Í Listasafni Árnesinga í Hveragerði eru fjórar afar áhugaverðar sýningar.
Í sal 1 er ný innsetning eftir Sigurð Guðjónsson, Hljóðróf. Verkið var sérstaklega unnið fyrir sýningarsalinn og hefur verið í vinnslu þetta árið. Í sýningartexta segir að í verkinu sé „varpað fram spurningum um yfirborð og mynd, um hlut, efni, hreyfingu og skynjun“.
„Verkið er eins konar fjölskynjunarskúlptúr sem er á gólfinu þannig að áhorfendur geta gengið í kringum hann og upplifað verkið frá ýmsum sjónarhornum og skynjað ólíka fókuspunkta í verkinu, tíma og takt,“ segir Sigurður.
Titill verksins Hljóðróf hefur marglaga merkingu. „Auk hljóðsins vísar titillinn í sjónræna þáttinn. Ég sæki myndefnið í forna gataplötu sem felur í sér umskrift á tónum í efni en þessar plötur voru upphaflega notaðar í tónlistarkössum í kringum 1900. Þessum myndheimi sem lýsa mætti sem örlandslagi er síðan varpað yfir samsettan strúktúr sem er smíðaður úr 60 spíralrörum og raðast á lengdina í salnum. Lárétt hreyfing verksins býr til eins konar sjónblekkingu þannig að maður skynjar hreyfingu á rörunum en á sama tíma eru þau stöðug. Það mætti einnig horfa á verkið sem órætt hljóðfæri með virkni, en á sama tíma eitthvað allt annað. Það er þessi núningur og umbreyting sem ég heillast alltaf af.“
Bæði innsetningin og sýningarrýmið eru mikilvægir þættir í verki Sigurðar og hafa áhrif á merkingu og virkni verksins. „Hugsunin er að bjóða áhorfandanum upp á fagurfræðilega upplifun sem vonandi virkjar ólík skilningarvit og birtir mismunandi sjónarhorn í þessari sameiginlegu skynjun sjónar og heyrnar. Það er alltaf ákveðin frásögn tengd hverju sýningarrými og það reyni ég að nota sem hluta af innsetningunni þar sem mynd, hljóð og rými mynda órofa heild og mér finnst alltaf spennandi að sjá hvernig verkið sjálft getur virkjað sýningarrýmið og öfugt. Uppbygging og flæði sýningarrýmisins hefur einnig áhrif á hvernig áhorfendur hreyfa sig og skynja og taka þátt í verkunum sem oft krefjast íhugunar og einbeitingar. Heildarupplifunin í rýminu skapar vonandi tækifæri fyrir ákveðna hvíld frá því sem á sér stað fyrir utan á meðan áhorfendur upplifa og skynja verkið og leyfa því að hafa áhrif á sig.“
Sigurður var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum fyrir tveimur árum og verkið Ævarandi hreyfing vakti þar mikla athygli og var valið eitt af fimm áhugaverðustu verkum Feneyjatvíæringsins á lista hjá Financial Times. Fyrir tveimur vikum opnaði Sigurður stóra einkasýningu í Francisco Carolinum-safninu í Linz. Sýningin þar sem ber titilinn Scope of Inner Transit samanstendur af fjórum stórum innsetningum og þar á meðal er Feneyjaverkið Ævarandi hreyfing. Þann 1. október verður verkið sýnt í Kína á Wuhan-tvíæringnum 2024 sem haldinn verður í Qintai-listasafninu í Wuhan.
Í sal 2 er einkasýning Þórdísar Jóhannesdóttur Millibil, þar sem hún sýnir ný ljósmyndaverk. Þórdís hefur sýnt víða hérlendis, bæði sín verk og í samstarfi við Ingunni Fjólu Ingþórsdóttur undir heitinu Hugsteypan.
