Guðrún Guðmundsdóttir (Gauja) fæddist í Reykjavík 4. nóvember 1941. Hún lést 10. september 2024 á Dvalarheimilinu Höfða, Akranesi.
Foreldrar Guðrúnar voru Guðmundur Halldórsson Jónsson framreiðslumeistari, f. 10. mars 1910, d. 12. júlí 1989, og Sigurbjörg Viktoría Sigurgeirsdóttir húsmóðir, f. 16. janúar 1909, d. 1. október 1989.
Systkini Guðrúnar eru: Sigmundur, f. 7. maí 1928, d. 8. júlí 2018, Sigríður, f. 8. ágúst 1929, d. 29. júlí 2003, Jón Þorbergur, f. 9. júní 1932, d. 7. mars 2007, Egill, f. 13. janúar 1936, d. 16. janúar 1956.
Guðrún giftist 10. mars 1961 eftirlifandi eiginmanni sínum, Ragnari Gunnarssyni matreiðslumeistara, f. 8. desember 1933. Foreldrar Ragnars voru Gunnar Vilhjálmsson, f. 14. júní 1905, d. 15. júlí 1974, og Guðlaug Guðrún Guðlaugsdóttir, f. 31. maí 1908, d. 30. maí 2002.
Guðrún og Ragnar eignuðust fjóra drengi: 1) Dreng, f. 18. maí 1961, d. 18. maí 1961, 2) Guðmund Egil, f. 20. febrúar 1963, kvæntur Kristínu Karólínu Harðardóttur, f. 25. mars 1966, 3) Gunnar Sigurgeir, f. 7. september 1966, kvæntur Sigrúnu Baldursdóttur, f. 11. júní 1974 og 4) Ragnar Má, f. 20. mars. 1973, kvæntur Þórnýju Öldu Baldursdóttur, f. 20. júlí 1975.
Barnabörn Guðrúnar og Ragnars eru sex, þau Maren Helga Guðmundsdóttir, Alexander Egill Guðmundsson, Viktoría Gunnarsdóttir, Guðlaug Sara Gunnarsdóttir, Hera Guðrún Ragnarsdóttir og Heiðar Már Ragnarsson. Barnabarnabörn Guðrúnar og Ragnars eru fjögur, þau Júlía Dís, Hafþór Björgvin, Gunnar Leó og Markús Mói.
Guðrún og Ragnar bjuggu framan af í Sæviðarsundi í Reykjavík en þar byggðu þau sér hús. Síðar fluttu þau til Bandaríkjanna þar sem þau bjuggu í tæp tvö ár. Árið 1980 fluttu Guðrún og Ragnar ásamt sonum upp á Akranes og bjuggu þau hjónin þar til dagsins í dag, fyrir utan fimm ár í Reykjavík. Guðrún lærði hárgreiðslu og vann við það eftir nám. Einnig sinnti hún ýmsum öðrum störfum og starfaði m.a. sem flugfreyja og á leikskóla. Einnig ráku þau hjónin Matstofu Austurbæjar og veitingasölu á Kjarvalsstöðum og tók Guðrún virkan þátt í þeim rekstri.
Útför Guðrúnar fer fram frá Akraneskirkju í dag, 24. september 2024, klukkan 13.
Það er mjög dýrmætt að eignast góða vini, enn dýrmætara þegar vinir foreldra manns verða líka góðir vinir manns. Það eru þau sannarlega Gauja og Raggi og ég er þakklát fyrir ljúf kynni í næstum 50 ár. Þau voru góð saman vinirnir Gauja, Raggi, Ása og Gylfi, þá var glatt á hjalla, ferðalög innan lands sem utan og hittingar heima hjá hvert öðru. Gunnar bróðir Ragga var líka hluti af genginu og eftir að hann flutti heim frá Ameríku fjölgaði samverustundum þeirra fimm, vinskapur þeirra skipti þau öll máli, minningar sem eru þeim öllum kærar.
Ég er með nafnið mitt að láni frá Gauju vinkonu. Þegar ég fæddist haustið 1975 var mamma ákveðin í að ég skyldi heita í höfuðið á móður hennar en það vantaði millinafn þar sem frumburðurinn sem fæddist árinu áður heitir tveimur nöfnum. Hún hugsaði strax til Gauju vinkonu sinnar sem var þá þegar orðin þriggja stráka mamma og ef stelpan skyldi koma þá var nafnið þegar valið. Mamma hringdi í Gauju og spurði hvort planið væri að bæta við fleiri börnum, svarið var nei og þá var spurt hvort mamma mætti fá Camillu-nafnið lánað? Gauja hélt það nú og við Gauja hófum okkar vegferð saman sem vinkonur, enda átti hún alltaf í mér hvert bein, ég var hennar Camilla.
Ég minnist þess með mikilli hlýju þegar ég var hjá Gauju og Ragga sumarið 1981 um þriggja vikna skeið á meðan mamma og pabbi voru í ferðalagi um Evrópu. Ég var prinsessan á heimilinu með þrjá eldri „bræður“ og Gauju og Ragga sem snerust í kringum mig til að láta mér líða vel og að ég myndi ekki sakna foreldranna of mikið. Þarna kynntist ég Gauju sem kærleiksríkri og góðri manneskju sem hafði endalausan tíma fyrir mig að mér fannst. Þau höfðu nýlega flutt upp á Skaga þegar þetta var og það var sko ævintýri fyrir fimm, næstum sex ára, stelpu að fara með Akraborginni til að komast til þeirra. Kokkurinn Raggi er góður kokkur og Gauja var líka meistarakokkur, þið getið rétt ímyndað ykkur dásemdartíð mína í þessari heimsókn þegar kom að mat. Eitt stóð upp úr en það var fræga bleiusósan sem flestir þekkja betur sem bearnaisesósu, Raggi er meistari í að gera heimsins bestu bleiusósu, í hvert skiptið sem ég borða steik með bleiusósu reikar hugurinn upp á Skaga til Gauju og Ragga.
Eitt sem Gauja gerði þegar kom að kveðjustund var að kyssa alltaf tvisvar á kinn, sitt á hvora kinn. Þannig kvaddi ég hana nokkrum dögum fyrir andlátið þegar ég þakkaði minni kæru Gauju fyrir allt sem hún gerði fyrir mig, hennar er sárt saknað. Minn kæri Raggi-pabbi, þið duttuð í lukkupottinn með hvort annað, þið áttuð gott líf saman. Egill, Gunni og Raggi – megi minningar um ykkar heimsins bestu mömmu sefa sárustu sorgina.
Megi Guð blessa og varðveita minningu Guðrúnar Guðmundsdóttur.
Ásta Camilla Gylfadóttir.