Árni Sigurðsson
Árni Sigurðsson
„Mér datt strax í hug að nota þessa heitu hveri til að hita upp Reykjavík og reyndi að stuðla að framgangi þess, jafnvel meðan á stríðinu stóð.“

Árni Sigurðsson

Sá brandari hefur gengið um áratugaskeið að Winston Churchill, leiðtogi Breta í síðari heimsstyrjöldinni, hafi eignað sér heiðurinn af hugmyndinni um hitaveitu á Íslandi. Í fyrstu kann þetta að hljóma ólíkindalega, en sagan hefur að geyma ákveðinn sannleikskjarna. Í þriðja bindi stríðsáraendurminninga sinna um heimsstyrjöldina síðari rifjar Churchill upp daglanga heimsókn til Íslands þann 16. ágúst 1941. Þá var hann á heimleið til Bretlands eftir sögulegan fund með Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseta, undan ströndum Nýfundnalands, þar sem þeir urðu ásáttir um Atlantshafssáttmálann, sem síðar varð hornsteinn Atlantshafsbandalagsins.

Í frásögn Churchills lýsir hann Íslandsförinni og bætir svo við: „Ég fann tíma til að skoða nýju flugvellina sem við vorum að reisa og heimsótti einnig hina dásamlegu heitu hveri og gróðurhúsin sem þeir þjóna. Mér datt strax í hug að nota þessa heitu hveri til að hita upp Reykjavík og reyndi að stuðla að framgangi þess, jafnvel meðan á stríðinu stóð. Ég er ánægður með að það hafi nú verið framkvæmt.“ Þessi frásögn varð tilefni brandarans um að Churchill hefði eignað sér hugmyndina að hitaveitunni. Hins vegar höfðu lengi verið uppi áform um að nýta jarðhitann, en hitaveitulagnir, sem átti að nýta til þess, voru fastar í Kaupmannahöfn vegna hernáms Þjóðverja, og það tafði framkvæmdirnar þar til stríðinu lauk.

Sveitasetrið

En af hverju skyldi Churchill, leiðtogi þjóðar á ögurstundu í blóðugri baráttu við Þýskaland nasismans, hafa heillast svona af heitum hverum hér lengst norður í ballarhafi? Svarið er að finna í ástríðu Churchills fyrir því að skapa sér sælureit í sveitinni. Hann hafði árið 1922 keypt Chartwell, sveitasetur í niðurníðslu í Kent, rétt suðaustur af London, sem hann endurbyggði og lagaði að eigin þörfum. Þar leið honum best. „Dagur fjarri Chartwell er dagur farinn í súginn,“ sagði hann iðulega. Nokkrum árum fyrir Íslandsheimsóknina hófst hann handa við að láta gera upphitaða útilaug, verkefni sem reyndist bæði dýrt og tímafrekt.

Laugin var þó ekki aðeins munaður heldur einnig griðastaður, þar sem hann synti, svamlaði og skipulagði hugsanir sínar, fjarri orrahríðinni í breska þinginu. Chartwell var „orðaverksmiðja“ hans. Churchill var sískrifandi bækur, greinar og ræður til að halda fjármálunum á floti, því lífsstíll hans var dýr og ekkert var ættarsilfrið. Á þessum öræfaárum, áratugnum sem hann var utan ríkisstjórnar í aðdraganda seinni heimsstyrjaldar, hafði hann aðeins þingfararkaupið og tekjur af lausamennsku. Hann var þá hæst launaði penni Bretlands en til að halda öllu gangandi þurfti hann að vera sískrifandi. Á langri ævi varð hann afkastameiri en bæði Shakespeare og Dickens til samans. Þessi ritstörf áttu sinn þátt í að honum voru veitt Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1953 – ári á undan Hemingway 1954 og tveimur árum á undan Halldóri Laxness sem hreppti þau 1955.

Sundlaugarævintýr

Churchill var, líkt og Napóleon, háður heitum böðum. Daglegar baðvenjur hans í seinni heimsstyrjöldinni áttu eftir að verða frægar, þar sem hann las fyrir bækur, greinar og ræður meðan hann flatmagaði í baðkarinu með einkaritara á stól fyrir utan baðherbergisdyrnar. Á heitari slóðum, eins og í S-Frakklandi, nýtti hann sér hvert tækifæri til að synda í sjónum. En með því að vera með upphitaða laug á sveitasetrinu sá hann fram á frelsi til að njóta heilsubótar af sundiðkun, hvernig sem viðraði.

Sundlaugarframkvæmdin reyndist þó hvorki létt verk né löðurmannlegt. Framkvæmdatíminn varð tvö ár (1934-35) og kallaði á ítrekað ráðabrugg með verkfræðingum, arkitektum og endurskoðandanum til að reyna að hemja kostnaðinn. Laugin var upphituð til að bæta upp fyrir hið hrollkalda enska veður, en hitakerfið sjálft reyndist kostnaðarsamt og rekistefna hvort ætti að vera kola- eða olíukynding. Heildarkostnaðurinn nam um 2.000 pundum á þriðja áratugnum, sem samsvarar til 140.000 punda uppreiknuðu verðlagi dagsins í dag, eða um 25,5 milljónum íslenskra króna. Í ljósi þessa er auðveldara að skilja af hverju Churchill heillaðist svona af íslenskum hverum, hvar upp úr vall ókeypis hiti í óþrjótandi magni. Hefði hann fæðst Íslendingur, er hægt að fullyrða að hann hefði verið fastagestur í sundlaugunum.

Kraftmikill brautryðjandi

Þótt tillaga Churchills um að Íslendingar skyldu nýta heitu hverina til upphitunar í Reykjavík sé spaugileg í baksýnisspeglinum gefur hún okkur innsýn í huga leiðtoga sem var óendanlega forvitinn um heiminn í kringum sig. Í miðri heimsstyrjöld, þegar allar heimsins áhyggjur hvíldu á herðum hans, fann hann þó andlegt svigrúm til að undrast íslenska jarðhitann sem vakti fögnuð hans og áhuga. Hann var framfarasinnaður og alltaf opinn fyrir nýjungum. Hann var hvarvetna brautryðjandi framfara þar sem hann gat látið til sín taka í krafti ráðherraembætta á löngum stjórnmálaferli. En eins og hann sagði sjálfur: „Ég er alltaf tilbúinn að læra, þótt ég sé ekki alltaf tilbúinn að vera kennt.“

Höfundur er klúbbstjóri Churchill-klúbbsins á Íslandi.

Höf.: Árni Sigurðsson