„Fyrir lögreglumenn er aðkoma á vettvangi, þar sem börn eiga í hlut, ávallt erfið og í samræmi við þá erfiðleika sem almenningur upplifir í málum sem þessum,“ segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild…

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

„Fyrir lögreglumenn er aðkoma á vettvangi, þar sem börn eiga í hlut, ávallt erfið og í samræmi við þá erfiðleika sem almenningur upplifir í málum sem þessum,“ segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, við Morgunblaðið um rannsókn á andláti 10 ára stúlku sem fannst látin við Krýsuvíkurveg sl. sunnudagskvöld.

„Það sama á við um aðra þá sem aðkomu hafa, s.s. sjúkraflutningafólk og heilbrigðisstarfsfólk. Þeim sem að þessum málum koma er boðin handleiðsla sérfræðinga í kjölfar útkalls og rannsóknar sem þeim er í sjálfsvald sett hvort þau þiggja. Mörg hafa sínar eigin aðferðir til að takast á við það sem þau upplifa í starfinu,“ segir Grímur enn fremur.

Landsmenn eru slegnir óhug vegna þessa máls en faðir stúlkunnar var handtekinn á vettvangi, grunaður um að vera valdur að andlátinu.

Rannsókn málsins er umfangsmikil. Að sögn Gríms komu hátt í 50 manns að útkallinu við Krýsuvíkurveg. Þá eru hátt í 20 sem vinna við rannsóknina. Þegar barn á í hlut verður vinna þeirra enn erfiðari en ella. Farið er yfir atburðarás málsins í blaðinu í dag.