugmyndir sem Markús og hans fólk komu með gerðu þær jafnvel enn betri. Þetta er því þegar orðið frábært samstarf,“ segir hann. Beyglumeistararnir opna dyrnar klukkan sjö að morgni laugardags og sunnudags og eru að þar til allt hefur selst upp.

Þegar Evan er beðinn að nefna það sem er mest spennandi á matseðlinum nefnir hann þeirra eigið pastrami sem flutt var inn frá Los Angeles. „Við erum með sérframleitt Yeastie Boys-pastrami sem við reykjum í 30 klukkutíma og er lagt í sérgerðan pækil og með sérstökum kryddum.“

Eva og Josie komu til landsins í vikunni og hafa samhliða undirbúningnum skoðað sig um í Reykjavík og nágrenni. Þau fóru til að mynda í Bláa lónið og fleira er á dagskránni. „Bláa lónið var afar fallegt, einstök upplifun. Ísland er ótrúlegur staður.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon