Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Frumvarp um lögleiðingu hnefaleika hefur verið lagt fram á Alþingi á nýjan leik, en skv. því verður heimiluð keppni í hnefaleikum, bæði áhugamanna og atvinnumanna. Jafnframt verði heimiluð sala á þeim búnaði og tækjum sem hnefaleikum tengjast. Í frumvarpinu er mælt fyrir um að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands setji reglur um iðkun íþróttarinnar og þjálfun, ásamt mótshaldi.
Ágúst Bjarni Garðarsson alþingismaður Framsóknarflokksins er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins og sagði hann í samtali við Morgunblaðið að hann hefði tekið eftir því þegar hann sat í bæjarstjórn Hafnarfjarðar að öll umgjörð hnefaleika væri fagleg og öflugt starf í kringum greinina.
Ólympískir hnefaleikar hafa verið heimilaðir hér á landi frá árinu 2022, en verði téð frumvarp að lögum verða hefðbundnir hnefaleikar leyfðir og þar með atvinnumennska í íþróttinni.
„Að mínu mati eru engar forsendur fyrir því að banna hnefaleika. Við eigum afreksmenn, atvinnumenn í hnefaleikum sem þurfa að keppa erlendis, en geta ekki keppt hér heima. Þetta er líka prinsippmál, bann við hnefaleikum er skerðing á atvinnufrelsi. Fyrir mér er þetta eðlilegt skref, það er fagleg umgjörð í kringum þessa íþrótt og ekkert sem kallar á að hún verði áfram bönnuð,“ segir Ágúst Bjarni.
Tímabært frumvarp
„Mér líst mjög vel á þetta,“ segir Gunnar Guðjónsson, formaður Hnefaleikafélags Hafnarfjarðar, spurður um afstöðu sína til frumvarpsins og segir hann löngu tímabært að leggja fram frumvarp þessa efnis.
Hann segir að um hundrað ungmenni, allt niður í 10 ára aldur, leggi stund á íþróttina á vettvangi félagsins og flosni að líkindum upp úr íþróttum þegar þau fullorðnist þar sem atvinnumennska sé ekki leyfð í greininni.
Margir iðkendur
„Það er ekki gott. Við viljum halda góðu íþróttafólki sem lengst,“ segir hann og nefnir að iðkendur ólympískra hnefaleika á Íslandi séu fjölmargir, á bilinu fimmtán hundruð til tvö þúsund talsins víða um land.
Með lögleiðingu hnefaleika muni koma peningar í íþróttina sem sé jaðaríþrótt eins og sakir standa.
Hann kveðst hafa rætt við þingmenn vegna þessa máls og segist sannfærður um að frumvarpið verði að lögum, komist það til lokaafgreiðslu á Alþingi.