Í sýningarskrá skrifar Einar Lövdahl ritöfundur um sýninguna og segir meðal annars: „Á sýningunni má sjá verk Þórdísar Jóhannesdóttur sem eru afrakstur viðleitni hennar til að skrásetja millibilið. Og gott betur, því Þórdís hefur teygt millibilsaugnablikin til, magnað þau upp, steypt í ný mót og þar með fært okkur hinum ný og óvænt sjónarhorn á kunnuglegt umhverfi.“
Um verk sín á sýningunni segir Þórdís: „Það má segja að verkin séu vangaveltur um ljósmyndina. Ég skapa þrívítt form úr plexígleri sem ég prenta ljósmyndir á, sem verða fyrir vikið hálfgagnsæjar. Þegar ljósið fellur á þær þá fellur eftirmynd af forminu á vegginn og áhorfandinn fer að velta fyrir sér hvar myndin byrjar og hvar hún endar. Þetta er eins konar leikur að ljósmyndinni og miðlinum sjálfum.“
Um vinnuaðferðir sínar segir hún: „Ég vinn yfirleitt þannig að ég tek mikið af myndum og safna í gagnabanka og þegar kemur að sýningum byrja ég að rýna í þær, para saman og gera skissur. Hver mynd er eitt brot sem ég svo leitast við að púsla saman við aðrar sem svo saman mynda, eins og hér í sal 2, heildræna innsetningu. Ég upplifi stundum eins og þetta vinnuferli mitt sé á ákveðinn hátt lífrænt, að myndirnar pari sig saman sjálfar. Ég fer sjaldnast í leiðangra sérstaklega til að leita að myndefni en gríp frekar hversdagsleg augnablik á gangi, þar sem ég er stödd hverju sinni.“
Spurð um myndefnið segir hún: „Myndefnin sjálf eru af alls kyns smáatriðum í rýmum. Oftar en ekki einhvers konar samspili ljóss og skugga á mörkum þess manngerða og náttúrulega, eins og ljósmyndinni er svo eðlislægt að fanga. Skemmtilegast finnst mér að fanga brot sem blasa við fólki í hversdagsleika sínum, en það er samt ekki augljóst hvaðan koma þegar þau hafa verið sett fram í föstu formi.“
Í sal 3 í Listasafni Árnesinga er samsýningin Lífrænar hringrásir sem teygir sig yfir í anddyri safnsins, á lóð safnsins, í Hveragarðinn, að Varmá og upp í Kambana. Listamennirnir sem þar sýna verk sín eru: Anna Líndal, Elísabet Jökulsdóttir & Matthías Rúnar Sigurðsson, Freyja Þórsdóttir, Heather Barnett, Herwig Turk, Ilana Halperin, Jennifer Helia DeFelice, Magnea Magnúsdóttir, Patrick Bergeron, Pétur Thomsen, Skade Henriksen og Þorgerður Ólafsdóttir.
„Verkin á þessari sýningu tengjast vísinda- og náttúruhugsun listamanna, eru oft gerð í samstarfi við vísindamenn og byggð á margra ára rannsóknum. Dæmi um það er verk í sal 3 eftir Önnu Líndal um Vatnajökul. Hún hefur áratugum saman farið í ferðir á Vatnajökul með eiginmanni sínum Magnúsi Tuma Guðmundssyni, prófessor í jarðeðlisfræði,“ segir Kristín Scheving safnstjóri.
Kristín nefnir fleiri listamenn sem eiga verk á samsýningunni. „Pétur Thomsen, sem hefur unnið mikið uppi á Kárahnjúkum, er með verk í anddyri safnsins. Skade Henriksen hefur í Noregi sett upp alls konar hlustunartæki til að nema hljóð frá steinum og hér á landi gerir hún það sama með hraunsteina. Heather Barnett hefur í tugi ára rannsakað hvernig slímmygla hegðar sér og austurríski listamaðurinn Herwig Turk vinnur með landslag án trjáa. Jennifer Helia DeFelice hefur í nokkur ár rannsakað lúpínu sem henni þykir afar áhugaverð vegna umræðunnar á Íslandi þar sem fólk er annaðhvort með eða á móti lúpínu.“
Listakonan Ilana Halperin er með verk sem varpar ljósi á umbreytingu steina í gegnum tíma. Freyja Þórsdóttir, sem hefur meðal annars velt fyrir sér stöðu náttúrunnar sem reglulegur pistlahöfundur hjá Víðsjá, sýnir ljóð og skrifar auk þess sýningartexta samsýningarinnar sem nálgast má á heimasíðu safnsins. Á sýningunni má einnig skoða vídeó- og hljóðverk eftir Patrick Bergeron sem grundvallast á hreyfingu vinds og virða fyrir sér lifandi mosa í verki Magneu Magnúsdóttur landgræðslufræðings. Þorgerður Ólafsdóttir er með verkið Spor sem er í Kömbunum og að lokum má nefna að Elísabet Jökulsdóttir og Matthías Rúnar Sigurðsson eru saman með verkið Þetta líður hjá sem er stóll úr grágrýti staðsettur við Varmá en auk þess mun Elísabet fremja gjörning við sömu á einhvern tímann á næstunni.
Safnið fékk styrk frá Barnamenningarsjóði til að bjóða öllum skólum í Árnessýslu að sjá sýninguna. „Við munum bjóða vísindamönnum og listamönnum í samtal við þetta unga fólk. Það er gaman að sýna hvað þessir listamenn eru að gera, en oft eru þeir að rannsaka í mörg ár eitthvað sem verður síðan að listaverki,“ segir Kristín.
Í sal 4 er sýningin Volvox (Kyllir). Hún er samvinnuverkefni listafólks og vísindamanna frá Hydrodynamics Laboratory í Ecole Polytechnique, Light, Matter and Interfaces rannsóknarstofunni og Institute of Physical Chemistry í Paris-Saclay-háskólanum og Institut Polytechnique de Paris og innblásið af samnefndum örsmáum þörungum. Þegar sýningunni í Hveragerði lýkur mun hún ferðast til Kína.