Brotist var inn í reiðhjólaverslunina TRI aðfaranótt fimmtudags og fimm hjólum stolið auk þess sem skemmdarverk voru unnin á versluninni.
Þetta segir Róbert Grétar Pétursson, framkvæmdastjóri TRI, í samtali við mbl.is.
Annað innbrotið á árinu
Þetta er í annað sinn sem brotist er inn í TRI á árinu, en síðasta innbrot var framið í vor.
TRI er þó ekki eina hjólreiðaverslunin sem hefur orðið fyrir barðinu á glæpamönnum en lögreglu hafa borist tilkynningar um stuld á hjólum úr verslununum Peloton, Erninum, Kríu og Púkanum frá því í apríl.
Að sögn Róberts kostuðu hjólin sem voru tekin öll yfir 600 þúsund krónur. Tvö þeirra voru rafmagnshjól og þrjú malarhjól, en Róbert segir þær hjólategundir vera vinsælastar um þessar mundir. Hann segir að svo virðist vera sem innbrotsþjófarnir viti hvers virði hjólin eru og þess vegna sé þeim stolið umfram önnur hjól.
Spörkuðu lúgunni, körmunum og vinklunum út
Spurður út í hvaða skemmdarverk voru unnin á versluninni segir Róbert:
„Þeir fóru ekki í gegnum rúðu heldur er lúga við hliðina á húsinu sem við vorum búnir að bolta fasta með fjórum járnvinklum, en þeir spörkuðu bara lúgunni, körmunum og vinklunum út. Þannig að ég horfði bara inn í vegginn. Þar fóru þeir inn,“ segir hann.
Búið er að finna tvö af þeim fimm hjólum sem stolið var í TRI og fundust þau í Laugardalnum.
„Öll hjól sem hefur verið stolið hjá okkur og hafa fundist hafa fundist í Laugardalnum, þó að ég viti ekki af hverju það er.“
Þetta er í annað sinn á árinu sem brotist er inn í verslunina, en eins og fyrr segir var brotist inn í TRI í vor.
Róbert segir að að jafnaði séu um eitt til tvö innbrot á ári en hann er ekki viss um að um fjölgun sé að ræða.
Hann segist þó vita til þess að sömu aðilar og brutust inn í TRI aðfaranótt fimmtudags reyndu að brjótast inn í reiðhjólaverslunina Kríu sömu nótt.