Arnar Sigurðsson
Arnar Sigurðsson
„Ég byrjaði á að minna nefndarmenn á að þeir væru kallaðir til sinna starfa til að tryggja réttindi samborgara sinna en ekki skerða þau,“ segir Arnar Sigurðsson, vínkaupmaður í Sante. Arnar var kvaddur á fund stjórnskipunar- og…

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Ég byrjaði á að minna nefndarmenn á að þeir væru kallaðir til sinna starfa til að tryggja réttindi samborgara sinna en ekki skerða þau,“ segir Arnar Sigurðsson, vínkaupmaður í Sante.

Arnar var kvaddur á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis á miðvikudaginn þar sem umræðuefni var verslun með áfengi á netinu. Nefndin hefur fjallað um þessi málefni að undanförnu og meðal annars boðað á sinn fund ráðherra og embættismenn úr ráðuneytum. Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður nefndarinnar, vildi ekki ræða efni fundarins þegar eftir því var leitað en sagði þó að gestir hefðu verið frá forvarnarsamtökum, ÁTVR og fulltrúi frá netsölu.

Arnar hefur haldið uppi harðri gagnrýni á ÁTVR og virðist ekki hafa hafa haldið aftur af sér á fundinum. Hann kveðst hafa sagt að hann átti sig ekki alveg á umboði nefndarinnar, ekki væri hún saman komin til að fjalla um lögmæti frjálsra viðskipta, þar sem slíkt væri í höndum þar til bærra yfirvalda. „Hins vegar liti ég svo á að hér væri verið að leita svara við þeirri spurningu hvort einkaaðilum eða hinu opinbera væri betur treystandi til að stunda sölu á áfengi. Svarið væri nokkuð augljóst, hið opinbera hefði sýnt í hvívetna að því væri ekki treystandi og að það hvorki tryði eigin boðskap eða fullyrðingum um að aukið aðgengi þýddi aukna neyslu.“

Kaupmaðurinn segir enn fremur að tveir nefndarmanna hafi spurt hann hvort Sante hefði einhver markmið á sviði lýðheilsu og samfélagslegrar ábyrgðar. Hann segist hafa svarað því skýrt að um þrjú meginmarkmið væri að ræða; skilríkjaeftirlit væri 100% og því engin unglingasala, úrval af óáfengum vínum sem haldið væri að viðskiptavinum sem keyptu vín í veislur og að standa skil á opinberum gjöldum og viðhafa keðjuábyrgð, þ.e. að taka aldrei til sölu vörur sem augljóslega væru viðriðnar tollamisferli. „Ekki þarf að fjölyrða um að á ofangreindum sviðum skilar smásölustarfsemi hins opinbera auðu.“