Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Alls eru 77% félagsmanna Samtaka atvinnulífsins sammála eða frekar sammála spá Landsnets um yfirvofandi orkuskort í landinu, en um fimmtungur er því ósammála eða frekar ósammála. 68% þeirra töldu hins vegar orkuskort ríkja í landinu nú þegar.
Þetta er niðurstaða könnunar sem Gallup gerði fyrir SA og kynnt var á ársfundi samtakanna sem haldinn var fyrr í vikunni. Úrtakið náði til 1.754 félagsmanna, 414 tóku þátt í könnuninni og var svarhlutfall því 23,6%.
Meirihlutinn telur sig vel upplýstan um orkumál
Í könnuninni var spurt hvort félagsmenn væru sammála eða ósammála þeirri fullyrðingu að orkuskortur væri nú þegar ríkjandi á Íslandi og voru sem fyrr segir 68% þeirra sammála því, en 18% ósammála. 14% aðspurðra voru hvorki sammála né ósammála þeirri fullyrðingu. Þá taldi 61% svarenda sig vel eða mjög vel upplýst um stöðu orkumála í landinu, en einungis 13% kváðu svo ekki vera.
Alls var 91% félagsmanna SA hlynnt aukinni grænni orkuframleiðslu í landinu, en þegar spurt var af hverju þeir teldu það mikilvægt, sögðu 75% þeirra að svo væri til að tryggja tækifæri til verðmætasköpunar, 70% til að halda orkuverði lágu, 65% til að draga úr innflutningi jarðefnaeldsneytis, 59% til að stuðla að orkuskiptum, en 52% til að draga úr losun koldíoxíðs.
Þegar vikið var að loftslagsvandamálum töldu 89,6% þátttakenda að þau væru hnattræn en ekki staðbundin og þá voru 86,6% þeirrar skoðunar að losun gróðurhúsalofttegunda væri minni á Íslandi en erlendis við framleiðslu sambærilegra vara. Um tveir þriðju aðspurðra kváðust reiðubúnir til að greiða heldur hærra verð fyrir umhverfisvænar vörur og sama hlutfall var þeirrar skoðunar að nýta ætti allar auðlindir á Íslandi meðan mögulegt væri. Um þriðjungur var þeirrar skoðunar að friða ætti meira land en nú er gert og rösklega þriðjungur sagðist sáttur við að skattar og gjöld hækkuðu í þágu umhverfisverndar.
Kolefnishlutleysi skiptir máli
Í könnuninni var spurt hversu miklu eða litlu máli það skipti að Ísland næði kolefnishlutleysi. Niðurstaðan var sú að 53% aðspurðra töldu það skipta miklu eða frekar miklu máli, 28% töldu það litlu eða mjög litlu skipta, en 19% voru beggja blands.
Ríflega fjórðungur þátttakenda taldi æskilegt að Ísland næði kolefnishlutleysi árið 2030, þriðjungur nefndi 2040 en aðrir síðar. Þegar spurt var um viðhorf til þess markmiðs Íslands að ná kolefnishlutleysi árið 2040, lýsti nær helmingur yfir jákvæðu viðhorfi sínu til þess, 30% voru neikvæð en 31% hvorki né. Þá kváðust tveir þriðju aðspurðra áhyggjufullir yfir hlýnun jarðar, en þriðjungur hafði litlar sem engar áhyggjur af henni.
Í könnuninni var vikið að því markmiði Íslands að ná 55% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 í samfloti við Noreg og Evrópusambandið og þátttakendur spurðir um viðhorf sitt til þess. Niðurstaðan var sú að 46% þeirra höfðu jákvætt eða frekar jákvætt viðhorf til þess, 33% voru frekar eða mjög neikvæð, en 21% var hvorki jákvætt né neikvætt.
Spurningu um hvort viðkomandi hefði breytt hegðun sinni á síðustu 12 mánuðum til að lágmarka áhrif sín á umhverfi og loftslagsbreytingar, svaraði meira en helmingur því játandi en 45% kváðust engu hafa breytt. Þegar spurt var um fyrirtæki viðkomandi í þessu samhengi voru hlutföllin áþekk.