Sýningin „Á sýningunni er blanda af verkum sem kallast á og sýna ákveðna þróun,“ segir Margrét Jónsdóttir.
Sýningin „Á sýningunni er blanda af verkum sem kallast á og sýna ákveðna þróun,“ segir Margrét Jónsdóttir. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hugsýn í hálfa öld er yfirskrift sýningar Margrétar Jónsdóttur í Grafíksalnum Tryggvagötu, en 50 ár eru síðan Margrét útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Margrét hefur haldið yfir fimmtíu einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og erlendis

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Hugsýn í hálfa öld er yfirskrift sýningar Margrétar Jónsdóttur í Grafíksalnum Tryggvagötu, en 50 ár eru síðan Margrét útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Margrét hefur haldið yfir fimmtíu einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og erlendis.

„Á sýningunni er blanda af verkum sem kallast á og sýna ákveðna þróun í vinnuferli mínu. Um tíma vann ég með olíu og elstu verkin á sýningunni eru frá olíutímabilinu, gerð í kringum 2000. Undanfarin tuttugu og fimm ár hef ég svo eingöngu unnið með vatnsleysanleg efni, vatnslit og eggtempuru og geri stöðugar tilraunir með þau efni. Vatnsliturinn og pappírinn finnst mér vera lifandi efni og nálægt náttúrunni,“ segir Margrét.

Margrét vinnur að list sinni á Ísland og í Frakklandi. „Ég varð fljótlega á ferlinum svo heppin að fá alltaf vinnustofu hjá Cité internationale des arts í París á hverju sumri. Í París fékk ég efni og pappír sem ekki fékkst á Íslandi. Auk þess var ódýrara að lifa í Frakklandi. Það skiptir mig miklu máli að hafa vinnuaðstöðu í Frakklandi, geta komist héðan og fengið að anda.“

Margrét vinnur með myndraðir. „Ég get verið mörg ár með hverja myndröð. Ég sé strax ef eitthvað vantar í verkin og þá vinn ég þau áfram eða set í bið. Nýjustu verkin á sýningunni voru til dæmis nokkur ár í vinnslu.“

Veggfóður og skreytilist

Myndefnið í nýjustu verkum hennar er, eins og áður, franskt veggfóður. „Ég keypti mér vinnustofu í Frakklandi fyrir tuttugu og einu ári, hús sem hafði ekki verið búið í í þrjátíu ár, og vinnan við veggina varð til þess að ég hugsaði mikið um veggfóður og skreytilist og hvað náttúran er fljót að eyðileggja puð mannsins.

Veggfóður hefur svo margar meiningar og það má endalaust leggja út af því og sjá til dæmis ýmisleg tengsl við náttúruna en ég hef einnig verið að vinna verk í samvinnu við náttúruna þar sem rotnunin og eyðileggingin kemur við sögu. Verkin eiga líka að vera ádeila á skrautið og tilgangsleysið.

Verkin á sýningu minni í Grafíksalnum eru tvískipt að vissu leyti. Þar eru myndraðir sem spretta út frá frönsku veggfóðri og svo er önnur myndröð sem ég fann í einum bunkanum sem unnin er með olíu á pappír og líkast til upphafið að veggfóðursmyndunum. Einnig eru nokkrar „shit“-myndir sem hafa verið í vinnslu öðru hvoru í nokkra áratugi og eru mótvægi við allt skrautið.“

Spurð hvað hún eigi við með „shit“-myndum segir Margrét: „Eitt sumarið þegar ég hafði vinnustofudvöl við Cité internationale des arts þá fór sumarið í að mynda ástarjátningar skornar í tré meðfram Signu og hundakúka á strætum Parísar. Þetta tengdist einhvern veginn í huga mínum en „shit“-verkin hafa tvöfalda merkingu.

Myndataka mín á kúkunum vakti þó nokkra athygli sem var ansi þreytandi. Ég notaði síðan ljósmyndirnar til að vinna myndröðina „SHIT“ sem var nokkra áratugi í vinnslu. Verkin fóru meðal annars á einkasýningu sem ég hélt í Listasafni ASÍ þar sem ég vann með forgengileikann. Verkin hafa einnig verið á samsýningu á Kjarvalsstöðum og norrænni vatnslitasýningu í Norræna húsinu ásamt nokkrum öðrum einkasýningum mínum. Eitt virt kaffihús neitaði hins vegar að sýna þessi verk.“

Kona í menningarheimi karla

Margrét segir liti skipta sig miklu máli. „Með árunum hef ég orðið nokkuð litaglöð.“ Rauður litur er áberandi í mörgum verka hennar. „Fyrir mér táknar hann blóð og ég tengi hann við konur. Konur þurfa að hafa fyrir lífinu.“ Spurð hvort verkin séu femínísk segir hún: „Ég hef aldrei hugsað verkin mín beinlínis út frá femínisma en hef alltaf unnið þau út frá því að vera kona í menningarheimi karla, femínismi var ekki til þegar ég hóf að vinna mína myndlist. Alveg frá byrjun fann ég fyrir því að það var erfiðara að vera kona í myndlistarheiminum en karl, en þegar veggfóðrið fór að sækja á mig í byrjun varð mér hugsað til lífssögu einnar formóður minnar í beinan kvenlegg sem var útlendingur.“

Margrét segist vinna á hverjum degi. „Ég er líka stöðugt í hugmyndavinnu. Það kemur ekki allt úr skissubókinni. Þetta er ferli og þar gerist bæði margt og mikið.“

Sýning Margrétar í Grafíksalnum stendur til 29. september.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir