Hvítabjörn Komið er í ljós að um var að ræða 164 sentimetra, vetrargamla birnu en sýni voru tekin úr hræinu í gær.
Hvítabjörn Komið er í ljós að um var að ræða 164 sentimetra, vetrargamla birnu en sýni voru tekin úr hræinu í gær. — Morgunblaðið/Eyþór
Hvítabjörninn sem var aflífaður á Höfðaströnd í Jökulfjörðum á fimmtudag var 164 sentimetra birna, að öllum líkindum vetrargömul. Þetta segir Þorvaldur Þór Björnsson, hamskeri hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, í samtali við Morgunblaðið

Elínborg Una Einarsdóttir

elinborg@mbl.is

Hvítabjörninn sem var aflífaður á Höfðaströnd í Jökulfjörðum á fimmtudag var 164 sentimetra birna, að öllum líkindum vetrargömul. Þetta segir Þorvaldur Þór Björnsson, hamskeri hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, í samtali við Morgunblaðið.

Nú er beðið niðurstöðu úr sýnatöku sem framkvæmd var á hræinu en hún mun leiða í ljós hvort hræið sé sýkt og hvort nota þurfi sérstakan útbúnað við meðhöndlun á því. Ekki verður meira aðhafst í málinu fyrr en það er komið í ljós.

Birnan hefur að líkindum komið til landsins á borgarísjaka en nokkuð hefur verið um slíka við Vestfirði undanfarið eins og sjá má á meðfylgjandi korti.

„Það voru borgarísjakar bæði djúpt vestur af Vestfjörðum og síðan aðrir komnir inn í Húnaflóa austur af Vestfjörðum og það var töluvert um borgarís á þessum slóðum,“ sagði Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við mbl.is en strax á fimmtudag voru farnar tvær eftirlitsferðir til að ganga úr skugga um að ekki væru fleiri birnir nærri landi.