Tónleikar undir yfirskriftinni Litróf orgelsins verða haldnir í Akureyrarkirkju í hádeginu í dag, 21. september, kl. 12. Organistinn Eyþór Ingi Jónsson flytur þar verk eftir Johann Sebastian Bach, Petr Eben, Joseph Haydn, Hauk Guðlaugsson, Hildi Guðnadóttur, Ghislaine Reece-Trapp, Robert Schumann, Smára Ólason og Johann Ulrich Steigleder.
Verða þetta fyrstu tónleikarnir í röð sem Eyþór mun standa fyrir næstu misserin og hann kallar Litróf orgelsins, en hann mun leggja metnað í að sýna fjölbreytileika hljóðfærisins með því að spila afar fjölbreytta orgeltónlist og umritanir á öðrum verkum fyrir orgel, að því er segir í tilkynningu. Eyþór heldur stutt erindi um efnisskrána kl. 11.45 en lengd tónleikanna, sem hefjast kl. 12, er um 40-45 mínútur.