Samkvæmt Íslendingabók er ég 28. maður frá Melkorku Mýrkjartansdóttur hinni írsku og 31. maður frá Auði djúpúðgu Ketilsdóttur, sem gift var norrænum herkonungi í Dyflinni á Írlandi, en hraktist til Íslands seint á níundu öld, eftir að maður hennar og sonur höfðu verið felldir

Samkvæmt Íslendingabók er ég 28. maður frá Melkorku Mýrkjartansdóttur hinni írsku og 31. maður frá Auði djúpúðgu Ketilsdóttur, sem gift var norrænum herkonungi í Dyflinni á Írlandi, en hraktist til Íslands seint á níundu öld, eftir að maður hennar og sonur höfðu verið felldir. Það var því fróðlegt að koma til Dyflinnar, þar sem ég hélt fyrirlestur á málstofu 17. september 2024 ásamt Íslandsvininum Daniel Hannan, barón af Kingsclere.

Í fyrirlestri mínum rakti ég hina fornu germönsku sjálfstjórnarhefð, sem Tacitus lýsti fyrir tvö þúsund árum og Montesquieu taldi upphaf þrískiptingar ríkisvalds. Snorri Sturluson átti rætur í þessari hefð. Hann hafði samúð með tveimur forngermönskum hugmyndum, að valdhafar yrðu að lúta sömu lögum og þegnar þeirra og að svipta mætti þá völdum, brytu þeir lögin freklega. Seinna átti John Locke eftir að binda þessar hugmyndir í heimspekikerfi. Frjálshyggja hans og þeirra Davids Humes og Adams Smiths var í rauninni útlegging á þeirri stjórnmálahefð, sem myndast hafði á Stóra Bretlandi, ekki síst með byltingunni blóðlausu 1688, en hún var gerð til að treysta og færa út hefðbundin réttindi.

Franska byltingin 1789 var hins vegar tilraun til að umskapa allt þjóðlífið eftir kenningum rithöfunda, sem enga reynslu höfðu af mannaforráðum. Hún hlaut að enda illa. Þetta sá Edmund Burke, og í meðförum hans varð frjálshyggja þeirra Lockes, Humes og Smiths að frjálslyndri íhaldsstefnu, sem þeir Alexis de Tocqueville og Friedrich von Hayek efldu síðar að rökum. Fyrir þeim voru aðalatriðin valddreifing, viðskiptafrelsi og einkaeignarréttur. Hin kvísl frjálshyggjunnar varð frjálslyndisstefna þeirra Tómasar Paines, Johns Stuarts Mills, Johns Maynards Keynes og Bertils Ohlins, en hún einkennist af víðsýni, rómantískri einstaklingshyggju og örlæti á almannafé.