Á örfáum síðustu árum hafa útlendingar sest að á Íslandi í meiri mæli en nokkru sinni og eru nú ríflega fimmtungur landsmanna. Þar er misjafn sauður í mörgu fé og að því var vikið í athyglisverðu viðtali Hauks Holm á Rúv. við Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóra á Suðurnesjum.
Hann talaði enga tæpitungu: „Það væri auðvitað glapræði – það getur vel verið að það sé orðið of seint – að halda ekki uppi góðu eftirliti og halda óþjóðalýð frá landinu. Það er nú kannski það sem við erum að gera flesta daga, við erum að halda frá landinu fólki, sem ýmist er komið hingað til að brjóta af sér með því að leggjast hér í þjófaleiðangra eða stunda hér svarta atvinnustarfsemi.“
Áherslu annarra Schengen-ríkja sagði hann ekki liggja á innri landamærunum. „Það aftur á móti þýðir ekki það að við getum ekki haft eftirlit með þeim sem koma hingað með öðrum hætti og þá skipta farþegaupplýsingar lykilhlutverki í því eftirliti og eins frumkvæðisvinna.“
Hins vegar hefði um árabil gengið treglega að fá þær upplýsingar frá sumum flugfélögum, en dómsmálaráðuneytið segði stranda á samningum við ESB. Úlfar minnir á að á Íslandi gildi íslensk lög og heimildir til að beita flugrekstraraðila sektum veiti þeir ekki umbeðnar upplýsingar. Það hafi þó aldrei verið gert. „Og á því er ég hissa og að það sé unnið að samkomulagi, sem kannski í reyndinni er óþarft, þar sem við búum við íslenska löggjöf.“